17.03.1927
Efri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

5. mál, iðja og iðnaður

Magnús Kristjánsson:

Í sambandi við þær brtt., sem hjer hafa fram komið, dettur mjer í hug að óska ýmissa nánari skýringa, enda þótt jeg hafi ekki mikið við brtt. að athuga.

Um brtt. hæstv. forsrh. á þskj. 153, þá held jeg, að þær 9 fyrstu af þeim sjeu til bóta. En um 10. till. er öðru máli að gegna, að mínu áliti. Og út af henni vil jeg beina þeirri fyrirspum til hæstv. forsrh., hvernig skuli fara að, ef engar byggingarsamþyktir eru gerðar í kauptúnum. Hjer í brtt. stendur — ef jeg má lesa, með leyfi hæstv. forseta —:

„Í byggingarsamþyktum kaupstaða má ákveða, að enginn megi veita húsabyggingum forstöðu, nema hann hafi til þess löggildingu byggingarnefndar“. — Hjer er þó ekki ákveðið, að kaupstaðir eigi endilega að uppfylla þetta skilyrðislaust, svo sem ef engin byggingarsamþykt er til.

Í seinni málsgr. brtt. er gert ráð fyrir því, að ef aðrir taka að sjer framkvæmd verksins, þá skuli þeir, sem það hafa að sjer tekið, „hafa á vinnustaðnum fyrir sína hönd mann, sem fullnægir þessu skilyrði“.

Þetta tvent get jeg ekki samrýmt, og jeg álít, að ef það er tekið upp í byggingarsamþyktir, að engir megi veita verki forstöðu nema þeir, sem hafi til þess löggildingu byggingarnefndar, að þar með sje seinni liðurinn fallinn sjálfkrafa. Jeg óska eftir að fá nánari skýringar á þessu.

Að þessu sleptu finst mjer, að frv. og brtt. fjalli eingöngu um kaupstaði, en ekkert ráð fyrir því gert, hvað gerist utan kaupstaða. Nú er það þó víst, að ýms kauptún hafa vaxið svo á seinni árum, að þau hefðu átt að falla undir svipaðar reglur og þessar. Jeg álít, að eigi að beita þessum strangleika, þá eigi hann að ná jafnt til kaupstaða sem kauptúna.

Þá vil jeg minnast á hitt, að 11. brtt. á þskj. 153 telúr sjálfsagt, að gjöldin sjeu lækkuð fyrir hin ýmsu leyfi, og ekki nái neinni átt að heimta 500 kr. gjald fyrir iðnleyfi. Þessari till. get jeg verið samþykkur, en þó furða jeg mig á því, að hæstv. forsrh. skyldi eigi vilja lækka gjaldið enn meir. Þó verð jeg að segja, að brtt. um gjaldið á þskj. 107 finst mjer gera ráð fyrir hlægilega lágu gjaldi, samanborið við aðrar upphæðir, sem frv. gerir ráð fyrir.

Annars er svo langt á milli þeirra gjalda, sem talin eru á þskj. 107 og 153, að eitthvað má á milli vera. En nú er orðið of seint að koma fram með brtt. Það mætti jafnvel segja, að maður hefði átt að kynna sjer öll trúanleg skjöl og skilríki um þetta mál, áður en maður hefði farið að tala um það. En jeg hefi mjer það til afsökunar, að skjölin komu nú fyrst hjer á fundinn, og jeg verð í þessu sambandi að segja það, að hæstv. forseti (HSteins) hefir stundum sagt, að skjölum væri útbýtt, þótt þau komi ekki fram oft og einatt fyr en á síðustu stundu.

Jeg vil því taka fram, að mjer þætti gott, ef 10. brtt. væri skýrð betur. Sje um misskilning að ræða hjá mjer, þá verð jeg að taka því, en mjer finst þetta ekki svo glögglega til orða tekið, að jeg geti greitt atkvæði með því, og vonast því til að fá skýringar frá hæstv. fjrh., er mjer nægi.