17.03.1927
Efri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

5. mál, iðja og iðnaður

Guðmundur Ólafsson:

Það er vegna sjúkdómsforfalla hv. þm. Vestm. (JJós), að jeg tek að mjer að mæla nokkur orð fyrir hönd allshn.

Nefndin, eða meiri hl. hennar, hefir haft fund með sjer og athugað brtt. hæstv. forsrh. (JÞ) á þskj. 153. Þær eru allmargar, og er nefndin þeim yfirleitt hlynt og fáar einar, sem hún getur ekki fallist á. Þær miða flestar að því að vera ekki eins kröfufrekur gegn iðnaði eins og frv. ætlast til, og nefndin sjer ekki, að í þeim sje lengra gengið en góðu hófi gegnir.

Það eru aðallega tvær brtt., sem nefndin getur ekki fallist á. Sú fyrri er við 28. gr., þ. e. 11. brtt. í röðinni, og fer fram á, að í staðinn fyrir að í frv. stendur, að 500 kr. skuli greiða í ríkissjóð fyrir iðjuleyfi, er lagt til með brtt. að færa gjaldið niður í 100 kr. Nefndinni finst ekki ástæða til að ákveða gjaldið lægra en fram er tekið í frv., og hefir enda sýnt afstöðu sína til þess með því að hafa ekki borið fram till. um að breyta því.

Eins finst nefndinni varhugavert að Samþ. síðustu brtt., við 26. gr., að orðin „þó er þeim óheimilt að reka eftir þann tíma iðju fleiri tegunda en þeir hafa áður rekið“ falli niður.

Nefndinni þykir undarlegt, að iðnrekendur megi bæta við sig fleiri iðntegundum án þess að greiða eitthvað fyrir það. En þessi meiningamunur minkar kannske, þegar hæstv. forsrh. hefir talað fyrir því; þó held jeg ekki. Jeg sje, að hæstv. ráðherra (JÞ) hristir höfuðið; hann gerir það fyrir sinn reikning, en ekki allshn. Annars skal jeg játa, að það er stundum erfitt að tala um brtt. áður en flm. þeirra hafa talað fyrir þeim. Þó skal jeg taka fram, að betra hefði verið og viðkunnanlegra, að svona margar brtt. hefðu verið fram bornar við 2. umr. málsins, því að þar áttu þær fremur heima en við 3. umr.

Hefi jeg svo ekki frekar við þetta að bæta fyrir hönd nefndarinnar, og tek því aðeins til máls aftur, að jeg sjái verulega ástæðu til þess.