04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í C-deild Alþingistíðinda. (2722)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. frsm. sagði, að það hefði meðal annars verið átt við það, að stjórnin gæti gefið út bráðabirgðalög, með þessum orðum: „ríkisstjórnin geri allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að sporna við því, að gin- og klaufaveiki eða aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins.“

Mjer þykir undarlegt, ef nefndin hefir þurft að hverfa frá sinni stefnu í málinu, vegna þess að ekki var tekið fram í umræðunum áður, að þetta væri hægt; því að jeg hjelt að það væri öllum kunnugt, að jeg gerði ekkert annað en segja, hvað stæði í gildandi lögum, en mintist ekki á bráðabirgðalög. Mjer er fullkunnugt um það, eins og hv. frsm., að það er hægt að bæta úr þessu með bráðabirgðalögum. Svo að jeg get ekki ímyndað mjer, að þessi sje meining nefndarinnar með dagskránni, þótt hv. frsm. vilji líta svo á, eftir að jeg er búinn að sýna mótsögnina hjá honum og skýra dagskrána. Hann var mjög firtur yfir því, að jeg spurði hann viðvíkjandi orðatiltækjum í frv., en jeg veit ekki til hvers á að fara um skýringar, ef ekki til þeirrar nefndar, sem um málið þykist hafa fjallað.

Það var beinlínis rangt, sem hv. frsm. sagði, að jeg hefði sagt ólöglega reglugerðina frá stjórninni í vetur. Jeg tók það skýrt fram, að jeg treysti mjer til að forsvara hana að lögum, en að hún gengi eins langt eins og frekast er hægt að ganga eftir gildandi lögum.

Það er ekki til neins fyrir okkur að deila um það, hvort mikið eða lítið öryggi er í þessari löggjöf. En hann telur ekkert öryggi í því að leita til dýralæknisins í Reykjavík. Jeg álít þvert á móti mikið öryggi í því fólgið, því að hann er sá maður, sem helst hlýtur að bera skyn á þessa hluti.