10.03.1927
Neðri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í C-deild Alþingistíðinda. (2863)

53. mál, strandferðaskip

Þorleifur Jónsson:

Það eru aðeins örfáar athugasemdir. — Jeg vil fyrst geta þess, út af ummælum háttv. þm. V.-Sk. um styrk til flutningaferða milli Hornafjarðar og Austfjarða, þá hefir alveg verið farið eftir því, sem stóð í nál. samgmn. í fyrra, en þar segir svo: „Nefndin lítur svo á, að styrkurinn komi að bestum notum á þann hátt, að Austur-Skaftfellingar hafi sem frjálsust umráð styrksins“ — og hefir einnig þessi hv. þm. (JK) undirskrifað það. — Hitt getur verið rjett, að almenn óánægja sje út af því, hvað samgöngur á Hornafjörð eru afleitar, og það er ekki af því að styrkurinn sje að neinu leyti misnotaður, heldur af því, að styrkurinn er alt of lágur, og það er þinginu að kenna, að við fáum ekki hærri styrk. Háttv. þm. (JK) heldur, að hægt sje að halda uppi bátaferðum alt sumarið fyrir 8 þús. kr. Mjer þætti gaman að sjá það. Sannleikurinn er sá, að það er ekki hægt að fá bátaferðir yfir alt sumarið, nema styrkurinn sje mikið aukinn. Bátarnir eru ekki fáanlegir, nema fyrir ærið gjald, því að þeir fara flestir á síldveiðar í júlímánuði og koma ekki fyr en í september. Styrkurinn er of lítill, og þess vegna fara Skaftfellingar á mis við samgöngurnar, þeir þurfa að hafa samgöngur alt sumarið og fram á vetur. Jeg ætla ekki að deila um það, hvort hentugra sje að hafa flóabátaferðir eða strandferðaskip. En jeg álít þó, að strandferðaskipið sje heppilegra, ef það er ekki of stórt fyrir Hornafjörð, og ætlunin er sú, að nýja skipið geti farið inn á innri legu í Hornafirði.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að fjölyrða um þetta að sinni.