08.04.1927
Neðri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í C-deild Alþingistíðinda. (2823)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Jón Guðnason):

Það er þegar búið að tala svo mikið um þetta mál, að jeg þarf ekki að vera langorður, að því er snertir málið alment. Jeg ætla því aðallega að minnast á brtt. þær, sem minni hl. hefir borið fram á þskj. 320.

Eins og hv. þm. muna, hjelt jeg því fram við 2. umr. málsins, að þetta samskólámál væri ekki tímabært, í fyrsta lagi af því, að ekki er útlit fyrir, að það komist til framkvæmda nú í bráð, og í öðru lagi af því, að ekki virðist rjett að vera að taka þetta mál út úr hinu væntanlega ungmennafræðslukerfi í landinu. Þar sem nú má búast við, að frv. gangi eigi að síður fram á þessu þingi, vildum við, sem í minni hl. erum, gera það, sem í okkar valdi stendur, til þess að sporið verði stigið til fulls, eftir því sem unt er, þannig, að ungmennafræðslulöggjöfin verði víðtækari en frv. stjórnarinnar gerir ráð fyrir. Við höfum því komið fram með viðaukatill., sem breytir frv. svo, að það tekur ekki aðeins til samskóla Rvíkur, heldur og til ungmennaskóla utan Rvíkur, og eins sjerskóla hjer í bæ, sem ekki hefir verið tekinn upp í frv. Það kann að virðast líta svo út, að ef frv. tekur þessum breytingum, þá sje það enn fjær því að geta komist brátt til framkvæmda, þar sem hjer verður um stærra fyrirtæki að ræða en í stjfrv. er gert ráð fyrir. Svo er þó í rauninni ekki að öllu leyti, vegna þess að flestir skólarnir, sem nefndir eru í viðbótartill., eru nú þegar komnir á laggirnar og njóta styrks af opinberu fje. En ef skólarnir yrðu teknir upp í frv., þá hefði það þá þýðingu fyrir ríkissjóðinn, að kostnaðurinn við rekstur þeirra mundi eitthvað aukast, frá því, sem nú er. Jeg vil segja það, að úr því verið er að setja löggjöf um þessi efni og stíga nýtt spor í ungmennafræðslu þjóðarinnar, þá sje rjett að taka hjer með þá skóla, sem þegar njóta sæmdar og hlunninda frá ríkinu. Það er rjett, að þeir fyrstu verði fyrstir, að þeir skólar, sem komnir eru á fót eftir langa og erfiða baráttu, verði þeir fyrstu, sem njóti hlunninda þessarar löggjafar. Þetta er rjettlætis- og sanngirnismál. Úr því að setja á löggjöf um samskóla Rvíkur og álitið er, að hennar sje þörf, þó að hún komi ekki þegar til framkvæmda, þá virðist fult eins rjett að gera þessa löggjöf víðtækari, eins og farið er fram á í viðbótartill. Það er vitanlegt, að við, sem höfum komið fram með þessar brtt., höfum ekki haft líkt því eins mikinn tíma til þess að undirbúa þær, eins og þeir, sem undirbúið hafa samskólafrv. Má því vera, að till. mættu betur fara á annan hátt en við höfum orðað þær. Jeg hygg þó, að það komi ekki að sök. Aðalatriðið er, að um leið og sett eru lög um samskóla Rvíkur, þá komi sömu heildarákvæði til að gilda um aðra slíka ungmennaskóla utan Rvíkur. Á þeim grundvelli, að þingið setti allvíðtæka löggjöf fyrir alt landið um þessi mál, eins og verða mundi, ef viðaukatill. okkar yrði samþ., þá gæti jeg fyrir mitt leyti samþ. þetta frv. Hin eina meining, sem mjer virðist, að slíkt frv. sem þetta geti haft, er það, að fá því slegið föstu, hvernig vera skuli fyrirkomulag ungmennafræðslunnar í landinu yfirleitt. En hitt, að það sje svo mjög áríðandi að setja þessa löggjöf til þess eins að hrinda áfram stofnun samskóla í Rvík á þessu ári, á því hefi jeg enga trú. Þar með tel jeg fallna þá ástæðu að taka þessa samskóla út úr hóp annara ungmennaskóla á landinu. Þeir skólar, sem við viljum sjerstakelga taka með, ef þetta frv. verður á annað borð að lögum, eru skólar, sem þegar eru stofnaðir, og einn skóli, sem er í stofnun, Suðurlandsskólinn. Af þessum 5 skólum munu 4 vera ungmennaskólar með svipuðu fyrirkomulagi og ætlast er til að slíkir skólar hafi í framtíðinni. Um Flensborgarskólann er öðru máli að gegna, af því að fyrirkomulag hans er líkara gagnfræðaskóla. Þessir skólar áttu að eiga forgangsrjett á því að ganga inn í skólakerfi það, sem sett yrði í landinu. Ungmennaskóla Suðurlands þótti okkur rjett að taka með, vegna þess að það líður ekki á löngu, að hann verði stofnaður. Jeg geri ráð fyrir því, að fleiri skólar verði teknir upp. En þá þarf þessi upptalning ekki að vera tæmandi, heldur má auka við hana eftir þörfum. Af þessum skólum mun einna hljóðast um skólann á Ísafirði. En eftir þeim upplýsingum, sem hjer hafa verið gefnar, þá mun hann vera mjög myndarlegur, og hefir verið talað um að gera hann að gagnfræðaskóla, enda þótt annar skóli sje nálægt honum, í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Að öðru leyti eru brtt. okkar, sem við höfum flutt um ungmennaskólana, mjög með sama sniði og till. samskólafrv. Þarf jeg því ekki að fara nánar út í það, því að sömu rök liggja að till. okkar og samskólafrv. stjórnarinnar.

Þá kem jeg að 3. kafla frv. Þar viljum við minni hl. bæta samvinnuskólanum í Reykjavík við. Samkvæmt frv. um samskóla, gengur verslunarskóli kaupmanna inn í samskólana, þá þykir okkur sanngjarnt, að samvinnuskólinn, enda þótt honum sje ætlað að standa utan við samsteypuna, njóti samt sömu rjettinda og verslunarskóli kaupmanna, þar sem skólinn hefir sjálfstætt verkefni, þó að námsgreinarnar sjeu að nokkru leyti þær sömu, því vitanlega er markmið samvinnuskólans annað en verslunarskólans, enda hefir mikið verið um það rætt og þarf jeg ekki að fara nánar út í það. Um stofnkostnaðinn geri jeg ráð fyrir að samvinnuskólinn njóti sömu rjettinda og verslunarskólinn á að njóta. samkv. stjfrv., þegar hann sameinast samskólanum.

Jeg veit ekki, hvernig hv. deild muni taka þessum till. okkar, en jeg vænti þess, að við atkvgr. komi skýrt fram, hver sje vilji deildarinnar í þessu máli. Þó að það megi benda á, að þessar viðaukatill. okkar sjeu ekki fullkomnar, þá gefur það í sjálfu sjer ekki tilefni til þess, að frv. verði ekki afgr. Í þeirri mynd, sem við leggjum til. Það er hægurinn hjá að leiðrjetta till., án nokkurrar tafar fyrir málið. Við höfum með brtt. viljað láta það koma skýrt fram, hvað við álítum að sje verkefni vort í ungmennafræðslunni. Við minni hl. viljum ekki, að stigið sje stórt spor í þessu efni, nema því að eins, að um leið sje tekin bindandi ákvörðun um það frá Alþingi, að samskonar mentastofnanir út á meðal þjóðarinnar njóti sömu rjettinda, sem samskólanum eru ætluð. Vjer vitum ekki, hvernig næsta þing verður skipað. Þó að við vitum hug okkar til þessa máls, þá getum vjer ekki vitað, hvað næsta þing gerir í þessu efni. Fyrir utan það, að nýir menn geta komið með nýjar stefnur, þá getur einnig breyttur tími haft áhrif til skoðanaskifta í þessu máli. Slíkt hefir skeð hjer oft áður; t. d. var nýlega rætt mál í þessari hv. deild, sem svo stóð á um. Segi jeg þetta ekki til þess að ámæla þeim, sem um skoðun skifta; þeir geta haft rjettmætar ástæður fyrir því.

Við flm. höfum með brtt. okkar viljað færa út þann grundvöll, sem lagður er með samskólafrv., og höfum við með því viljað sýna vilja okkar á því að útbúa frv. þannig, að það bendi betur en það nú gerir á hið mikla verkefni, sem liggur fyrir þjóðinni í ungmennafræðslunni.