06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í C-deild Alþingistíðinda. (2767)

64. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum

Frsm. minni hl. (Jón Kjartansson):

Eins og sjá má af nál. á þskj. 479, hefi jeg ekki getað orðið samferða hv. meiri hl. við afgreiðslu þessa máls. Jeg get ekki fallist á, að rjett sje að veita bæjar- og sveitarstjórnum jafnvíðtæka forkaupsrjettarheimild með lögum eins og frv. þetta fer fram á, því með henni geta þar náð eignarráðum á öllum lóðum og lendum, hafnarmannvirkjum, svo og öðrum fasteignum innan síns lögsagnarumdæmis. Það er algerlega á valdi þeirra, hvernig þær nota þessa heimild, og þar sem telja má, að forkaupsrjettarheimildin sje alveg takmarkalaus, get jeg ekki talið rjett að fá þeim hana í hendur. Jeg fæ heldur ekki sjeð, að þörf sje á slíkri heimild, því að ef kaupstaðir eða kauptún þurfa nauðsynlega að ná eignarhaldi á fasteign innan umdæmis síns, þá er rjetta leiðin sú, að fá lögnámsheimild samkv. 63. gr. stjórnarskrárinnar. Auk þess má geta þess, að til eru nú í ýmsum lögum heimildir handa sveitar- og bæjarfjelögum til þess að taka fasteignir lögnámi, svo sem hafnarlögum, vatnsveitulögum, lögum um skipulag bæja o. fl. Af þessum ástæðum verð jeg að líta svo á, að slík heimild sem hjer er farið fram á að veita, sje óþörf. Sömuleiðis verð jeg að líta svo á, að það sje engan veginn hættulaust að veita jafnvíðtæka forkaupsrjettarheimild sem hjer er farið fram á, því að vel gæti svo farið, að bæjarstjórnir eða hreppsnefndir notuðu sjer heimildina til þess að sölsa undir sig fasteignir, án tillits til þess, hvort þær hefðu nokkuð við eignina að gera.

En út á þá braut tel jeg hættulegt að fara.

Þá yrði ekki svo lítil skriffinska og ófrjálsræði samfara þessari heimild, þar sem hver einstaklingur yrði fyrst að bjóða hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórn hvað litla fasteign sem hann vildi selja, þó að það væri ekki nema lítilfjörlegur skúr. Borgararnir gætu naumast framar talist frjálsir menn í frjálsu landi.

Að öllu þessu athuguðu get jeg ekki mælt með frv. þessu, og ræð því hv. deild til að fella það.