08.04.1927
Neðri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í C-deild Alþingistíðinda. (2829)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Bernharð Stefánsson:

Það er ekki nema fátt eitt, sem jeg þarf að taka fram út af þessu máli, enda hefir hv. þm. Dal. gert svo glögga grein fyrir afstöðu minni hl., að við það þarf jeg engu að bæta.

En það, sem sjerstaklega kom mjer til þess að kveðja mjer hljóðs, voru þau ummæli hæstv. kenslumálaráðh., er hann hefir að minsta kosti tvisvar vikið að í ræðum sínum, að það beri vott um vantraust á núverandi fræðslumálastjóra af hálfu okkar minnihlutamanna, að við hefðum aðra skoðun á þessu máli en hann. Þessu vil jeg harðlega mótmæla sem staðlausu hjali á engum rökum reistu. Þó að við sjeum á annari skoðun um eitt mál, þá er engin ástæða til að ætla, að við munum vantreysta honum sem fræðslumálastjóra. Það er því næsta hjákátlegt að heyra slíkri fjarstæðu haldið fram úr ráðherrastóli. Enda veit hæstv. ráðh., að hjer er alls ekki um vantraust að ræða á fræðslumálastjóra, heldur aðeins um skoðanamun milli okkar og hans um það, hverjar leiðir skuli fara í þessu máli.

Jeg veit ekki hvort hæstv. ráðh. gerir þá kröfu til flokksmanna sinna, að þeir fylgi honum í hverju máli og sjeu altaf á sömu skoðun og hann. Þó held jeg það varla, enda kom það fram í dag, að margir hv. Íhaldsmenn greiddu atkv. á móti hæstv. ráðh. (MG). Hefði þá eins mátt segja, að það beri vott um vantraust á honum sem ráðherra, er hans eigin fylgismenn ganga á móti málum, sem honum er allmikið kappsmál að fá samþ.

Ef marka ætti traust mitt á hv. þm. V.-Ísf. sem fræðslumálastjóra eftir því, hve oft jeg hefi verið á sama máli og hann, þá held jeg líka, að ekki væri hægt að efast um, að jeg beri fylsta traust til hans. Við höfum nú starfað saman í sömu nefndinni um fjögra ára bil og oftast verið sammála, eins og Alþingistíðindin bera með sjer.

Hæstv. ráðh. vildi líta svo á, að við minnihlutamenn viðurkendum, að undirbúningur þessa máls væri ekki slæmur, þar sem við vildum hnýta okkar till. aftan við frv. Við þessu er það að segja, að þessi hv. deild hefir með atkvgr. um málið við 2. umr. sýnt, að hún fylgdi málinu, og við teljum því víst, að málið gangi í gegn, að minsta kosti gegnum þessa deild. Við það getum við ekki ráðið. Og þá þykir okkur betra, að ungmennaskólar út um land fylgi með, ef á annað borð á að setja þessi lög gegnum þingið. Hæstv. ráðh. hafði góð orð um það, að ef frv. gengi í gegn, mundi á næsta þingi verða gerð gangskör að því, að setja lög um aðra unglingaskóla í landinu. Jeg skal ekki efast um góðan vilja hæstv. ráðh. í þessu efni, en jeg verð að segja, að mjer er í raun og veru alveg óskiljanlegt, hvers vegna þetta má ekki fylgjast að nú.

Þá hefir undirbúningsleysi í þeim efnum verið borið við; en jeg fyrir mitt leyti get ekki tekið það til greina, því að jeg hygg helst, að þetta mál, um ungmennafræðsluna yfirleitt, sje í raun og veru öllu betur undirbúið en þetta frv. um samskóla Reykjavíkur. Því að það hefir einmitt áður legið fyrir þinginu frv. um ungmennafræðsluna yfirleitt. Býst jeg við, að það frv. hafi getað gefið tilefni til athugunar um málið, svo að ef að því ráði hefði verið horfið nú, að fylgja því máli fram, hefði ekki verið hægt að segja, að það væri svo laklega undirbúið. Og hvað snertir tillögur okkar í minni hl., þá eru þær bygðar á þessu frv., sem áður hefir komið fram um þetta efni, og þar af leiðandi ekki eins lítið hugsaðar og lítið undirbúnar, eins og haldið hefir verið fram. Hv. frsm. meiri hl. gaf okkur í minni hl. það ráð, að taka okkar till. aftur, vegna þessarar yfirlýsingar hæstv. ráðh. (MG). Jeg býst nú ekki við, að við getum orðið við þessum tilmælum, enda sje jeg ekki neina ástæðu til þess. Ef það er auðvelt og sjálfsagt að gera þetta næsta ár, þá er jeg ekki farin að öðlast skilning á því, hvers vegna ekki má gera það í ár.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl., að hv. frsm. minni hl. hefði játað, að við hefðum talið heppilegast að láta lögin um skipun ungmennafræðslu í landinu bíða þangað til á næsta ári. Þetta er ekki allskostar rjett, og jeg býst við, að hv. frsm. meiri hl. kannist við það, að jeg að minsta kosti bauð fyrir mitt leyti fram samkomulagsgrundvöll í nefndinni, að gerð yrði tilraun til að setja heildarlög um ungmennafræðsluna í landinu. En hitt er rjett, að við vildum láta þetta sjerstaka mál um samskóla Reykjavíkur bíða eftir hinu, þannig, að ráðstafanir í þessu efni fylgdust að, því þetta er svo náskylt efni, hvernig við eigum að skipa ungmennafræðslunni í Reykjavík og út um landið. En samræmið er best trygt með því, að þessum málum sje skipað í einu og af sömu mönnum.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl., að allir væru sammála um, að samvinnuskólinn ætti að eiga opna leið inn í þetta skólasamband. Jeg býst við að það sje rjett, að þetta sje svo í orði kveðnu. En hinu býst jeg einnig við, að það sje langt frá, að allir sjeu sammála um, hvernig það eigi að verða. Jeg hefi fulla ástæðu til að ætla, að mjög margir af þeim, sem fylgja fram frv. um samskóla Reykjavíkur, líti svo á, að samvinnuskólinn eigi þá að hverfa sem sjerstakur aðili í þessu skólasambandi, eigi algerlega að renna saman við verslunarskólann, þannig, að aðeins verði aukakensla í samvinnufræði og þesskonar, en að öðru leyti eigi námið að vera sameiginlegt fyrir þessa tvo skóla. En jeg er ekki viss um það, að þeir, sem að samvinnuskólanum standa sjerstaklega, sem er S. Í. S., telji sínum málum betur borgið með því móti — og það af mjög mörgum ástæðum, sem þýðir ekki að telja hjer. Jeg býst við, að þessir menn muni helst óska þess, að samvinnuskólinn haldi áfram að vera sjálfstæður skóli. Það er að vísu svo, að margt og mikið er sameiginlegt, sem er öllum verslunarmönnum jafnnauðsynlegt að kunna og vita; en á eitt talsvert þýðingarmikið atriði skal jeg benda, sem mælir móti því, að þessir skólar eigi að renna saman í eitt: Nemendur þessara skóla munu vera á talsvert ólíkum aldri og með ólíka undirbúningsmentun. Á verslunarskólann koma aðallega lítið þroskaðir unglingar hjeðan úr Rvík, eða öðrum kaupstöðum. Hitt mun aftur vera regla, að nemendur samvinnuskólans komi aðallega úr sveit, einna helst frá ungmennaskólum, sem þar eru, og eru orðnir talsvert meira þroskaðir menn og eldri en verslunarskólanemendur. Nú býst jeg við, að það sje nokkurnveginn viðurkent af skólamönnum, að það sje ekki heppilegt að kenna í einu lagi mönnum á mjög ólíkum aldri. Svo er það t. d. um gagnfræðadeildina hjer í mentaskólanum, að þar er aldurstakmark að ofan 15 ár, þannig, að eldri nemendur en 15 ára fá ekki aðgang í gagnfræðadeildina. Þetta mun stafa af því, að ekki þykir heppilegt að hafa saman nemendur á mjög ólíkum aldri.

Það er þetta hvorttveggja, sem mælir á móti því, að steypa saman samvinnuskólanum og verslunarskólanum, að undirbúningur undir þessa skóla mun vera talsvert ólíkur og aldur nemenda ólíkur, — og auk þess hitt, að það er náttúrlega töluvert ólíkt starf, sem ætlast er til að þeir menn vinni, sem ganga á samvinnuskólann og ganga síðan í þjónustu samvinnufjelaganna, heldur en hinir, sem síðar ætla að fást við aðra verslun.