17.03.1927
Efri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

5. mál, iðja og iðnaður

Jón Baldvinsson:

Jeg á hjer smávegis brtt. á þskj. 107. Er þá fyrst að minnast á brtt. við 14. gr. í frv. er svo fyrir mælt, að allir skuli hafa rjett til þess að fá iðnbrjef, þeir, sem leyst hafa sveinsbrjef. En nú vill svo til, eins og jeg hefi áður tekið fram, að í sumum iðngreinum er ekki hægt að leysa sveinsbrjef á þann venjulega hátt, að sveinssmíði sje gerð. Á þetta t. d. við um prentaraiðn. En þegar svo er, þá vil jeg að viðurkenning sveinafjelags jafngildi sveinsbrjefi, og það er fult svo tryggilegt sem hitt, því að iðnaðarmenn í hverri grein ganga ríkt eftir því, að enginn fái viðurkenningu annar en sá, sem lokið hefir námstíma og hefir þann færleik í sinni iðn, sem krefjast verður.

Iðnaðarfjelögin munu og reyna að takmarka sem mest sveinafjölda, því að það er hverri stjett til bölvunar, að of mikið verði um þá, er keppast um að fá að vinna þau verk, — keppast um handtökin, sem aðeins ákveðinn fjöldi manna getur lifað á.

Jeg vona því, að hv. þd. fallist á þessa brtt., og jeg skal geta þess, að þetta er svo í öðrum löndum, að viðurkenning sveinafjelags er látin jafngilda sveinsbrjefi.

Þá er önnur brtt. mín um það, að gjöldin í 23. gr. lækki mikið. Það er óhafandi, að iðjuleyfi skuli eiga að kosta 500 kr. Hjer á landi er flestur iðnrekstur mjög smár. Ef um stóriðju er að ræða, þá eru önnur ráð til þess að ná sjer niðri á henni. Ríkið hefir ráð á því að láta stóriðju greiða háa skatta, en má ekki setja svona hátt gjald fyrir iðnleyfi. Við skulum t. d. hugsa okkur, hve ranglátt það er að láta fátæka menn greiða 500 krónur fyrir iðnleyfi, menn, sem hafa slegið sjer saman í fjelag og varið öllu sínu fje og lánstrausti til þess að útvega sjer tæki til atvinnurekstrarins, og eru þó í vandræðum fyrst í stað með fje til bráðnauðsynlegra þarfa.

Lítum við nú aftur til ársins 1914 og hvað kaup var lágt þá, og tökum það sem dæmi, að iðnaðarmaður hefði þá orðið að greiða 50 krónur fyrir iðnleyfi, þá hefði hann þurft að vinna fyrir því í 21/2 viku. En hefði verið um meistarabrjef að ræða, þá hefði viðkomandi orðið að vinna fyrir því í rúman mánuð. Sjá nú allir, að ef kaupgjald færist niður, og jafnvel verði eitthvað í líkingu við það, sem var fyrir stríð, þá er þetta gjald, 500 kr., alt of hátt og mjög tilfinnanlega hátt.

Jeg býst nú við því, að þessi gjöld, sem áætluð eru í frv., eigi ekki að vera neinn tekjustofn fyrir ríkissjóð, heldur eigi þau aðeins að hrökkva fyrir þeim gjöldum, sem útgáfa leyfisbrjefa hefir í för með sjer. Þess vegna hefi jeg í brtt. minni tiltekið, að gjald fyrir iðnleyfi skuli vera 50 kr., gjald fyrir iðnbrjef 5 kr. og gjald fyrir meistarabrjef 10 kr. Og þetta álít jeg, að sje rífleg borgun til þeirra, sem gefa brjefin út.

Jeg hefi ekkert hróflað við þeirri heimild, að færa megi gjöldin niður um helming. Jeg geri ekki ráð fyrir, að það yrði oft gert, og mjer finst hv. allshn. hafa verið óþarflega ströng í ályktunum sínum, að vilja alls ekki að það komi til greina, að alt gjaldið verði felt niður.

Þá hefi jeg lokið því að tala um brtt. mínar, en þá verð jeg að minnast á hinar mörgu brtt., sem hæstv. forsrh. (JÞ) ber hjer fram. Verð jeg þá fyrst að segja, að mjer finst, að betur hefði farið á því, að innan hæstv. stjórnar hefði verið svo mikil samvinna, að þessir tveir ráðherrar hefðu komið sjer saman um það, hvað þeir vildu bera fram fyrir þingið, áður en það kom saman. Að öðru leyti verð jeg að segja um þessar brtt. hæstv. forsrh., að þær eru flestar heldur veigalitlar. Þó mun jeg ljá sumum þeirra atkvæði.

Við 6. brtt., þar sem ætlast er til, að vilji fjelag eða stofnun reka iðnað í kaupstað, þá skuli forstöðumaður hafa iðnbrjef — hefi jeg dálítið að athuga. Náttúrlega á hæstv. forsrh. hjer við það, að viðkomandi hafi iðnbrjef í sinni grein og þá þekkingu, sem til þess þarf að geta verið iðnaðarmaður í þeirri grein, og að hann vilji tryggja iðnfjelögum slíka þekkingu. En hjer kemur fleira til greina. Sá, sem er forstjóri einhvers fjelags, þarf ekki beinlínis að hafa slíka þekkingu til að bera; það er aðeins um að gera, að sjálfur verkstjórinn hafi meistarapróf. Forstjórar svona fjelaga, sem oft eru hlutafjelög, hafa mest með fjárreiður fjelaganna að sýsla, en síður hitt, að þeir þurfi að hafa þá kunnáttu að vita, hvernig hvert verk er unnið. Þess vegna álít jeg, að nóg sje að taka svo til orða, að sá, sem sjer um vinnuna, hafi meistarapróf. Þetta meinar víst hæstv. forsrh. líka, en orðalagið á brtt. er of óljóst og óhentugt.

Þá er 8. brtt. hæstv. forsrh., við 17. gr. Þar vill hann draga úr því, sem frv. mælir fyrir um. í frv. er gert ráð fyrir, að meistarabrjef geti ekki aðrir fengið en þeir, sem hafa unnið að minsta kosti 3 ár hjá meistara, eftir að þeir fengu sveinsbrjef. Þetta ákvæði finst mjer að sett sje til þess að tryggja það, að altaf geti fengist fullkomnir menn til þess að standa fyrir iðnfyrirtækjum, því að þó þessir menn hafi áður unnið í 4 ár sem iðnnemendur, þá sje ekki víst, að þeir sjeu svo leiknir í sinni grein, að þeir geti staðið fyrir fyrirtækjum í iðnaði eða haft verkstjórn og kenslu á hendi. En jeg held, að brtt. komi í veg fyrir þetta og geri menn að sjálfstæðum iðnrekendum undir eins og þeir hafa tekið sveinsbrjef, og tel jeg það ekki til bóta.

Þá er það ekki fleira af brtt. hæstv. forsrh., sem jeg ætla að tala um, en þó vil jeg þegar taka það fram, sem brtt. mínar bera með sjer, að mjer finst alt of stutt gengið með 11. brtt. hans, um það, hvað gjöldin eigi að vera há.