17.03.1927
Efri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

5. mál, iðja og iðnaður

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg skal víkja að brtt. mínum, og þess vil jeg þá geta þegar í upphafi, að þótt þær sjeu seint komnar fram, þá er það vegna tímaleysis. Jeg hafði ekki athugað frv. niður í kjölinn áður en það var borið fram af stjórninni, og af þessu tímaleysi verður það líka að skiljast, að jeg kom ekki með brtt. við 2. umr. Út af þessu vil jeg segja hv. 5. landsk. (JBald), að hjer er þó ekki um neinn brest á samvinnu í stjórn landsins að ræða, og verð jeg að hryggja hv. þm. (JBald) á því.

Háttv. þm. (JBald) hafði dálítið á móti 6. brtt. minni. Jeg vil biðja hann um að lesa frv. og segja mjer svo, hvað stendur í seinni málsgr. 14. gr. Ef fjelag rekur handiðnarfyrirtæki og hefir fjárhagslega ábyrgð á því, þá verður, að mínum skilningi, formaður þessa fyrirtækis að hafa iðnbrjef. En sje hægt að fá það út úr 14. gr. frv., þá vil jeg vísa til 4. gr. þess og bið hv. þm. (JBald) að athuga vel mismun á þeim greinum.

Hv. 4. landsk. (MK) mintist á 10. brtt. mína, sem er um það að gefa bæjarstjórnum vald samkv. ákvæði í byggingarsamþykt til þess að löggilda forstöðumenn bygginga. Jeg verð að svara því, að jeg hygg, að byggingarsamþyktir sjeu nú í hverjum kaupstað, enda eigi svo að vera. Og þá lít jeg svo á, að bæjarstjórnir ráði því sjálfar, hvort þær ákveða, að þessir menn, sem frv. ræðir um, þurfi löggildingu. En þangað til bæjarstjórnir hafa gert samþyktir um þetta, álít jeg, að núgildandi tilhögun megi standa. Þetta hefir hvergi verið gert nema hjer í Reykjavík. Seinni málsgreinin þýðir það, að þegar slíkar ákvarðanir hafa verið teknar í einhverjum stað, þá megi ekki aðrir en þeir, sem viðurkendir eru af bæjarstjórn, taka að sjer slík verk og þar um ræðir, nema því aðeins, að þeir hafi forstöðumann fyrir sjálfu verkinu, sem löggiltur er og getur því veitt verkinu forstöðu. Jeg held, eins og til hagar hjá okkur, að það sje of langt farið og eigi ekki að fela forstöðu ýmsra annara mannvirkja en húsabygginga aðeins handiðnarmönnum, og betra sje að fela hana sjerstökum vönum verkstjórum, þótt ekki sjeu þeir handiðnarmenn.

Jeg get vel tekið undir með háttv. 4. landsk. (MK), að gjöldin fyrir sveinsbrjef og iðnbrjef sjeu sett nokkuð há. Jeg sá þó ekki ástæðu til að bera fram brtt. um þetta, þar sem varaformaður Iðnaðarmannafjelagsins hafði látið í ljós, að hann sæi ekki ástæðu til að hafa þennan taxta lægri. Jeg gæti vel fallist á hóflega lækkun, en niðurfærsla sú, sem hv. 5. landsk. (JBald) fer fram á, þykir mjer of mikil.