06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í C-deild Alþingistíðinda. (2774)

64. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. Mýr. spurði um það, hvort til væru í lögum nokkur almenn heimild fyrir bæjarstjórnir og hreppsnefndir til að gera samþyktir. Nei, það er engin almenn lagaheimild til um það, en í ýmsum sjerstökum lögum um sjerstök efni eru slíkar heimildir veittar. Það er því alveg rjett hjá hv. þm. (PÞ). að ef frv. þetta verður samþykt eins og það er, þá getur einfaldur meiri hluti hreppsnefndar eða bæjarstjórnar ráðið, hvort samþykt verður sett eða ekki, og stjórnarráðið getur ekki neitað að staðfesta slíka samþykt. Jeg verð líka að taka undir það með hv. þm., að það er óviðkunnanlegt, að það skuli ekki tekið fram í 1. gr., 2 málsgr., hverjir eigi að semja samþyktirnar. En úr því að á þetta hefir nú verið bent og enn er eftir ein umr. um málið, þá er hægt að lagfæra þetta með brtt. við 3. umr.