20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í C-deild Alþingistíðinda. (2867)

53. mál, strandferðaskip

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg get verið hv. frsm. minni hl. þakklátur fyrir þá fyrstu yfirlýsingu, sem hann gaf, því að hann ljet í ljós með talsverðum fjálgleik, að mjer virtist, að það væri æskilegt, að þjóðin gæti látið það eftir sjer að fjölga póstskipum og bæta samgöngur. Jeg átti von á því, að þetta kæmi fram hjá hv. þm. (JÓl), bæði af því að þessi ósk er eðlileg viðurkenning nauðsynjarinnar og vottur hreinskilni. En við lítum á það hvor frá sinni hlið, hvort þjóðin geti þetta, hvort hún sje þess um komin að láta þennan fagra draum rætast og halda uppi almennilegum samgöngum. Um það efast hv. minni hl., en um það efast jeg ekki. Jeg veit það mjög vel, að þegar ráðist er í framkvæmdir, eins og þær, sem nú eru á prjónunum, eins og vegalagningar og símalagningar fyrir samtals 2 milj. í fjárlagafrv. komandi árs, er í raun og veru smávægi eitt að kaupa þetta litla strandferðaskip. Segjum, að það kosti 400 þús. kr. eða litlu meira, en það er þá aldrei annað en nokkur hluti af því, sem lagt er til síma og vega, framkvæmda, sem vitaskuld eru gagnlegar, en sem væri hægt að láta bíða nokkra stund að einhverju leyti, eins og hv. minni hl. vill nú láta þetta skip bíða.

Hv. minni hl. spyr, hvort við höfum ráð á að taka þetta frá öðrum verklegum framkvæmdum; jeg ætla ekkert að fara að þrátta við hann um það, en jeg vil í þess stað leggja, þá spurningu fyrir hann, hvort við höfum ráð á því, að láta hjeruð landsins fara í eyði fyrir einangrun, láta fólkið flýja þær strjálbygðu strendur. — Höfum við fremur efni á því? Það er alveg áreiðanlegt og margreynt, að þar sem strjálbýli er og litlar samgöngur, þar trjenast fólkið upp á því að búa í fásinninu og flýr til verstöðvanna. En þetta á sjer ekki stað, þar sem samgöngur eru góðar.

Sumir líta svo á, og þar á meðal háttv. frsm. minni hl., að þegar búið er að byggja brýr og vegi hvarvetna á landinu, þá sje fyrst kominn tími til þess að hugsa um samgöngurnar á sjó. Jeg hefi nú heyrt þessa firru áður, bæði á síðasta þingi og nú, og henni hefir áður verið svarað. Jeg vil því ekki vera að karpa um slíka hluti í þetta sinn. En háttv. frsm. minni hl. (JÓl) veit vel, að það sem gert er að byggingu brúa og vegalagningum, kemur tiltölulega fám mönnum að liði, fyr en þá eftir óralangan tíma. Viðbárur af þessu tæi eru því aðeins vindhögg. Einmitt fyrir þá sök er strandferðaskipið nýja sjálfsagt og nauðsynlegt, að það getur fullnægt þörf mjög margra manna, flestra landsbúa, þegar í stað. Skip, sem rekið er með alt að 150 þús. kr. tekjuhalla, kemur miklu fleiri mönnum að notum en vegur, sem lagður er fyrir sömu upphæð, og þarf líka árlegt viðhald, vegur, sem verður ef til vill ekki nema einum hrepp að liði.

Háttv. frsm. minni hl. var að átelja það, að jeg vildi láta strandferðaskipið sleikja hverja höfn, hvern vog og vík, þar sem 2 býli væru eða fleiri. Jeg mintist nú ekki á þetta. En við fyrri umr. þessa máls gat jeg þess, að 52 hafnir væru á áætlun þess strandferðaskips, sem nú er notað og sem því væri ætlað að sigla á. Man jeg þar enga höfn með tveim býlum. En sumar af þessum höfnum eru torsóttar og tafsamar fyrir póstskipið, jafnvel stundum ófærar, og þær hafnir ætlumst við flm. til að fái einkanlega viðkomur þessa skips, sem ráðgert er að byggja. Það á, eftir áætlun Nielsens framkvstj., að vera lagað til þess að sigla á vandgæfar hafnir og er mun minna en Esja.

Þá reyndi háttv. frsm. að vefengja skýrslu mína um rekstrarreikning Esju. Hann vildi álíta rekstrarhalla síðasta árs meiri en 207 þús. kr., sagði, að hjer þyrfti að bæta við vöxtum og öðrum kostnaði. En rekstrarreikningurinn sýnir öll gjöld, og vextir sæta sömu meðferð og höfð er um önnur mannvirki, sem ríkið á. En þessar 207 þús. kr. eru ekki nema tæplega hluti þeirrar upphæðar, sem á næsta ári er ætluð til vega, og álíka há og viðhald þeirra eldri vega, en hún kemur þó miklu fleiri mönnum að liði en vegirnir allir til samans.

Jeg vil ekki vera að eltast við þá „statistik“, sem háttv. þm. (JÓl) las upp, um strandsiglingar fyrir og eftir stríð. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að samgöngurnar væru nú betri en áður. Samanburðurinn, sem hann hafði, t. d. á árunum 1910–12 á ekki við. 1910–12 voru strandferðirnar aðeins reknar 6 mánuði á ári hverju, en líka með 2 og 3 skipum, og því tíðari viðkomur og reglubundnari en nú. Hv. þm. óskar ef til vill að taka upp aftur það fyrirkomulag og hverfa til þess frumlega ástands, þegar samgöngurnar voru eingöngu miðaðar við sumarið. Viðkomufjölda á einstökum höfnum má auðvitað finna nú eins mikinn og áður, af því að ferðir strandskipsins taka yfir 9–10 mánuði, í stað 6 mánaða, sem áður var haldið uppi ferðum. En nú eru margar hafnir niður fallnar, sem áður fengu viðkomur, en ýmsar aðrar fá færri viðkomur en áður. Það segir sig sjálft, að eitt skip getur ekki afrekað jafn mikið og 2–3 skip gerðu áður, og þótt nokkrar hafnir fái nú eins margar viðkomur og áður, vegna þess að skipið gengur þriðjungi eða helmingi lengri tíma á árinu, þá getur samanburðurinn eigi orðið rjettur.

Háttv. frsm. minni hl. vildi rengja upplýsingar þær, sem jeg hafði aflað mjer viðvíkjandi rekstri strandferðaskipsins fyrirhugaða, og gaf jafnvel í skyn, að skipstjóri Esju mundi ekki hafa skýrt rjett frá. Jeg vil því taka það fram, að upplýsingarnar, sem jeg áður nefndi, eru fengnar frá útgerðarstjórn skipsins, en ekki nema að litlu leyti frá skipstjóra. En jeg er líka viss um, að skipstjóri hefir skýrt hárrjett frá og eftir bestu vitund. Hann er bæði skilorður maður og skrumlaus.

Þá kom hv. þm. með þennan gamla búhnykkk, sem á að vera fólginn í því, að varpa öllum samgöngum á sjó af ríkissjóði yfir á Eimskipafjelagið.

Samgöngur á sjó eru, eins og allir vita, þungur ómagi á ríkissjóði og hafa jafnan verið. En dettur háttv. frsm. í hug, að Eimskipafjelagið muni vilja taka að sjer slíka byrði? Það er varla hugsanlegt, að fjelagið vildi taka að sjer slíkan vanda og ábyrgð, nema gegn fullkominni tryggingu fyrir skaðlausum rekstri. Eimskipafjelagið er hlutafjelag og á að skila eigendunum arði af því fje, sem lagt hefir verið í það. Aftur er það skýlaus skylda ríkissjóðs og löngu viðurkend, að sjá um samgöngurnar á sjó eða póstflutninginn bæði á sjó og landi. Sú skylda er hvergi annarsstaðar og verður ekki á einstaklinga lögð.

Það var margt hjá háttv. frsm. minni hl., sem mjer fanst eiga lítið erindi inn í umr., og ekki var heldur laust við, að þar væri rjettu máli hallað. Hann talaði um „þann sorglega sannleika“, eins og hann kallaði það, að litlar tekjur væru af strandferðunum á Austfjörðum. En hann forðaðist að nefna tölur, sem hægt væri að taka á, eða tímalengdir, og þess vegna var þetta auðfundin blekking. Út af þessu vil jeg benda á það, að eftir þeirri tilhögun, sem er á strandferðunum, eru allar líkur fyrir því, að mestar verði tekjur skipsins eða minstur tekjuhallinn, borið saman við tímaeyðslu, þar sem hafnir eru þjettastar og hestar. Og það er alveg vafalaust, að Austfirðir og Vestfirðir bjóða þarna best skilyrði. Þar getur skip átt viðkomur á mörgum höfnum sama daginn og ber þar mest úr býtum. Hitt er ljóst, að meðan skipið siglir með óbygðri eða hafnlausri strönd, t. d. frá Vestmannaeyjum austur á Djúpavog, þá getur ekki verið um neinn ávinning að ræða. Jafnljóst er hitt, að þegar skipið þarf að fara um torsóttar leiðir til afskektra hafna, eins og t. d. úr utanverðum Húnaflóa inn á Borðeyri, þá verður slík ferð að jafnaði dýr og gefur víst sjaldan tekjur. Það hlýtur að vera öllum ljóst, að rekstrarhallinn af strandferðunum stafar fremur af siglingum með hafnlausum eyðiströndum en ströndum með mörgum og góðum höfnum. Jeg hefi ferðast með Esju, þegar hún hefir tekið 5 Austfjarðahafnir á einum degi, og það jafnvel milli mála. Og má nærri geta, hvort tekjur skipsins verða ekki meiri á slíkum degi en þegar það siglir daglangt með hafnlausri strönd.

Að öðru leyti get jeg látið röksemdir hv. frsm. minni hl. eins og vind um eyrun þjóta. Margt af þeim var um óskylt efni og fjarstætt, en sumt endurtekningar frá fyrri umr. — Mjer þykir rjett í þessu sambandi að minna á það, hvernig Esja er notuð, og má af því nokkuð sjá, hví rekstrarhalli er svo mikill og erfitt að láta hana fullnægja kröfum um greiðan póstflutning. Skipið er notað til þess að flytja farm í veg fyrir millilandaskipin eða taka við farmi úr þeim, og annast það þannig umhleðslu vörur. En fyrir þessa flutninga fær það hluta af farmgjaldinu frá og til útlanda, og þess vegna miklu minna en nemur strandferðataxta, eins og best má af honum sjá og samanburði við útlandataxtann. Segja má að vísu, að þetta sje rjettmætur greiði við Eimskipafjelagið, en skörin fer upp í bekkinn, er Esja er höfð til að flytja á þennan hátt í veg fyrir útlendu fjelögin og tafin þess vegna frá póstferðum. Nú sem stendur er farmgjaldið fyrir eitt tonn af kornvöru frá Kaupmannahöfn til Íslands 30 kr. Þegar Esja tekur svo við einu tonni og flytur það til annarar hafnar, þar sem millilandaskipið kemur ekki, þá fær hún ¼ hluta gjaldsins, eða kr. 7.50. Jeg held nú, að það sje í flestum tilfellum mögur atvinna að annast slíkan umhleðsluflutning á vandgæfar hafnir fyrir þetta gjald. Skaðinn er tvöfaldur, ef eigi margfaldur af slíkum flutningi, bæði of lágt farmgjald og tafir með aukavinnu dýrri. Einmitt þessi flutningatilhögun bakar útgerðinni tjón framar öllu öðru.

Jeg þykist sannfærður um það, þó jeg geti ekki sýnt það reikningslega, að Esja geti siglt með litlum tekjuhalla, ef til vill langt undir 100 þús. kr. halla á ári, ef hún losnaði við alla tafsama vöruflutninga. En áætlun framkvæmdastjórans um rekstrarhalla minna skipsins, hygg jeg fara nærri lagi. Hann áleit, að hallinn mundi verða 150–160 þús. kr. um árið. Tekjuhalli beggja skipa ætti þá að verða sem næst 200–250 þús. kr. Jeg tel það ekki mikla fórn af hendi ríkissjóðs, þótt hann leggi fram á ári hverju um 250 þús. kr. til þeirra samgöngubóta á sjó, sem fást mundu með rekstri þessara tveggja skipa. Með þeim mundu þó fást sæmilegar póstgöngur. En jafnframt ætti kostnaður af flóabátum að geta minkað eða jafnvel horfið á stöku stað. (JAJ: Eins og hvar?) Hann mundi óefað minka mikið á Austfjörðum og jafnvel t. d. við Eyjafjörð og Breiðafjörð. Það má ekki líta á það eins og smávægilegt atriði að fá tíðar og öruggar ferðir kringum landið, eða svo sem litlu máli skifti, hvort vjer önnumst þær eða útlendingar. Um beinan hagnað af ferðum fyrir ríkissjóð tjáir ekki að hugsa. Aukin þægindi og hagsmunir borgaranna er það, sem vinnast á, en hitt nær engri átt, að heimta tekjuhallalausar póstgöngur. Hvenær hefir mönnum dottið í hug, að vegir, heilsuhæli, sjúkrahús eða skólar borguðu sig? Eru ekki allar þessar stofnanir o. fl. kostaðar vegna hagsmuna borgaranna? Ef ekki er forsvaranlegt að ráðast í þessi skipskaup, þó að það hafi í för með sjer einhverja fórn fyrir ríkissjóð, þá veit jeg ekki, hvaða verklegar framkvæmdir hjer á landi eiga rjett á sjer.

Jeg lofaði áðan að takmarka ræðutíma minn. Jeg hefi eytt aðeins 20 mínútum í stað 1 klukkutíma, sem hv. frsm. minni hl. notaði, og þykist jeg hafa efnt loforð mitt.