28.03.1927
Neðri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í C-deild Alþingistíðinda. (2812)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Mentmn. hefir ekki getað orðið á eitt sátt um þetta mál, eins og nál. bera með sjer. Jeg sje ekki ástæðu til að fara að rifja upp álit meiri hl. Flestir háttv. þdm. munu hafa lesið það.

Höfuðatriði þessa frv. er það, að bæta úr ríkri þörf Reykjavíkurbæjar fyrir ungmennaskóla. Við höfum þegar sint flestum þeim kröfum öðrum, sem heimtaðar eru í menningarlöndum. Við höfum sint latínuskólaþörfinni, sem fyrst gerir vart við sig á miðöldunum, og barnafræðsluþörfinni, sem sint hefir verið frá tímum siðbótarinnar. En ungmennafræðsluþörfin, sem er yngst, hefir ekki ennþá fengið þá úrlausn, sem þjóðfjelagið krefst og verður að fá. Stærstu eyðurnar í skólakerfi okkar eru vöntun á fullkominni smábarnafræðslu og unglingafræðslu. Það er að vísu vel farið, að heimilin haldi sem lengst smábarnafræðslunni, en þó ekki lengur en fært er. En unglingafræðslu er ekki hægt að leggja á herðar heimilanna. Það þekkist hvergi. Unglingafræðslan heimtar skóla, en til þess að hægt sje að framfylgja þeirri kröfu, verður þjóðfjelagið, bæjarfjelög og sýslufjelög, að koma til hjálpar. Það liggur í hlutarins eðli, að það kemur fyr til þingsins kasta að bæta úr ungmennafræðsluþörfinni en að gera smábarnafræðslunni skil. En um það er fult samkomulag meðal allra, að þörf sje á ungmennafræðslu, að barnafræðslu lokinni, og að hættulegt sje að fullnægja ekki þeirri þörf betur en nú er gert. Einmitt af því, að ungmennafræðsluþörfinni er ekki fullnægt, fara miklu fleiri yfir í mentaskólann og háskólann en annars mundu ganga þá braut. Það er m. a. þess vegna nauðsynlegt, að til sje þjóðvegur fyrir almenning, að loknu barnanámi. Unglingsárin eru vel fallin til náms. Þá fer að vakna áhugi á ýmsum viðfangsefnum, sem bíða hinna ungu manna. Námsgáfur eru í besta lagi. Unglingarnir eru viðkvæmir fyrir hverskonar áhrifum. Þá hafa þeir oftast nægar tómstundir, þar sem örðugt er að fá störf, sem taka allan þeirra tíma.

Hjer í bæ er svo ástatt, að unglingar, sem ekki ganga mentaveginn, verða að leita sjer fræðslu hingað og þangað, auðvitað mjög óskipulega, en með ærnum tilkostnaði. Unglingafræðsluskylda er þegar komin á í Englandi, víðast hvar á Þýskalandi og í Svíþjóð. En það er ekki það, sem hjer er verið að fara fram á, heldur einungis hitt, að þeir, sem vilja stunda nám að lokinni barnaskóladvöl, fái tækifæri til þess að fullnægja námsáhuga sínum. Hjer er einungis farið fram á, að unglingafræðslunni sjeu gerð sömu skil hjer og gert var í Danmörku 1814, fyrir rúmri öld, þegar hin merkilegu fræðslulög Dana gengu í gildi, svo að það er ekki hægt að segja, að við sjeum á undan tímanum. Löng vandræði og rík þörf undanfarinna ára liggja á bak við þetta frv.

Unglingafræðslumálum hefir oft verið hreyft hjer áður, og venjulega fengið þá úrlausn, að hvert hjerað, sem óskaði þess, hefir fengið stuðning Alþingis. Nú er komið að Reykjavík, og jeg sje ekki, að hægt sje að neita henni um þann sama stuðning, sem mörg önnur hjeruð hafa þegar fengið. Í Reykjavík verða árlega 14 ára á 4. hundrað börn, og unglingar frá 15–19 ára munu nú vera hjer um bil 2 þúsund. Það er mjög hæpið, að hægt sje að fá vetrarstarf handa öllum þessum fjölda. Margir eru atvinnulausir og aðgerðalausir. Aðrir reyna að bæta úr námsþörfinni á ófullnægjandi og óskipulegan hátt. Auk þess leita margir, sem frekari fræðslu vilja fá, til mentaskólans, sem aldrei átti að vera almennur unglingaskóli. Þannig togast menn til stúdentsprófs og háskólaprófs í ríkara mæli en þjóðfjelagið hefir þörf fyrir. T. d. munu útskrifast á þessu ári ekki færri en 60 stúdentar.

Jeg hefi oft lýst yfir þeirri skoðun minni, að stúdentaframleiðslan er í sjálfu sjer ekkert vandræðamál. Það er alt undir því komið, hvað stúdentarnir taka sjer fyrir hendur eftir á. En hjá okkur er sú erfðavenja rík, að stúdentar verða kandidatar og kandidatarnir verða svo annaðhvort embættismenn eða götuslæpingar. Það má teljast ógæfa, að svo margir ganga þessa braut, þar eð þörf þjóðfjelagsins fyrir embættismenn er takmörkuð. Sumstaðar, eins og t. d. í Ameríku, þykir það mikið gleðiefni, að margir verði stúdentar. Síðan dreifast þeir yfir til allra stjetta og starfa þjóðfjelagsins. Stúdentafjöldinn mundi ekki fyr verða gleðiefni hjá okkur en þessi ameríska venja væri orðin föst.

Jeg ljet þess getið á síðasta þingi, í umr. um lærðan skóla í Reykjavík, þá fyrir hönd minni hl. mentmn., að heppileg úrslit skólamálanna væru undir alt öðru komin en því, að breyta til um einstakar námsgreinir. Það, sem vantar, eru heimavistir, aukning íþrótta- og fjelagslífs meðal nemenda og auk þess önnur þjóðbraut fyrir almenning heldur en mentaskólinn. Mjer er það mikil ánægja að fá tækifæri til þess að styðja þessi höfuðatriði, heimavistirnar og unglingaskólann, nú þegar á þessu þingi.

Þessu máli fylgir meiri hl. fram í því trausti, að ef frv. verður samþ., sje um leið kveðið á, hvaða kjörum unglingafræðslan alment eigi að sæta. Meiri hl. ber það traust til þingsins, að um leið og það setur ákveðin skilyrði um unglingafræðslu í stærsta kaupstað landsins, liggi þar á bak við, að landið í heild sinni sæti sömu kjörum, þegar sett verða allsherjarlög í þessu efni. Jeg hefi einu sinni borið fram frv. um unglingaskóla utan Reykjavíkur. Jeg hefi ekki viljað bera það fram aftur, heldur kosið að berjast nú á þessum eina punkti, þannig, að ef þetta vinst, mætti skoða hitt sem unnið líka. Þess vegna vil jeg í sambandi við þetta beina því til hæstv. kenslumálaráðh. (MG), hvort hann vildi ekki á næsta þingi bera fram frv. um unglingafræðslu í landinu, þar sem landið í heild sinni yrði látið sæta líkum skilyrðum og hjer eru sett um Reykjavík.

Meiri hl. hefir ekki gert margar brtt. Eina þeirra ætla jeg að minnast ofurlítið á. Hún er að vissu leyti orðabreyting, en er þó um leið einhver mesta efnisbreytingin, sem meiri hl. hefir gert. Í stað „gagnfræðaskóla“ viljum við setja: „ungmennaskóla“. Okkur þótti orðið gagnfræðaskóli vera fulltengt stúdentamentuninni hjer, til þess að það væri heppilegt heiti á almennum unglingaskóla. Einnig vildum við fá sameiginlegt heiti fyrir alla slíka skóla, hvar sem þeir eru á landinu.

Í Danmörku eru lýðháskólar í sveitum, en „Real“- eða „Mellem“-skólar í bæjunum, sem ekki eru sniðnir eingöngu eftir þörfum nemenda, heldur og nokkuð eftir kröfum lærdómsdeildanna og stúdenta. Þetta er jafnan ágalli á gagnfræðaskólum, enda veldur það vandræðum fyrir Dani nú, þegar þörf er á almennri unglingafræðslulöggjöf. Þetta hefir tafið fyrir föstum tökum á unglingafræðslunni, og aðrar þjóðir hafa orðið á undan þeim í því efni. Það eru ekki gagnfræðaskólar Norðurlanda, sem eiga að vera aðalfyrirmyndirnar hjer, heldur framhaldsskólarnir, sem hafa tekið miklum framförum á síðari árum og eru settir í sem nánast samband við þörf unglinganna. Það hefir ekki eingöngu háð unglingafræðslunni, að latínuskólar voru hinir fyrstu skólar, sem síðan lituðu út frá sjer önnur skólakerfi, alt til vorra daga. Þetta hefir jafnvel verið til meins fyrir barnafræðsluna, t. d. með tilliti til kenslubóka og námsgreina. Vísindi háskólanna hafa verið kend í vasaútgáfu í barnaskólunum. Jeg kæri mig ekki um að fara að lýsa nákvæmlega unglingaskólum nútímans eða þróun þeirra, en nefni rjett Svíþjóð. Í unglingaskólum í Svíþjóð eru námsgreinir ólíkar því, sem er í reglulegum gagnfræðaskólum, og jeg held einmitt, að við mættum taka okkur það atriði til fyrirmyndar. Námsgreinir eru þar sem sje mjög fáar og óbreyttar, venjulega ekki nema 3, móðurmálið, þjóðfjelagsfræði og vinnufræði. Um vinnufræðina er það að segja, að þar er dregið saman úr ýmsum fræðigreinum það, sem best á við umhverfi skólans, og vísindum, sem gagnlegust eru fyrir atvinnuvegina á hverjum stað. Hún mundi þannig geta átt sjerstakt erindi til okkar í sambandi við landbúnað og sjávarútveg.

Um þessa hluti er ekkert sett í frv., eins og vera ber. Þau lög, sem sett eru á þingi um skóla, eiga ekki að ná yfir margt, sem verður sjermál uppeldisfræðinga og skólamanna. Einmitt að því verður frv. einfaldara fyrir þingið en ella. Skólar eins og ungmennaskólar og iðnskólar eiga að skapa sig sjálfir, eftir því sem bestu skólamenn landsins gera tillögur um. Staðfesting fræðslumálastjórnar nægir svo, til þess að tryggja, að ekki sje farið út fyrir þann ramma, sem þing og stjórn vilja. Þetta frjálsræði er þar að auki nauðsynlegt, af því að ekki er ákjósanlegt, að allir unglingaskólar landsins sjeu steyptir í sama mótið, heldur sje þeim hagað eftir mismunandi aðstöðu hjeraðanna og ólíku eðli kennara og nemenda.

Jeg fæ ekki skilið, að það geti verið neitt verulegt, sem hjer ber á milli meiri og minni hl. um unglingafræðsluna. Það á að greiða atkv. um það einfalda mál, hvort Reykjavík eigi að njóta þeirra kjara, sem þeir, sem atkvæði greiða með frv., ætlast til, að alt landið verði aðnjótandi síðar.

Nú hafa engar brtt. komið fram í deildinni um þau skilyrði, sem unglingafræðslan á að njóta samkv. frv., svo að jeg skal ekki ræða þau nánar. En ef eitthvað er við þau skilyrði að athuga, þá á að bera fram við þau brtt., og fyr en það er gert, virðist ekki ástæða til að ræða einstök atriði, sem altaf geta skift máli.

Það kann að valda nokkurri misklíð, að í þessu frv. er þremur öðrum skólum blandað saman við, iðnskólanum, verslunarskólanum og vjelstjóraskólanum. Vjelstjóraskólinn er ríkisskóli og er húsnæðislaus, og það getur enginn amast við því, að það skuli einhverntíma í framtíðinni verða bygt yfir hann; það verður eins, þó að ekki sjeu gerð sjerstök lög um það. Það verður heldur ekki amast við því, að rekstur hans verði með þessu móti heldur ódýrari. Það er alveg útilokað, að þó að vjelstjóraskólinn gangi í þetta samband, að það geti haft nokkur áhrif til hins verra á afstöðu manna til frv. Hitt kynni að valda andstöðu, að iðnskólinn er settur í þetta samband, og þó held jeg, að þegar til lengdar lætur, geti enginn amast við því, að iðnskólinn sje tekinn á ríkið, með þeim skilyrðum, sem hjer eru sett. Iðnskólinn fær ekki aðrar tekjur frá ríkissjóði en 75% af kennaralaunum, en víðast hvar, þar sem jeg þekki til, greiða ríkissjóðir einmitt líka hundraðstölu til skóla, sem reknir eru fyrir einstakra manna tilstyrk, svo að hjer er um þá breytingu að ræða, sem hvort eð er mundi koma, ef ekki strax, þá innan skamms. Iðnskólinn er einn af þeim skólum, sem hlýtur að laga sig mest eftir þeim breytingum, sem verða í þjóðfjelaginu, og þegar íbúatala Reykjavíkur er komin yfir 20 þús., svo sem nú er raun á orðin, er við því að búast, að iðnskólinn þurfi að taka á sig þá mynd, að honum sje nauðsynlegt að fá einhvern vissan styrk úr ríkissjóði, til þess að hafa tryggar tekjur, svo að hann geti haldið uppi þeirri starfsemi, sem honum er ætlað.

Jeg vil athuga það hjer, að mjer varð áður mismæli, þar sem jeg sagði, að vjelstjóraskólinn ætti að fá 75% af kennaralaunum. Það var ekki rjett, heldur á iðnskólinn og vjelstjóraskólinn að fá öll kennaralaun, en annarsstaðar frá á að koma allur annar kostnaður, og þá vildi jeg segja, að það mundi aldrei lenda meira á ríkissjóði en 75% af öllum skólakostnaði. En þar sem slíkir skólar njóta styrks í öðrum löndum, þá er ríkissjóðsstyrkur ekki miðaður við kennarakaupið eitt, heldur við allan skólakostnað.

Þá er eftir að nefna þann skólann, sem valda mun mestum ágreiningi af þeim skólum, sem inn í þetta frv. eru teknir. Það er verslunarskólinn. Nú stendur svo á, að annar hliðstæður skóli, samvinnuskólinn, er ekki tekinn inn í frv., og við undirbúning þessa frv. var ekki leitað samvinnu við Samband íslenskra samvinnufjelaga. Mjer var persónulega kunnugt um það, að þetta var enganveginn gert af því, að það ætti hjer að fara aftan að sambandsskólanum og nota tækifærið til þess að svifta hann þeim ríkisstyrk, sem hann hingað til hefir haft. En þó að þetta væri enganveginn tilgangur þeirra manna, sem bjuggu til frv., má altaf segja, þegar svona fyrirkomulag er komið á um Verslunarskóla Íslands, að þá liggi beint við að óttast, að þeir, sem fjandsamlegir eru samvinnuskólanum og kennurum hans, kunni að nota tækifærið til þess að svifta hann þeim styrk, sem hann nýtur. Jeg hefi þess vegna borið fram tillögu um það, að samvinnuskólinn skuli hafa rjett til þess að ganga inn í þetta skólasamband, og að hann skuli, þar til slíkir samningar takast, hafa úr ríkisjóði styrk, eigi minni en hann nú nýtur, og bind jeg fylgi mitt við þetta frv. því skilyrði, að um leið og þetta frv. er afgreitt, þá sje fyrir það girt, að hægt sje að segja að þessi lög sjeu sett til höfuðs samvinnuskólanum, og það álít jeg trygt með þeirri tillögu, sem jeg hefi fram borið.

Þetta samband á milli unglingaskólans, vjelstjóraskólans, iðnskólans og verslunarskólans, hygg jeg að orðið geti til gagns fyrir þá. Það yrði til þess, að fá þeim betra húsnæði og ódýrara heldur en áður, það yrði til þess, að sameiginleg afnot yrðu af ýmsum sjerstökum stofum, teiknisal, eðlisfræðisstofu, vinnustofu o. fl., sem yrði miklu dýrara í rekstri fyrir hvern skóla fyrir sig; það yrði líka til þess, að hægt væri að nota kenslukraftana betur, nota sjerfræðinga til að kenna í öllum skólunum, og hvern til að kenna sína grein, svo að þeir þyrftu ekki, eins og nú er, að kenna kannske að þriðja eða fjórða hlut sína sjergrein, en að þrem fjórðu hlutum eitthvað annað, sem þeir kynnu ekki betur en hver annar. Þetta er kostur, og þó er það ekki hvað síst, að með þessari sameiningu væri hægt að koma á fjölskrúðugri kenslu, bæði hvað snertir tungumál, náttúrufræði, eðlisfræði og margt fleira. Það er hægt að koma á betri námsskilyrðum, heldur en ef hver skóli ætti að hokra út af fyrir sig, því að það má segja, að það sjeu víðtækir möguleikar fyrir svo stóran skóla sem þennan að fullnægja öllum þörfum þess hjeraðs, sem hann á að vinna fyrir. Og með því fyrirkomulagi, sem jeg hefi nú bent á, mun sjálfstæði skólans vel fyrir komið, bæði hvað kenslu snertir og efnalegt sjálfstæði hans. Þá mun hann bæði hafa það vald og þá kenslukrafta, sem til þess þarf, að hann geti lagað sig eftir kröfum lífsins í því hjeraði, sem hann á að starfa fyrir.

Mun jeg svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni. Það, sem jeg hefi nú talað um þetta mál, er almenns efnis. Jeg hefi ekki kært mig um að ræða einstök atriði, eins og jeg hefi áður sagt, af því að engin sjálfstæð brtt. hefir komið fram frá öðrum en nefndinni, og það er ekki hægt að byggja andstöðu sína við þetta mál á athugasemdum við einstök atriði. Athugasemdir um einstök atriði eiga að leiða til þess, að brtt. komi fram, t. d. um það, hve mikið ríkissjóður skuli leggja fram, eða hver hlutföll skuli vera í milli kostnaðar ríkissjóðs og hjeraðs. Eins og allir vita, er enginn algildur sannleikur til um slíka hluti, og getur margt komið til greina, þegar um slíkt er að ræða. En, sem sagt: andstöðu við þetta frv. verður að byggja á því, að Reykjavík eigi ekki að fá sama rjett fyrir sína unglingafræðslu, eins og viðkomandi þingmenn mundu vilja veita öðrum hjeruðum landsins. Því að það þarf enginn að óttast, að önnur hjeruð fái ekki sama rjett, og það kemur allri nefndinni saman um, að öll hjeruð eigi að fá sama rjett. Þetta atriði verður heldur ekki falið svo, að ekki geri hver þm. sjer það ljóst, að hann er hjer að greiða atkv. um þau skilyrði, sem öll unglingafræðsla á landinu á að búa við, og hvort Reykjavík á að fá þann unglingaskóla, sem hún hefir fulla þörf á, og hvort á að setja hann í samband við þá sjerskóla, sem geta aukið unglingafræðsluna.