04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í C-deild Alþingistíðinda. (2719)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Sigurjón Jónsson:

Jeg skil vel ótta hv. frsm. og hv. þm. Str., sem talað hafa nýlega í þessu máli, og finst ekki nema eðlilegt, þó að þeir vilji setja öryggisráðstafanir bænda vegna, gegn því, að þessi skæða búpeningspest berist hingað til lands. En þeir verða í því sambandi að gæta hófs og ganga ekki of langt. Hv. þm. Str. sagðist heldur vilja setja of stranga löggjöf en eiga á hættu, að veikin bærist hingað. (TrÞ?: Vitanlega!). En mjer er spurn: Getum við útilokað með strangri löggjöf, að veikin berist hingað? Jeg held ekki. — Jeg held við getum ekki með neinu njóti útilokað okkur svo frá viðskiftum annara þjóða, að það sje með öllu fyrirbygt, að veikin geti borist hingað. Þess vegna verðum við að gæta alls hófs og varast að lenda í tómum öfgum.

Jeg skil vel, þó að þessir háttv. þm., sem telja sig forsvarsmenn bænda, vilji tryggja sem best hag þeirrar stjettar. En þeir verða þá um leið að gæta þess, að þeir vinni ekki öðrum stjettum tjón. En ráðstafanir þær, sem þeir leggja til, að framkvæmdar verði samkvæmt frv., ganga mjög út yfir atvinnurekstur sjávarþorpanna. Mjer finst því sú leið, sem hv. landbn. valdi fyrst um afgreiðslu þessa máls, sú eina færa. Þess vegna hika jeg ekki við að taka upp þá rökstuddu dagskrá, sem hv. landbn. hefir fallið frá, og vænti, að hún nái samþ. hv. deildar.