04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Pjetur Ottesen:

Jeg vil út af því, sem menn hafa haldið fram um það, að frv. þetta gengi þannig of langt, að þrengt væri um of að kostum ýmissa manna, sem í kaupstöðum og sjávarþorpum búa, aðeins svara því með því að staðhæfa, að þetta frv. er bygt á þeirri reynslu, sem fengin er um ráðstafanir í nágrannalöndunum, þar sem veikin hefir geisað. Þar hafa menn lært mikið af reynslunni um það, hvað hættulegt er í þessu efni. Og jeg held, að þegar tekið er tillit til þessarar reynslu, þá sje eiginlega ekkert hægt að fella niður af því, sem upp er talið í 2. gr. þessa frv. Og ef mönnum annars er það alvörumál, að vilja tefla á fremsta hlunn með að sporna á móti veikinni, þá geta þeir ekki verið því fylgjandi að breyta neitt gildi þeirra ákvæða, sem í frv. felast. Jeg held líka, að það sje ekki svo mjög þrengt að kosti manna með þessu frv., að nein ástæða sje að setja það fyrir sig, þegar hinsvegar er litið til þess, hvað hjer er í húfi.

Það kann náttúrlega vel að vera, að það komi fram eitthvað fleira og meira, við nýja reynslu, sem hættulegt getur talist; en eins og sakir stóðu, þegar lokið var undirbúningi þessa frv., þá voru þessar vörur taldar hættulegastar, bæði í Noregi og Danmörku. Og frv. er sniðið eftir þeim ráðstöfunum, sem þar voru gerðar, eins og jeg tók fram.

Út af þeirri fyrirspurn, sem hæstv. ráðh. (MG) beindi til landbn. um það, hvernig hún liti á aðstöðu Noregs nú, þar sem ekki hefir borið á gin- og klaufaveiki þar um nokkurn tíma, þá vil jeg benda á það, hvernig veikin hefir hagað sjer sumstaðar annarsstaðar, t. d. í Danmörku, Englandi og Skotlandi; þar hefir veikin komið upp í vissum hjeruðum og að vísu tekist að bæla hana niður; en svo hefir veikin eftir misjafnlega langan tíma gosið upp aftur. Þegar litið er til þessarar reynslu, þá ber vitanlega að skoða Noreg hættulegan nú, að minsta kosti fyrst um sinn. Og auðvitað er sama máli að gegna um hin löndin, þar sem veikin hefir gengið nú undanfarið, og þar á meðal Skotland og England.

Nú hefir hv. þm. Ísaf. tekið upp þá dagskrá, sem landbn, hafði tekið aftur. Í tilefni af þessu vil jeg skírskota til þess, sem jeg hefi áður sagt um það, að þessar ráðstafanir eru bygðar á reynlu annara þjóða, og brýna það fyrir hv. þdm., hvað getur verið í húfi, ef dagskráin verður samþ. og við verðum að búa áfram við hina ófullnægjandi löggjöf, sem nú gildir í þessu efni.

Ræðuhandr. óyfirlesið af þm.