17.03.1927
Efri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

5. mál, iðja og iðnaður

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi leyft mjer að flytja allmargar brtt. við þessa umr., eða 12 talsins, en þær eru engar stórvægilegar, eins og hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) tók rjettilega fram, og stefna allar í sömu átt: að gera ljettara fyrir að koma upp nýjum iðngreinum í kaupstöðum landsins, og gleður það mig, að hv. allshn. hefir getað fallist á flestar þeirra.

Jeg skal þá með nokkrum orðum víkja að hinum einstöku brtt. og taka þær í þeirri röð, sem þær eru bornar fram.

1. brtt. fer fram á að undanþiggja heimilisiðnað Öllum ákvæðum laganna, enda geri jeg ráð fyrir, að sú hafi verið meiningin með frv., þó það komi ekki beinlínis fram.

2. brtt. skoða jeg ekki neina efnisbreytingu, heldur aðeins til þess að gera orðalag hennar ljósara, enda býst jeg ekki við, að það sje meiningin þegar búið er að veita einhverjum iðjuleyfi, að þá geti ráðherra komið og tekið af honum leyfið og eyðilagt þannig atvinnu mannsins, er hann hefir byrjað að reka samkvæmt leyfinu. Og að sama efni hnígur einnig 3. brtt. og að nokkru leyti sú 4. líka, sem er aðeins afleiðing af 1, brtt. viðvíkjandi heimilisiðnaðinum.

5. brtt. er dálítil efnisbreyting frá því, sem í frv. stendur, og fer fram á það, að þeir, sem iðnað reka með aðstoð maka síns eða barna, megi halda því áfram, þar til börnin eru 21 árs, eða hafa náð lögaldri.

6. og 7. brtt. eru ekki beinlínis efnisbreytingar, heldur er þar farið fram á að taka upp lagaákvæði um það, að ekkjur og ómyndugir geti haldið áfram iðnaði þeim, sem fallið hefir þeim að erfðum, með því að fá þar til forstöðumann, sem sveinsbrjef hafi í iðninni. Þetta mun vera grundvöllurinn og annarsstaðar vikið að því í frv., en mjer finst. viðkunnanlegra, að þetta standi berum orðum í lagagreininni. Aftur á móti er um efnisbreytingu að ræða í 8. brtt. Eins og 17. gr. frv. er orðuð, getur enginn fengið iðnbrjef nema hafa unnið að minsta kosti 3 ár hjá meistara að afloknu sveinsprófi. Þetta er efalaust sett af gáleysi, og hv. allshn. skotist yfir það. Jeg hefi borið þetta undir varaformann iðnaðarmannafjelagsins og hann viðurkent, að þetta stafi af misgáningi þeirra manna, er frv. sömdu, því það hafi ekki verið meiningin, að útlærður sveinn þyrfti að vera verkmaður hjá öðrum þriggja ára skeið til þess að geta keypt meistafabrjef, ef hann hefir stundað iðn sína þetta tímabil. Brtt. fer því ekki fram á annað en að ná því, sem ætla má, að vakað hafi fyrir forgöngumönnum þessa máls.

Þá er 9. brtt. algerlega ný grein og stefnir að því að hjálpa til að koma upp nýjum iðngreinum, þó að viðkomandi hafi ekki sveinsbrjef. Það er nú svo, að í mörgum kaupstöðum landsins eru ekki reknar nándarnærri allar nauðsynlegar iðngreinir, og meira að segja hjer í Reykjavík skortir mjög á, að reknar sjeu iðngreinir eins og tíðkast í erlendum borgum af líkri stærð. — Þegar byrjað er á einhverri nýrri handiðn, sem ekki þektist áður, þá er það vanalega svo, að einhver maður, sem hefir kynt sjer þá handiðn erlendis, setur sig niður hjer og fer að stunda hana, oft í smáum stíl. Hann keppir þá ekki við neinn innlendan iðnrekanda, heldur sýnir aðeins fram á, að þetta þurfi ekki að kaupa frá útlöndum, það megi vinna það í landinu sjálfu. Þegar þessar ástæður eru fyrir hendi, finst mjer ekki rjett að heimta af slíkum manni, að hann sýni sveinsbrjef, þó hann æski eftir að mega reka nýja og óþekta handiðn á staðnum. Jeg hefi reynt að orða þetta svo, að engin hætta sje á, að hjer verði um óheilbrigða samkepni við fullnuma handiðnamenn að ræða, enda skilst mjer, að hv. meiri hl. allshn. muni geta fallist á þennan viðauka.

Þá fer 10. brtt. fram á að breyta orðalagi 18. gr. Eins og greinin er orðuð í frv., held jeg að hún fari lengra en hægt verði að framfylgjá henni. Það kann nú að álítast, að við þessi mannvirki þurfi sjerstök handtök og að þau verði þá talin heyra undir handiðn, en þó er svo ekki um alla byggingavinnu, til dæmis um bryggjugerð. Ef einskorða á forstöðu slíkra mannvirkja við sjerstaka handiðn, þá er oft erfitt að ákveða, hvaða iðngrein taki til þess, því að þar vinna bæði trjesmiðir og járnsmiðir, auk fleiri manna, sem ekkert sveinsbrjef hafa. Jeg skal t. d. taka það fram, að eftir frvgr. gæti verið spursmál, hvort verkfræðingur mundi álítast fær um að taka að sjer forstöðu bryggjubyggingar í kaupstað. Jeg hefi með brtt. minni reynt að samræma þetta, við það, sem tíðkast hjer í Reykjavík, áð hafa löggilta menn til forstöðu húsabygginga.

Þá eru eftir tvær síðustu brtt., sem mjer skildist, að hv. allshn. muni ekki geta fallist á.

11. brtt. fer fram á að lækka gjaldið fyrir iðjuleyfi úr 500 kr. niður í 100 kr. það hefir verið svo hingað til, að öllum hefir verið frjálst að byrja á allskonar iðju, og það án nokkurs gjalds. Nú er það svo, að í 9 tilfellum af 10 er byrjað í mjög smáum stíl á mörgum iðnaði, t. d. með einni manneskju. Jeg skal nefna sem dæmi, að kona hefir lært að sauma og byrjar að setja upp saumastofu og vinnur þar aðeins með einni hjálparstúlku. Slíka vinnu er ekki hægt að skoða sem handiðn, heldur sem iðju í skilningi þessa frv. Virðist því lítil sanngirni, að hún þurfi að greiða 500 krónur fyrir leyfi til slíkrar atvinnu.

Jeg skal taka annað dæmi, sem kannske er hægt að segja um, að ekki hafi komið fyrir, en getur þó komið fyrir. Menn gætu tekið upp á því að fara að búa til tjörupappa, sem er í því fólgið að kaupa pappa og bleyta hann í tjöru til þess að verja hann fyrir eyðingu af lofti og regni. Þetta yrði eflaust í mjög smáum stíl til að byrja með, En vildi nú einhver taka upp á að gera sjer þetta að atvinnu, og það ef til vill á þeim tíma, sem enga atvinnu er að fá, tel jeg ekki rjett að láta hann greiða fyrir það 500 krónur. Og þannig mætti fleira telja. Við ættum fremur að gera alt, sem hægt er, til þess að auka iðnað í landinu, heldur en að setja þær hömlur í upphafi, er geri fátækum mönnum sem erfiðast fyrir að hefjast handa í þessu efni. Annars er engu líkara en að horft sje um of á stóriðnaðinn með þessu 500 króna gjaldi, en honum er venjulega ráðstafað með sjerstökum lögum. Má og vera, að haft hafi verið fyrir augum gjald það, sem greitt er nú fyrir verslunarleyfi, og hvað margir versla, en þar er alt öðru máli að gegna. Það þykir ekki holt fyrir þjóðfjelagið, að óþarflega margir menn fáist við verslun, og þess vegna eru gjöldin fyrir verslunarleyfi höfð það há, að þau heldur bægi mönnum frá þeirri atvinnu. En jeg held, að það sje ekki rjett að leggja svona há gjöld á þá smáiðju, sem hjer er að rísa upp, því að jeg lít svo á, að því meira sem rís upp af henni, því betra. Og af þessum ástæðum lít jeg svo á, að ekki megi setja hliðstæð gjöld um iðnað eins og um verslunarleyfi. Þótt heimildinni til þess að færa gjaldið fyrir þennan iðnað niður yrði beitt, þá getur það þó aldrei orðið minna en 250 kr., og er það að mínum dómi alt of hátt í mörgum tilfellum.

Þá vil jeg minnast á síðustu brtt. mína, sem er við 26. gr., þar sem farið er fram á, að burt falli málsgreinin: „Þó er þeim óheimilt að reka eftir þann tíma iðju fleiri tegunda en þeir hafa áður rekið“. Þessa málsgrein má skilja svo, að enginn fengi leyfi til þess að reka nema eina tegund iðju. En það er að sjálfsögðu ekki meiningin, heldur hitt, að menn verði að leysa nýtt leyfisbrjef fyrir hverja iðjugrein, og að því miðar brtt. mín að gera þetta skýrara. Brtt. mín er því ekki nein efnisbreyting, heldur orðabreyting og til þess gerð að taka af allan efa um það, hvort sami maður megi reka fleiri en eina iðjugrein, og að hann verði þá, í hvert skifti, sem hann tekur upp nýjan atvinnurekstur, að leysa leyfisbrjef, en hitt sje ekki bannað, eins og skilja má á orðalági frvgr., að nokkur megi reka fleiri en eina iðjugrein.

Allar þessar brtt. hefi jeg borið undir varaformann Iðnaðarmannafjelagsins, vegna þess að formaður þess var fjarverandi. Við gengum nákvæmlega í gegnum þær, og jeg spurði hann beint að því, hvort ekki væri rjettara að bera brtt. undir fund í Iðnaðarmannafjelaginu. En hann sagði, að þess þyrfti ekki, hann skyldi taka a sig alla ábyrgð um það fyrir fjelagsins hönd, að þessar tillögur væru í fullu samræmi við þá hugsun, sem fjelagið hefði ætlað sjer að ná með þessari löggjöf.