31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í C-deild Alþingistíðinda. (2798)

103. mál, atkvæðagreiðsla utan kjörstaða kjósanda við alþingiskosningar

Árni Jónsson:

Mál þetta var rætt í allshn. áður en nefndin klofnaði um það. En mjer hefir skilist svo, að hv. 4. þm. Reykv. sje ekki andvígur þessu frv., og segi jeg hann því hjer með velkominn í vorn hóp, flutningsmannanna. Og jeg heiti honum því, að málið skal verða rætt ítarlega í nefndinni og við hann. — það er alls ekki eins dæmi, að nefndir beri fram frv., þótt allir nefndarmenn geti ekki fylgt því. Á þessu þingi lagði hæstv. stjórn fram frv. um útrýmingu fjárkláða. Þegar það mál kom í nefnd, klofnaði nefndin, og meiri hluti hennar bar fram sjerstakt frv. í stað þess að skila nál. Jeg var þar í minni hluta, en jeg fór ekki fram á það, að málinu væri vísað til nefndarinnar aftur. Jeg tel því óþarft að vísa þessu máli til allshn. aftur, einkum þar sem við hv. 4. þm. Reykv. virðumst vera sammála um það, að frv. sje gott.