31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í C-deild Alþingistíðinda. (2794)

103. mál, atkvæðagreiðsla utan kjörstaða kjósanda við alþingiskosningar

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg vildi gjarnan fá yfirlýsingu hv. aðalflm. um það, hvort ekki væri tilætlunin að vísa málinu til nefndar. Mjer var ókunnugt um þetta frv. áður, og eins hinum hv. þm. úr minni hl., svo að jeg vil leggja til, að vísa því til allshn. Jeg vil taka það fram, að enda þótt væri talað um færslu kjördags í umræðum innan nefndarinnar og um ýms ráð, sem gætu gert hana gerlegri en annars, þá var, mjer vitanlega, aldrei rætt um sjerstakt frv. annað, enda mun fundabókin sýna það. Málið var aðeins rætt eins og það lá fyrir, en ekki á þeim grundvelli, að flytja nýtt frv. Enda var mjer heldur ekki kunnugt um, að þetta frv. væri á ferð í allshn. Og því verð jeg að kalla þetta mjög einkennilega aðferð hjá þessum þrem þingum. Jeg vissi raunar, að það kom sú uppástunga frá einum nefndarmanni, að menn kysu á þeim kjörstað, þar sem þeir væru staddir, en ekkert var eðlilegra en að setja slík ákvæði í kosningalögin, ef þeirra var óskað, þar sem í þeim lögum er einmitt rætt um kosningar á kjördegi á kjörstað.

Nú vil jeg gjarnan beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvort þeir fylgi þessu frv. fram, hvernig sem fer um brtt. um færslu kjördags. Því að það virðist mjer vera alleinkennilegir flm., sem vildu láta drepa frv., ef eitthvert annað frv. yrði ekki samþ. Úr því að á annað borð er farið að koma með nýtt frv., sem nemur úr gildi að einhverju leyti önnur lög, þá tel jeg rjett að taka lögin til athugunar yfirleitt. Enda þótt jeg geri ekki ráð fyrir, að neinn skipstjóri hafi bannað sínum mönnum að kjósa, þá eru þarna sett sektarákvæði, til þess að eftir þeim sje farið, ef til þarf að taka. Þó að atkvgr. utan kjörstaðar kjósenda virðist hafa margt til síns máls, þá er hún mjög varhugaverð, ef ekki er vel um hnútana búið.