06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í C-deild Alþingistíðinda. (2779)

64. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á hafnarmannvirkjum

Frsm. meiri hl. (Árni Jónsson):

* Jeg er hræddur um, að hv. 3. þm. Reykv. hafi sjeð frv. þetta í einhverjum hillingum, því það var á honum að heyra, að hann óttaðist, að eignarrjettinum stafaði hætta af því. Hann talaði um það, að eignarrjetturinn væri hið dýrmætasta og farsælasta, sem einstaklingurinn ætti. Jeg er honum sammála í því efni, en það er svo langt frá því, að með frv. þessu sje farið fram á afnám eignarrjettarins, því menn fá peninga sína jafnt, hvort sem bæjarfjelagið eða einstaklingar kaupa.

Þá hefir hv. þm. (JÓl) algerlega misskilið forkaupsrjettarákvæðið. Það, sem hjer er um að ræða, er aðeins, að bæjarfjelögum og kauptúnum er heimilað að áskilja sjer forkaupsrjett í 5 ár. Það er engu slegið föstu um það, að alt verði keypt, heldur er til þess ætlast, að það verði ákveðið um það sjerstaklega í hverju einstöku tilfelli. Ef hv. þm. les rjett 3. gr. frv., þá getur hann gengið úr skugga um, að það er rjett, sem jeg segi um þetta atriði.

Jeg vona því, að þegar hv. þm. hefir áttað sig betur á ákvæðum frv., þá finnist honum það ekki eins hættulegt og hann heldur nú.