28.03.1927
Neðri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í C-deild Alþingistíðinda. (2813)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Jón Guðnason):

Jeg hefi, ásamt hv. 2. þm. Eyf. (BSt) orðið í minni hluta í þeirri nefnd, sem fjallaði um þetta mál. En þó að svo hafi nú orðið, að við höfum lent hjer í minni hl. og nefndin hafi klofnað, er ekki þar með sagt, og síður en svo, að skoðanir nefndarmanna í meiri og minni hl. á alþýðumentamálum í heild sinni sjeu svo mjög ólíkar, að það hafi verið þær, sem hafi valdið því, að nefndin klofnaði. Jeg veit, að mjer er óhætt að segja það fyrir hönd mína og hv. 2. þm. Eyf., að við lítum svo á, að eitt stærsta verkefni nútíðarkynslóðarinnar sje einmitt að byggja framtíðargrundvöll undir ungmennafræðsluna hjer á landi. Og jeg ætla þá líka, að það muni geta komið í ljós á sínum tíma, ef atvikin haga svo til, að við litum þannig á þessi mál og viljum starfa á þeim grundvelli. Hitt er annað mál, að með það frv., sem hjer liggur fyrir, höfum við ekki getað orðið samferða hv. meiri hl. nefndarinnar. Og jeg get þá sagt það strax, að aðalástæðan til þess, að við höfum ekki getað orðið það, er sú, að við viljum ekki að svo vöxnu máli taka svo stórt mál sem þetta frv. felur í sjer út úr og ráða því til lykta, áður en sett eru lög um skipulag ungmennafræðslunnar í heild sinni. Við minnihlutamenn lítum svo á, að það þurfi sem allra fyrst að koma skipulagi á ungmennafræðsluna í landinu, og vitanlega ríður þá mjög mikið á því, að áður en það spor er stigið, sje ekki stigin nein önnur stór spor, sem geti komið í bága við það skipulag, sem þykir hentugast eftir nákvæma athugun. Það er nú reyndar svo, eins og við vitum, að þótt við höfum enn ekki fast skipulag á ungmennafræðslunni í landinu, þá er þó fjarri því, að þar sje algerlega eyða í mentamálum okkar, því að á nokkrum stöðum á landinu eru þegar risnir upp ungmennaskólar, og hafa þeir ýmsir farið allmyndarlega af stað. Það, sem hefir hrundið fram stofnun þessara ungmennaskóla, sem þegar eru komnir, það er, held jeg sje óhætt að segja, að svo sem engu leyti frumkvæði eða afskifti hins opinbera, þings eða stjórnar, til þessa máls, heldur er tildraganna að þeim stofnunum að leita heima í þeim hjeruðum sjálfum, þar sem þessir skólar eru komnir upp. Og svo má auðvitað á ýmsan hátt rekja þau til ýmsra áhugamanna um mentamál utan hjeraðanna, sem hafa verið forgöngumenn og hvatningamenn þjóðarinnar á þessu sviði. Og að minsta kosti allstórum hluta þjóðarinnar hefir orðið það ljóst á seinni tímum, að mikil þörf var á því, að hlynna að ungmennafræðslunni meira heldur en gert hefir verið, og að þörf var á því að byggja ofan á þá fræðslu, sem veitt er fyrir fermingaraldur. Og það er þessi þörf, eða rjettara sagt fyrir það, að augu manna í hinum einstöku hjeruðum hafa opnast fyrir þessari þörf, að ungmennaskólar hafa risið upp í nokkurum hjeruðum landsins. Það er því óhætt að segja, að þessir skólar sjeu algerlega vaxnir upp úr jarðvegi þjóðarinnar sjálfrar; þeir eru ávöxtur af hennar eigin áhuga fyrir aukinni mentun. Hinu er ekki hægt að leyna, að þessir skólar hafa átt allerfitt uppdráttar, og sumir þeirra verið af vanefnum gerðir á einn eða annan hátt og átt við mikla erfiðleika að stríða, sem hafa felt nokkra þeirra um koll, en ekki getað grandað öðrum þeirra. Þessi vísir til unglingaskóla, sem við höfum hjer á landi, er nú þegar orðinn svo mikill og búinn að ná þeim þroska, að það sýnist vera svo, að von bráðar megi nota hann sem grundvöll til að byggja á ungmennaskólakerfi fyrir landið.

En þegar hjer er komið sögunni og kemur að þessu frv., er það, sem leiðir minni hl. nefndarinnar og hv. meiri hl. skiljast. Vjer vitum það, að það sem hefir verið einkennið á nær öllum ungmennaskólum, nema aðeins einum, sem fyrir sjerstök atvik var gerður að ríkiskóla, hefir verið það, að eins og þeir hafa verið vaxnir upp úr jarðvegi þjóðarinnar sjálfrar og bornir á höndum hennar, eins hefir líka rekstur þeirra að öllu leyti verið á herðum hlutaðeigandi hjeraða eða einstakra forgöngumanna skólanna, en hið opinbera hefir aðeins látið þeim í tje styrk, misjafnlega mikinn, eftir ástæðum, og svo um leið sett sín skilyrði, til að tryggja það, að kenslan í skólunum gæti komið að tilætluðum notum. Þessu skipulagi er ennþá haldið um þrjá stærstu skólana hjer á landi, skólana að Núpi, Laugum og Hvítárbakka. En með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, er gengið inn á nýja braut í þessu efni, þar sem gert er ráð fyrir, að stofnaður sje ungmennaskóli fyrir stærsta hjerað þessa lands, Reykjavík, sem sje þá um leið gerður að ríkiskóla, því að svo má kalla hann, þó að stofnkostnaður og reksturskostnaður komi að nokkru leyti frá Reykjavík, af því að rekstur hans er að öllu leyti í höndum hins opinbera. Hjer er því, eins og jeg sagði, gengið inn á nýja braut, og hjer er þá líka atriði, sem jeg verð að telja mjög athugavert, og vonandi, að verði vandlega íhugað, áður en vjer gjöldum jákvæði við því. Og meira að segja: jeg lít svo á, að þessi braut, sem hjer er gengið inn á, ætti að athugast í sambandi við fyrirkomulag ungmennaskólastarfseminnar fyrir landið alt. Jeg lít svo á, að það þurfi, áður en stigið er hið endanlega spor um hið fasta ungmennaskólafyrirkomulag fyrir landið alt, nákvæmlega að athuga það, hvort rjett sje að gera þessa skóla að ríkisskólum, eða að láta þá vera einkafyrirtæki, styrkt af ríkinu, og þá vitanlega háða þeim reglum, sem ríkið setur. Jeg vil leggja áherslu á, að hver leiðin sem farin verður, þá ætti ekki að ákveða hana fyr en búið er að athuga, hvernig skólakerfi fyrir alt landið ætti að vera og búið er að taka fasta ákvörðun um það. Þetta tvenskonar fyrirkomulag, einkaskóla og ríkisskóla fyrirkomulagið, hefir hvort um sig sína kosti og sína galla. En einkaskólarnir eru vaxnir upp úr jarðvegi þjóðlífsins og hafa átt tilveru sína undir áhuga hennar, og því hygg jeg, að það gæti verið gott fyrirkomulag að hafa sem nánast samband milli skólanna og hjeraða þeirra, sem styrkja þá og eiga að njóta þeirra.

Jeg vil nú beina þeirri spurningu til hæstv. stjórnar eða fræðslumálaráðh., hvort hún hafi nú þegar tekið þá ákvörðun, að leggja til, að ríkið taki að sjer rekstur allra unglingaskólanna í framtíðinni.

Það, sem er ólíkt um skólastofnun þá, sem þetta frv. fjallar um, og um stofnun unglingaskóla út um land, er ekki aðeins það, að hjer á að byrja með því að setja á stofn ríkisskóla, heldur og það, að segja má, að þessi fyrirhugaði samskóli í Reykjavík sje upp úr öðrum jarðvegi runninn en unglingaskólar í sveitum. Til undirbúnings þessu skólamáli hefir ekkert verið aðhafst, nema af hálfu eins manns, sem að vísu má játa, að hefir lagt í þetta mál mikla vinnu. Hjer í Reykjavík hefir lengi verið þörf fyrir ungmennaskóla, vegna þess að henni hefir ekki verið fullnægt með þeim skólum, sem fyrir eru. En það hefir lítið verið gert til þess að bæta úr þeirri þörf af hálfu þeirra manna, sem þessi skólahugmynd helst hefði átt að liggja á hjarta. Svo að því leyti er hægt að segja, að þessi skóli, sem hjer á að reisa, er ekki vaxinn upp úr jarðvegi áhugans í því hjeraði, sem skólans á að njóta.

Mjer virðist nauðsynlegt, að þetta mál sje sem best athugað af hlutaðeigendum, er helst eiga að njóta skólans. En það hefir ekki verið gert að öðru leyti en því, að þetta frv., sem hjer liggur fyrir, hefir verið lagt fyrir bæjarstjórn Reykjavíkur og nokkra menn aðra. Mjer finst því, að segja mætti, að af hálfu Reykvíkinga sje þessi hugmynd nokkuð snöggsoðin. Svo er þess að gæta, að frv. felur í sjer ekki neina smáræðisstofnun, ekki einn lítinn skóla, eins og sumir alþýðuskólarnir eru, sem stofnaðir eru af hjeruðunum og einstökum mönnum, heldur er hjer hvað stofnkostnað snertir um stórt fyrirtæki á okkar mælikvarða að ræða. Auðvitað hlýtur alt unglingaskólakerfið að hafa mikinn kostnað í för með sjer, og því fellur mikill kostnaður að sjálfsögðu á ungmennaskóla Reykjavíkur, vegna þess mikla fólksfjölda, sem hjer er. Jeg vil þá í því sambandi nota tækifærið til að mótmæla því, sem háttv. frsm. meiri hl. sagði, að andstaða okkar í minni hl. bygðist á því, að við vildum ekki láta Reykjavík verða sama rjettar aðnjótandi til ungmennaskóla eins og önnur hjeruð. En í þessu frv. er Reykjavík trygður meiri rjettur en öðrum hjeruðum. Reykjavík fær með frv. meiri rjett en önnur hjeruð til skólahalds, að því leyti, að með þessu frv. er í eitt skifti fyrir öll slegið föstu, hve mikill hluti af rekstrarkostnaði þessa skóla skuli hvíla á ríkissjóði, og hve mikill hluti á Reykjavík. Það hefir að vísu verið sagt, að þau hlutföll, sem verða þarna milli framlags ríkis og bæjar, sjeu þau sömu og gilda eigi gagnvart öðrum ungmennaskólum. En jeg vil benda á, að mikill munur er á því, þegar um tvær skólastofnanir er að ræða, sem fá flutfallslega jafnmikið fje úr hvorum stað, af annar skólinn hefir þennan rjett trygðan með lögum, en hinn á undir högg að sækja með styrk til fjárveitingarvaldsins á hverju ári. Þótt þeirri reglu hafi verið fylgt í 2 ár, er þessi grundvöllur ekki fastari en það, að slæmur fjárhagur ríkissjóðs getur gengið út yfir þau hjeruð, sem hafa skóla, sem ekki hefir trygðan rjett sinn lagalega. Að þessu leyti er Rvík trygður meiri rjettur heldur en einstökum hjeruðum, þar sem unglingaskólar eru reknir sem einkaskólar. Auðvitað mætti breyta þessu með því að setja sömu lagaákvæði viðvíkjandi unglingaskólum í sveit. En við eigum ekki víst, að það yrði gert, og þar sem það Alþingi, sem um það mál ætti að fjalla og gera endanlega út um skipulag ungmennafræðslunnar, verður öðruvísi skipað en núverandi þing, þá er engin trygging fyrir því, að það gæti fallist á það, að ríkið gengi inn á þá braut með alla unglingaskóla landsins, sem farið er fram á í þessu frv.

Jeg lít því svo á, að þetta mikla fyrirtæki, stofnun þessa skóla fyrir Rvík, ætti að verða samferða því, þegar gert er út um skipun unglingaskólanna í landinu. Jeg vona þá líka að hv. frsm. meiri hl. geti sjeð, að andstaða okkar minni hl. til þessa frv. sje ekki sprottin af neinni óvild til Reykjavíkur, eða af því að við viljum hafa af henni þann rjett, sem gefinn er öðrum hlutum landsins.

Jeg vil í sambandi við það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði um hlutfallið milli þess, sem ríkið leggur til hjeraðsskólanna, og þess, sem kemur annarsstaðar frá, benda á það, að í fjárl. hefir stjórnin áætlað 38 þús. kr. til unglingaskóla utan Reykjavíkur. Fræðslumálastjóri hefir lagt til, að upphæðin yrði hækkuð upp í 50 þús. kr., með tilliti til þess, að skólarnir fái svipaða upphæð til rekstrar og hjer er gert ráð fyrir í þessu frv. að þessi samskóli fái. En nú hefir fjvn., enda þótt hún sje hlynt þessum skólum lækkað þennan styrk um 1/10, hluta, niður í 45 þús. Þetta finst mjer vera smámynd af því, hvernig komið getur fyrir, að fjvn. dragi úr styrk til skóla, sem eru ólögtrygðir einkaskólar.

Jeg vona nú, að hv. þdm. þyki ekki undarlegt, þótt við í minni hl. nefndarinnar — án þess að vilja draga skóinn ofan af Reykjavík í þessu efni — verðum að skoða það skyldu okkar, að gæta þess, að sveitahjeruðin verði ekki útundan með opinberan styrk til ungmennafræðslunnar, og þótt við sjeum því mótfallnir, að þetta frv. nái fram að ganga í þetta sinn.

Jeg hefi nú talað um rekstrarfyrirkomulag þessa skóla í samanburði við rekstrarfyrirkomulag annara skyldra skóla. En jeg vil geta þess viðvíkjandi stofnun þessa skóla, að þótt gott sje að setja lög um stofnun hans fyrir framtíðina, þá finst mjer það hjáleitt, að gera það nú, þegar útlitið með fjárhag landsins er svo, að engu má á ríkissjóðinn bæta og draga verður saman seglin á öllum sviðum. Það eru lítil líkindi til þess, að við verðum í náinni framtíð færir um að reisa þetta hús handa samskólanum. Og fyrir utan það, hvernig útlitið er, þá höfum við með höndum, auk verklegra framkvæmda, mikla byggingu, sem er landsspítalinn, sem virðist nægilegt verkefni fyrir ríkissjóð að koma upp á næstu árum. Og þar sem svona er ástatt, á jeg bágt með að sjá, að við í náinni framtíð verðum færir um að bæta á okkur þeim útgjöldum, sem bygging þessa húss hefir í för með sjer. En sje svo, að ekki verði unt að byrja á þeirri byggingu á næstunni, hvers vegna á þá að fara að taka Reykjavík út úr skólakerfi landsins og fara að búa til lög um langsamlega stærsta þáttinn í því skólakerfi, áður en hinir smærri þættirnir eru teknir með, lög, sem engin líkindi eru til, að kæmu til framkvæda fyr en búið væri að leggja grundvöllinn að ungmennafræðslunni í landinu?

Jeg tel, að öllu athuguðu, heppilegast að láta þetta mál bíða til næsta Alþingis, og það verði þá borið fram í sambandi við frv. um skipun ungmennafræðslunnar í landinu. Og fyrir utan þá ástæðu, sem jeg þegar hefi nefnt, að láta þessu frv. fylgja frv. um skipun unglingafræðslunnar, þá vil jeg bæta því við, að sjerstök ástæða er til að gera sjer ljóst, ekki aðeins fyrirkomulag, stærð og kostnað þessa skóla í byrjun, heldur líka að gera sjer ljóst, hver yrði þróun hans og stækkun með tímanum. Og um leið og settar væru reglur um þetta fyrir þennan skóla, væru þá líka settar samskonar reglur fyrir aðra skóla sömu tegundar. Hjer í Rvík liggur vöxtur skólans í því, að bekkir verða margsettari; en út um land getur þessi vöxtur skólanna komið fram annaðhvort í því, að stækkaðir yrðu þeir skólar, sem fyrir væru eða í því, að skólar kæmu með tímanum í fleiri og fleiri hjeruð. Hv. frsm. meiri hl. ljet þess getið, að ekki hefði komið fram nein brtt. við þetta frv., nema frá meiri hl. nefndarinnar og honum sjálfum. En það er ekki eðlilegt, að við minni hl. kæmum fram með brtt., af því að við leggjum til, að frv. verði felt. En sú brtt., sem okkur hefði fundist eðlilegt að koma fram með, hefði þá verið um það, að gera í einu lagi lög um alla unglingafræðslu í landinu. En til þess eru engin tök nú á þessu þingi, enda eðlilegast, að slík löggjöf kæmi fyrir þingið undirbúin af stjórninni.

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, felur í sjer það, að sameinaðir verði við unglingaskóla Reykjavíkur 3 skólar, einn núverandi ríkisskóli og tveir einkaskólar, en það eru vjelstjóraskólinn, iðnskólinn og verslunarskólinn. Það getur nú í sjálfu sjer verið álitamál, hvort heppilegt sje að sameina þessa skóla unglingafræðslunni. En út af fyrir sig gæti jeg þó ekki verið á móti málinu á grundvelli þess, að slíkt samband væri óheppilegt, og svo beygi jeg mig að því leyti fyrir þekkingu þess manns, sem undirbúið hefir málið fyrir þingið.

Jeg veit, að með vjelstjóraskólann er því svo varið, að hann getur ekki notið sin vegna vöntunar á húsplássi. En sú þörf ein getur ekki nægt til þess að knýja fram þetta mál. Um hina tvo skólana, iðnskólann og verslunarskólann, verð jeg að segja það sama og jeg sagði um unglingaskólana, að jeg tel það álitamál, hvort heppilegra væri að þeir væru gerðir að ríkisskólum eða væru framvegis einkaskólar. Eins og nú er, leggur ríkið skólum þessum allverulegan styrk, hefir eftirlit með rekstri þeirra og sjer um að kenslan komi að sem bestum notum og nái tilgangi sínum. Minni hl. lítur því svo á, að vegna þessara skóla sje þess ekki bráð þörf, að frv. nái fram að ganga. Að minsta kosti er þörfin á því, að skólarnir komist á ríkissjóðinn, ekki svo aðkallandi, að það rjettlæti, að frv. verði samþ. á þessu þingi.

Eins og tekið er fram í nál. minni hl., höfum við furðað okkur á því, að í undirbúningi þessa máls skyldi ekki vera leitað álits þeirra manna, er að samvinnuskólanum standa. En þann skóla verður að minsta kosti að telja hliðstæðan verslunarskóla kaupmanna. Jeg get að engu sjeð ástæðu til þess, að verslunarskólinn, þótt hann sje eldri, hafi nokkur forrjettindi fram yfir samvinnuskólann til þess að verða tekinn inn í samskólasambandið. Jeg skal ekkert um það fullyrða, hvernig þeir, sem að samvinnuskólanum standa, hefðu tekið í málið, ef leitað hefði verið til þeirra eins og til forstöðumanna verslunarskólans. En jeg sje ekkert, sem afsakað getur þá vanrækslu stjórnarinnar, að hún ljet hjá líða að taka tillit til samvinnuskólans og leita álits stjórnenda hans, áður en hún lagði frv. þetta fyrir þingið. Ef til vill hefir stjórnin litið svo á, að skóli sá, er hjer er gert ráð fyrir að verði einn liður í samskólunum, komi bæði í stað verslunarskólans og samvinnuskólans. En frá sjónarmiði okkar, sem unnum starfsemi samvinnuskólans, getur þetta ekki komið til mála, sjerstaklega þar sem gengið hefir verið framhjá öðrum skólanum við undirbúning málsins. Því að ætla má, að sá skóli hafi ekki haft minna að leggja til, hvað gert yrði í þessum málum eftirleiðis, enda þótt tillögur hans hefðu kanske gengið í aðra átt en tillögur hinna skólanna.

Háttv. frsm. meiri hl. hefir komið fram með brtt., sem snertir samvinnuskólann og miðar að því, að tryggja rjett hans, eftir að samskólahugmyndin er komin í framkvæmd. Mjer finst till. þessi benda á, að háttv. þm. (ÁÁ) sje ekki ugglaus um, að skóla þessum muni ekki ætlað tjón af stofnun samskólanna og óttist, að hann verði sviftur styrk þeim, sem hann nú hefir frá ríkinu, þegar samskólarnir eru komnir upp. Það er auðvitað, að ef brtt. þessi nær fram að ganga, þá er samvinnuskólanum trygður nokkur rjettur í framtíðinni. En þó er honum órjettur ger með stofnun samskólanna og inntöku verslunarskólans í þá. Ef svo er, sem gera má ráð fyrir, að hagur verslunarskólans eigi að batna við það, að verða liður í þessari samskólastofnun, en hagur samvinnuskólans aftur á móti samkvæmt brtt. háttv. frsm. meiri hl. að verða hinn sami og hingað til, þá er það misrjetti. Væri fróðlegt að heyra, hvað vakað hefir fyrir hæstv. stjórn í þessu efni.

Jeg vil að lokum taka það fram, að við tveir, sem erum í minni hl., erum samdóma mjög mörgu af því, sem háttv. frsm. meiri hl. sagði alment um ungmennafræðsluna og fyrirkomulagið á henni. Jeg vænti þá líka, að það, sem jeg hefi sagt til andsvara frv., sje nógu ljóst til þess að sýna háttv. þdm. það, að við erum alls ekki á móti frv. af fjandskap við Reykjavík, heldur af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú tekið fram.

Að svo mæltu sje jeg ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið að sinni.