31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í C-deild Alþingistíðinda. (2791)

103. mál, atkvæðagreiðsla utan kjörstaða kjósanda við alþingiskosningar

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg verð að segja það, að mjer þykir það næsta undarleg aðferð, sem hv. meiri hl. allshn., hefir viðhaft í þessu máli. A öndverðu þingi var vísað til nefndarinnar frv. um færslu kjördags, en um það klofnaði nefndin. Vildi meiri hl., að það frv. næði fram að ganga, en í staðinn fyrir að afgreiða það mál frá sjer, rjúka svo þessir hv. þm. til og koma með þetta frv., sem hjer er til umr.

En þó að þessir hv. þdm. hafi myndað meiri hl. um annað mál, sem klofningur varð um í allshn., þá hafa þeir engan rjett til þess að kalla sig meiri hl. í þessu máli, því það hefir aldrei verið kallaður saman fundur í nefndinni til þess að taka ákvörðun um þetta frv. Enda sýnist í fljótu bragði lítil ástæða til að flytja um þetta efni sjerstakt frv., því að öllu, sem hjer er um að ræða, hefði vel mátt bæta inn í frv. það, sem fram er komið um færslu kjördags, breytingu á kosningalögunum. En hjer er verið að búa til tvö frv. um eitt mál, og getur orðið úr þessu hinn mesti glundroði, ef annað frv. er samþ., en hitt felt. Loks má geta þess, að á þessu frv. eru töluvert mikil missmíði, og vil jeg aðeins benda á fá dæmi.

Í 7. gr. stendur, að við hlutfallskosningar megi standa á seðlinum orðið „listabókstafur“. Jeg held það sje engin hætta á, að slíkt verði gert. Eðlilegra er að bæta við orðinu „listi“.

Í 8. gr. er mjög svo einkennilegt ákvæði um það, hverju það varði fyrir skipherra að neita sjómönnum um landgönguleyfi til þess að kjósa. Brotið varðar alt að 100 kr. sektum. Skipherrann yrði kannske fyrir 10 kr. sekt fyrir að varna svo sem 10–20 mönnum að njóta rjettinda sinna. Auk þess má vitanlega skjóta sjer undir það, að nauðsynleg störf þurfi að vinna, sem ekki þoli bið, en sú ástæða er næg eftir frv. til þess að skipstjóri geti bannað sjómönnum að kjósa. Í stað þess ætti aðeins að vera leyfilegt að varna mönnum að kjósa, ef skipið væri í hættu.

Þá segir nefndin hjer í greinargerðinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndinni hefir borist frv. til laga um breyting á kosningalögunum, í þá átt að færa kjördag til almennra óhlutbundinna kosninga til 1. júlí. Nefndin telur þessa breytingu nauðsynlega til að tryggja kjósendum víðsvegar um land örugga aðstöðu til þess að geta sótt kjörfund.“ Þetta er með öllu rangt um færslu kjördags til 1. júlí. Þar hefir nefndin alls ekki orðið sammála. Það er aðeins meiri hl., sem leggur það til, og ennpá er ekkert nál. komið fram frá meiri nje minni hluta í því máli.

Jeg vil ekki að þessu sinni greiða atkv. móti þessu frv. En jeg vildi óska þess, að ef því verður vísað til allshn., sem ætti auðvitað að gera, þar sem það er ekki komið frá nefndinni, heldur frá þrem mönnum, sem eiga þar sæti, þá yrði það lagfært þar eða gert að brtt. við kosningalagafrv., en yrði ekki sjerstakt frv. Annars er ekki ástæða að þrátta hjer um færslu kjördags að sinni.