06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í C-deild Alþingistíðinda. (2769)

64. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum

Jón Ólafsson:

Það er ekki nýtt fyrir mjer, að heyra talað um ráðstafanir viðvíkjandi því, að ná eignum einstaklinga undir bæjar- eða sveitarfjelög eða ríki. Slíkar umræður eru ætíð á takteinum við hvert tækifæri í málefnum Reykjavíkurkaupstaðar. Er þetta meira gert til þess að sýnast vera hollir almenningi, en ekki af því, að ekki viti þeir, er á þessu klifa, að til eru í stjórnarskrá vorri skýr fyrirmæli, er gera almenningsþörfinni nógu greiðan gang að eignum einstaklinga.

Í sambandi við þetta mál langar mig til að minnast á eitt atriði, sem ekki bendir á, að öllum bæjarfjelögum sje mjög ant um að eiga stóreignir. Verð jeg þó að álíta, að salan hafi verið mjög misráðin. Á jeg hjer við það, að seld hafa verið hafnarmannvirki hjer í nágrenninu, en þó með fullu samþykki hlutaðeigandi bæjarfjelags. Út af sölu þessari dettur mjer í hug að skjóta þeirri spurningu til hæstv. atvrh. (MG), hvernig á því stendur, að bæjarfjelög geta selt eignir, sem styrktar hafa verið af ríkissjóði, án þess að stjórnin komi þar nokkuð til. Mjer fyndist eðlilegra, að búa svo um, að styrkir til slíkra mannvirkja væru að þessu leyti einhverjum skilyrðum bundnir.

Þá er að líta á það, að hvaða gagni slík forkaupsrjettarheimild sem þessi, er hjer um ræðir, gæti orðið bæjar- eða sveitarfjelögum. Reynslan hefir æði oft orðið sú, að forkaupsrjettarákvæði, er sett hafa verið í hina ýmsu samninga, hafa oft orðið til hins verra, því hafi seljandi viljað fá verulega hátt verð fyrir eign sína, hefir hann ekki þurft annað en fá einhvern til þess að gera svo og svo há tylliboð í hana. Þannig hefir það komið fyrir hjer í Reykjavík, fyrir sterkan undirróður, að keypt hefir verið eign fyrir 150 þús. kr., sem ekki gefur svo mikinn arð, að hún borgi hálfa vexti af kaupverðinu; kemur hún því til að verða ærið dýr, með sama gangi, er fram líða stundir. Jeg veit ekki. hvaða loftslag er hættulegt í bæja- og sveitastjórnum, ef ekki þetta, þar sem ekki þarf annað en fá menn til þess að gera nógu há tilboð í eignirnar, og „agitera“ svo í bæjarstjórnunum og fá þær til að nota forkaupsrjettinn. Dæmin um þetta eru deginum ljósari. Jeg felst því alveg á skoðun háttv. frsm. minni hl. (JK), að besti styrkurinn fyrir bæjar- og sveitarstjórnir til þess að ná eignarhaldi á þeim fasteignum, sem þær nauðsynlega þurfa, sje sá, sem felst í 63. gr. stjórnarskrárinnar, að taka eignirnar lögnámi og greiða þær eftir mati. Ákvæðið um forkaupsrjettinn, hvar sem selt hefir verið, hefir reynst illa, bæði í Reykjavík og öðrum kaupstöðum; það hefir komið á stað undirróðri og flokkadrætti, sem í mörgum tilfellum hefir leitt til þess, að hlutaðeigandi bæjarfjelag hefir ekki getað notað rjett sinn og eignirnar því orðið ¼–¾ dýrari en rjett var og þær þurftu að verða ella. Það er því mesti misskilningur, að með því að setja þessa forkaupsrjettarheimild sje verið að hjálpa bæjarfjelögunum; það er þvert á móti þeim til hins verra.

Jeg skil ofur vel, að þetta sje eftir geði jafnaðarmanna, sem alt vilja kaupa, hversu dýrt og óþarft sem það er. En jeg skil ekki, hvers vegna aðrir eru veikir fyrir slíku máli sem þessu.