18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í C-deild Alþingistíðinda. (2731)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Einar Jónsson:

*) Jeg þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Hv. frsm. er búinn að lýsa afstöðu þeirri, er landbn. tók til málsins í heild, og áreiðanlega mátti telja eðlilegasta. Þó verður að játa, að nokkur ágreiningur var innan nefndarinnar, enda þótt hann yrði jafnaður á friðsamlegan hátt.

Eins og þetta frv. kom frá hv. Nd., sýnist aðaláhersla lögð á það, að dýralæknir skyldi að engu kvaddur til þessara mála. Þetta þótti landbn. undarlegt. Enda þótt hún vildi engan veginn binda sig í öllu við hans ráðleggingar, eða leggja málið alveg á hans vald, þá sýndist þó sjálfsagt að kveðja hann ráða. Þegar landbn. bar þetta frv. saman við lög þau, er nú gilda um þessi efni, frá 1926, þá sýndist henni óhæfilega langt gengið í upptalning á bönnuðum vörum, og þó er sú upptalning ekki tæmandi. Þar er tekið með ýmislegt, sem bæði hæstv. landsstjórn og dýralæknir telja litla eða enga hættu geta stafað af. Hinsvegar er í frv. ekki bannaður innflutningur á sumum vörutegundum, sem veikin getur engu síður borist með, svo sem ýmislegri kornvöru. Og jafnvel þótt veikin sje háskagripur, getur verið ilt að banna innflutning á sumu af því, er gæti flutt hana á milli landa, t. d. kornvöru. — Aftur á móti er það, að áliti dýralæknis, algerlega óþarft að banna innflutning eggja. Sjerfræðingar telja enga hættu geta af þeim stafað. Um smjör er vafasamara, en þó er talin af því mjög lítil hætta, og eins er um fleira. — Landbn. álítur því nógu langt gengið með því að samþykkja þá till., er hún leggur til. Og jafnvel þótt ekkert verði í málinu gert, annað en að beita lögunum frá 1926, telur nefndin litla hættu á, að veikin komist hingað.

*Ræðuhandr. óyfirfarið af þm.