31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í C-deild Alþingistíðinda. (2790)

103. mál, atkvæðagreiðsla utan kjörstaða kjósanda við alþingiskosningar

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Eins og getið er um í grg. þessa frv., þá er það flutt vegna annars frv., sem kom fram í þessari hv. deild á öndverðu þingi og var þá vísað til allshn. Það er meiri hl. allshn., sem flytur þetta frv., háttv. þm. Dal. (JG), hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) og jeg.

Það liggur í hlutarins eðli, að við munum koma með hitt frv. innan skamms, eða undir eins og við sjáum, hvernig þessu frv. verður tekið. Það hefir verið talsvert talað um færslu kjördags, þegar það mál var hjer til 1. umr., svo að jeg sje ekki ástæðu til að bæta þar neinu við, að svo stöddu. Þetta frv. er bein afleiðing af þeim breytingum, sem fyrirhugaðar eru með því. Við, sem að þessu frv. stöndum, viljum stuðla að því, að unt sje að koma kosningunni svo haganlega fyrir, að sem flestir kjósendur landsins geti notið kosningarrjettar síns. Það eru að vísu til ákvæði í lögum, sem heimila fjarstöddum mönnum að kjósa, en þau atkvæði, sem þannig eru greidd, verða að vera komin til kjörstjórnar á kjördegi. Ef kjósendur alment hefðu fyrirhyggju á því að kjósa utan síns kjörstaðar, þegar þeir eru fjarstaddir á kjördegi, þá væri ekkert að segja. En fæstir kjósendur, sem fjarri kjörstað sínum dvelja á kjördegi, munu hafa sinnu á því, að hafa öll þau gögn í höndum, sem til þarf, til að geta kosið. En eins og frá þessu er gengið í lögunum, virðist okkur flm. tæplega vel fyrir því sjeð, að fjarstaddir kjósendur geti neytt kosningarrjettar síns. Við viljum því gera þá breytingu, að allir geti kosið, hvar sem þeir eru staddir á kjördegi, en þó hvíli ekki á neinum skylda um að hafa það vottfast, að hann sje á kjörskrá, en segja verða þeir til aldurs síns og heimilisfangs. Atkvæði þessara manna verða svo send til hlutaðeigandi yfirkjörstjórnar, en yfirkjörstjórn hvers kjördæmis ber skylda til að athuga við talningu atkvæða, hvort þessir fjarstöddu menn, sem atkvæði senda, hafi haft leyfi til þess að kjósa.

Eftir gildandi lögum um kosningu fjarstaddra manna, munu þau kjörgögn, sem þar til þarf, ekki talin í hendur kjörstjórna eða kjörgögnin auðkend, og ekki mun það heldur vera venja, að kjörstjórnunum sje gert að skyldu að skila af sjer þeim kjörgögnum, sem afgangs verða að afstöðnum kosningum. Um þetta atriði þykir okkur ekki svo tryggilega búið í gildandi lögum sem skyldi. Við leggjum því til, að yfirkjörstjórnir telji þessi kjörgögn í hendur undirkjörstjórna, eða þeirra manna, sem sjá eiga um, að fjarstaddir menn geti kosið og að kjörgögn þau sjeu auðkend og að öðru leyti svo tryggilega um búið, að ekki sje hægt að nota önnur kjörgögn en þau, sem yfirkjörstjórn sendir, og heldur ekki við brjeflegar kosningar. Að kosningu lokinni ber svo undirkjörstjórn að senda yfirkjörstjórn skrá yfir þá, sem kosið hafa, auk ógildra kjörgagna og þess, sem afgangs er. Með þessu ætti að vera svo vel fyrir öllu sjeð, að þetta verði ekki á neinn hátt misnotað.

Annars sje jeg ekki ástæðu til, við þessa umr., að rekja nánar efni þessa frv., nema þá að sjerstakt tilefni gefist. Enda ætti það að geta beðið til 2. umr. Og vænti jeg því, að þeir hv. þdm., sem eitthvað hafa við frv. að athuga, geri það þá. Okkur flm. er það fyllilega ljóst, að sumt í frv. þessu hefði að einhverju leyti mátt betur fara, enda hefir það verið ígripavinna fyrir okkur að semja frv. Væntum við því, þó að gallar kunni að vera á því, að úr þeim takist að bæta á þann hátt, að tiltölulega auðvelt verði að framkvæma þær nýjungar, sem frv. hefir í sjer fólgnar. Jeg skal aðeins geta þess, að til frekari tryggingar mönnum þeim, sem um mál þessi eiga að fjalla, er settu ákvæði um það í frv., að stjórnin gefi út leiðarvísi um það, hvernig kosningum þessum skuli háttað.

Hinsvegar munum við flm. fúsir til samvinnu um allar þær breytingar, sem verða mega frv. til bóta, og munum athuga þær nánar. Með þessu fyrirkomulagi, sem við leggjum til, held jeg, að ekki sje hægt að segja með neinni sanngirni, að þeir menn, sem á annað borð hafa vilja á því að nota kosningarjett sinn, geti það ekki.

Okkur virðist, að ekki verði lengur hægt að setja sig á móti þeim rjettmætu kröfum um færslu kjördagsins, þar sem flestir landshlutar eiga það aðeins undir veðrinu, hvort þeir geta kosið eða ekki. Og þó að sumir þykist tapa í bili, þá höfum við þó með frv. okkar reynt að bæta þeim mönnum upp með því að leggja til, að þeir geti kosið hvar sem er á kjördegi. — Jeg skal aðeins taka það fram, af því að mjer láðist að gera það áður, að um frest þann, sem líða á frá því að kosið er, og þangað til talin verða atkvæði, þá munum við í sambandi við það frv., sem fram kom fyr á þingi, leggja til, að hann verði það langur, að trygt sje, að atkvæði geti borist til rjettra hlutaðeigenda hvaðan frá á landinu sem er, í tæka tíð.

Jeg lít á færslu kjördagsins sem sanngirnis- og rjettlætismál, sem jeg held, að enginn geti gengið í móti, er á annað borð vill láta kjósendur landsins njóta jafnrjettis.

Jeg þarf ekki að taka það fram, að þetta sje sjerstaklega flutt míns kjördæmis vegna; það er í þessu efni betur sett en flest önnur, og lítil hætta á, að kjósendur geti ekki notað þann kjördag, sem er. En jeg veit, að margir landshlutar eru svo settir, að þar geta menn átt á hættu að geta alls ekki neytt atkvæðisrjettar síns, og þó hafa margir þeirra engu minni áhuga fyrir landsmálum en þeir, sem betur eru settir. Það virðist lítið vit í því, að setja kjördag svo, að vitanlegt sje, að veðrátta geti tafið menn heima og gert þeim ókleift að komast á kjörstaðinn. Það er ekki lengra á að minnast en að síðastliðið haust voru menn sumstaðar á Norðurlandi tvo daga eða jafnvel lengur að brjótast á kjörstað, og komust það ekki, nema með því að láta hesta troða brautina á undan sjer.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að orðlengja um þetta, en vænti, að hv. deild taki frv. vel og geti fallist á það.