07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í C-deild Alþingistíðinda. (2747)

64. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum

Flm. (Jón Baldvinsson):

Frv. þetta er mjög svipað frv. því, er hjer var til umr. næst á undan (frv. um forkaupsrjett kaupstaða á jörðum), að því breyttu, að hjer er forkaupsrjettur bundinn við lögsagnarumdæmi og er hliðstæður forkaupsrjetti sveita í hreppsfjelögum.

En ástæðan til þess, að frv. er fram komið, er sú, að nýlega voru seldar í kaupstað norðanlands stórar eignir og hafnarvirki, sem bænum var nauðsynlegt að eignast, en lentu hjá einstökum manni. Þarna hefði átt að gilda forkaupsrjettarákvæði fyrir bæinn, og er þetta ljósast dæmi þess, hve nauðsynlegt það er kauptúnum að hafa þennan forkaupsrjett. Í mörgum öðrum kaupstöðum og kauptúnum eru lóðir, lendur og hafnarvirki eign einstaklinga, enda þótt slíkar eignir ættu í raun rjettri að vera eign bæjarfjelagsins. Allir þeir, sem til þekkja, vita, að það eru margvíslegar eignir einstaklinga, sem bæir þurfa að eignast til þess að hægt sje að byggja skipulega o. s. frv.

Það, sem hjer er farið fram á, er, eins og áður er sagt, hliðstætt því, sem gildir um forkaupsrjett sveitarfjelaga, en hjer er um fleiri eignir að ræða heldur en í sveitum, þar sem eru mörg íbúðarhús með litlum lóðum og svo hafnarmannvirki, en það er forkaupsrjettur þeirra, sem frv. stefnir að. Það gat verið um fleiri en eina leið að ræða, til að veita bæjar- og sveitarfjelögum þennan forkaupsrjett. En mjer þótti of umsvifamikið, að bæjarfjelag skuli þurfa að segja til í hvert skifti, sem einhver vill selja eign sína, hvort það vill neyta forkaupsrjettar. Til þess að takmarka fjölda þeirra eigna, sem bæjar- og sveitarfjelögum á að tryggja forkaupsrjett að, er farið fram á það, að bæjarfjelögin geri sjálf samþyktir um það, hvaða eignum þau þurfi að eiga forkaupsrjett á, til að ná því marki, sem frv. miðar að. Meginreglan verður auðvitað sú, að forkaupsrjettar til íbúðarhúsa verður ekki neytt, en þó geta einstök hús legið svo, að nauðsynlegt sje fyrir bæjarfjelag að fá þau keypt, vegna fyrirhugaðra mannvirkja. Að vísu eru til eignarnámsheimildir í hafnarlögum og lögum um skipulag kauptúna, en slík lög eru of þröng og koma ekki að því gagni, sem forkaupsrjettur, slíkur sem þetta frv. fer fram á, gæti gert.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að hafa langar umræður um mál þetta. Það er ósköp auðskilið, og vilji hv. þdm. fallast á það, tel jeg það vel farið, því þetta er nauðsynjamál. Jeg tel sjálfsagt, að málinu sje vísað til nefndar, að umr. lokinni, og tel, að það muni eiga heima hjá allshn.