18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í C-deild Alþingistíðinda. (2736)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Einar Jónsson:

* Jeg vil ekki fyrir nefndarinnar hönd taka þær ásakanir gildar, að hún hafi verið óttalaus fyrir þessari veiki og áhugalaus í málinu, eins og ýmsir hv. þm. hafa komist að orði. Hún hefir blandað sjer í málið með mestu alvöru. En hún komst að þeirri niðurstöðu, eins og nál. ber með sjer, að ef stjórnin beitti lögunum frá 1926, ætti það að nægja, en ella gæti hún gefið út bráðabirgðalög.

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) mintist á, að nauðsynlegt væri að fá fleira upp talið í lögunum. Jeg vil benda á, hvort það muni vera hyggilega af stað farið — ekki meira en hægt er að sanna um sýkingarhættu — að banna innflutning á öllum kornvörum. Jeg álít, að það eigi ekki að leika sjer að því, að banna slíkt. En það er sannanlegt, og það frá fróðari mönnum en voru í nefndinni, að óþarft hefði verið að telja upp smjör, osta og egg. En hverjar vörur, sem nauðsynlegt er að fá fluttar inn eða að banna að flytja inn, það megum við ekki ganga inn á, nema eitthvað vaki fyrir, sem er meira áríðandi. Skal jeg viðurkenna, að ef við erum í þeirri hættu fyrir gin- og klaufaveikinni, sem ýmsir álíta, þá gengi jeg inn á, að gott væri að banna innflutning á smjöri, ostum og eggjum. En meðan hættan er ekki sterkari en nú er útlit fyrir, vil jeg ekki vinna til, að banna t. d. innflutning á öllum kornvörum.

Hv. þm. A.-Húnv. var að gera lítið úr nefndinni fyrir það, að við hefðum komist svo að orði, að óþarflega margt væri talið í frv. þótt lögin sjeu ekki tæmandi, þá er þetta rjett. Ef hv. þm. vill leggja út í svo tæmandi upptalningu, að engin hætta geti á nokkurn hátt stafað af veikinni, býst jeg við, að það hefði orðið af fá það afgert, að ekkert skyldi inn flytja. En það, sem talið er upp í lögunum frá 1926, er jeg í engum vafa um að er það, sem mest hætta stafar af. Og í þeim lögum er lagt á vald stjórnarinnar — og hún enda hvött til — að vera á verði með ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru á hverjum tíma. Jeg álít því, að tæplega sje fært að fara lengra. Jeg mundi ekki, hvaða ræður sem haldnar yrðu yfir mjer hjer í hv. deild, geta óttast svo mikið háska af gin- og klaufaveikinni, að jeg færi að samþykkja innflutningsbann á öllum mögulegum vörum. Jeg er nú svo gefinn fyrir að fá mjer brauðbita úr útlendu korni, að jeg mundi þykjast illa settur, ef jeg gæti ekki náð í hann. Ef það væri nokkuð, sem vert væri að athuga öðru fremur, þá er það fatnaður fólks, sem fer landa á milli. En samkvæmt heimild í lögunum frá 1926 býst jeg við, að hæstv. stjórn geri þær skynsamlegustu ráðstafanir, sem mögulegt er. Með þetta fyrir augum hefir nefndin afgreitt málið eins og hún hefir gert, en ekki vegna þess, að hún sje svo óttalaus fyrir veikinni. Nefndin hefir og haft dýralækni í ráðum með sjer.

Það mun hafa verið hv. 1. landsk. (JJ), sem efaðist um, að sá maður, sem nú starfrækir það embætti hjer í Reykjavík, væri hæfur til þess, sökum heilsubrests. Það er augljóst, að ef heilsu hans er þannig háttað, að hann er ekki fær að rækja sitt starf, mun brátt verða valinn annar í hans stað. Hjer er hvergi átt við Magnús Einarson sjerstaklega, heldur dýralækninn í Reykjavík. Eins og hv. 1. landsk. tók fram, er sjálfsagt að velja þann í þetta embætti, sem færastur er til þess — þegar þar að kemur, enda mun ekki öðrum hent að fylla sæti Magnúsar Einarsonar.

*Ræðuhandr. óyfirlesið af þm.