22.04.1927
Neðri deild: 57. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í C-deild Alþingistíðinda. (2870)

53. mál, strandferðaskip

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg gat ekki hlustað á nema lítinn hluta af umr., er hjer hafa farið fram um þetta mál. En eftir því sem mjer heyrðist á ræðu hv. frsm. meiri hl. (SvÓ), þá mun það vera aðaltilgangurinn, að hann vill aðskilja vöruflutning annarsvegar og farþega- og póstflutning hinsvegar. Skilst mjer, að hann ætlist til þess, að skipin skifti með sjer verkum þannig, að annað þeirra annist vöruflutningana, en hitt aðallega póst- og farþegaflutningana. En jeg hygg, að þessi skifting sje ekki heppileg. Jeg er þess fullviss, að það borgi sig betur fyrir póst- og farþegaflutningaskip að taka með sjer inn á smáhafnirnar, þó ekki sje nema fáein „colli“, heldur en að heimta það af sjerstöku flutningaskipi, að taka litlar vörur á þessar hafnir. Jeg hefi átt tal við forstjóra Eimskipafjelagsins, hr. Emil Nielsen, um þessa verkaskiftingu, og er það álit hans, að hún verði bæði óheppilegri og kostnaðarsamari en að láta skipin annast hvorttveggja jöfnum höndum. Hv. frsm. (SvÓ) sagði, að smáhafnirnar kringum land nytu lítið skipaferða Eimskipafjelagsins. En ef ferðaáætlun fjelagsins er athuguð, þá sjest, að þetta er ekki á rökum bygt. Jeg hefi litið á áætlun fjelagsins, og sje jeg ekki betur en að t. d. á Austurlandi komi skipin hvert á fætur öðru frá útlöndum og reki hafnirnar eina af annari, og að sjálfsögðu taki þar þær vörur, sem fyrir hendi eru. Það er því auðsætt, að eftir því sem Eimskipafjelagið eignast fleiri skip til millilandaferða, eftir því batna strandferðirnar. Skipin taka farm frá útlöndum á allar hafnir landsins, sem þau geta komist á. Og ef vörurnar eru svo miklar á smáhafnirnar, að það borgi sig að skila þeim þangað, þá gerir fjelagið það. Þetta eru samgöngubætur, sem smáhöfnunum koma vel, því ef skila á vörunum á stórhafnirnar fyrst, eins og hv. frsm. (SvÓ) ætlast til, og flytja þær svo með öðrum skipum á smáhafnirnar, þá hefir það mikinn aukakostnað í för með sjer. Hv. þm. talaði um það, að Esja hefði tapað miklu á því að fara í veg fyrir skip Sameinaða gufuskipafjelagsins og taka af þeim vörur til flutnings á smáhafnirnar. En hjer er ekki nema hálfsögð sagan. Það er alveg rjett, að Esja hefir tapað miklu á öllum ferðum sínum. En fyrir hverja gerir Esja það, að taka þessar vörur ? Hún gerir það ekki fyrir Sameinaða gufuskipafjelagið, heldur fyrir þá menn á smáhöfnunum, sem þurfa að fá þessar vörur sem fyrst. Ef nú á að fá nýtt strandferðaskip, þá verður það að taka að sjer slíkan flutning. Hv. frsm. (SvÓ) sagði, að ef nýtt skip yrði fengið, þá mundi hallinn af báðum skipunum nema um 200–250 þús. kr. á ári. Þetta er ágiskun hv. þm. (SvÓ), enda er mjer ekki grunlaust um, að hann viti betur í þessu efni. Hallinn af Esju er nú 200 þús. kr., en þó að annað skip bætist við, þá heldur hv. þm. (SvÓ) því fram, að hallinn af báðum skipunum til samans verði ekki nema 200–250 þús. kr. En þetta nýja skip hlýtur þó að taka mikið af flutningum frá Esju; það er auðsætt. Jeg hefi talað, eins og jeg gat um áðan, við hr. Nielsen forstjóra Eimskipafjelagsins, og er hann ekki í nokkrum efa um það, að hallinn vex mikið við það að fá annað skip með Esju til strandferðanna. Það hefir verið mikið um það rætt, að strandferðirnar hjá okkur sjeu ekki í góðu lagi. Jeg get játað það, að þær eru ekki í nægilega góðu lagi. En jeg vil benda hv. þm. á það, hve miklu hefir verið eytt til strandferðanna og hvað sjáanlegt er að muni til þeirra fara á næsta ári. Til Esju fór síðastl. ár 200 þús. kr., 100 þús. kr. til bátaferða og 145 þús. til Eimskipafjelags Íslands 1928, eða samtals 445 þús. kr. Ef við berum þetta saman við það, sem varið hefir verið til vegabóta, þá sjest, að þetta er hærra en til allra vegabóta á landinu til samans. Jeg vona, að hv. þdm. geri sjer það ljóst, að ef til byggingar þessa nýja skips kemur, þá verður að draga úr fjárframlagi ríkissjóðs til vegagerða, símalagninga og brúargerða. Menn geta ekki búist við því, að hægt sje stöðugt að auka við hin föstu útgjöld ríkissjóðs og leggja stöðugt á þjóðina nýja skatta til þess að bæta upp hallann. Einhversstaðar verður að nema staðar. Ef samþ. verður að byggja þetta skip, þá verður kostnaðurinn í framtíðinni að koma niður á verklegum framkvæmdum í landinu. En hvað stoðar það, að hafa skip, er sigla með ströndum fram vikulega til þess að flytja vörur og farþega, þegar ókleift er fyrir bændur að koma vörum sínum frá sjer innan úr landinu og til hafna, vegna þess, hve illar samgöngurnar á landi eru.“

Því hefir verið haldið fram, að hægt væri að losna við eitthvað af strandferðabátunum, ef þetta skip kæmi. En það er nú svo, að fyrst og fremst eru bátar þessir ekki margir og auk þess kosta þeir tiltölulega minst. Jeg vil í þessu sambandi minna á það, að það hefir með samþykki þingsins verið tekin upp sú stefna, að koma upp akfærum vegi milli Norður- og Suðurlands hið allra fyrsta. Þetta mundi leiða það af sjer, að margir mundu hætta við að taka á sig krókinn fyrir Vestfirði, þegar þeir gætu komist í bifreið að norðan og til Reykjavíkur á 2 dögum. Meðal annars voru með tilliti til þessa sett lög um það í fyrra að bæta höfnina í Borgarnesi. Af þessum ástæðum sje jeg mjer ekki fært að fylgja frv. nú. Ekki af því að mjer vaxi svo mjög í augum kostnaðurinn í eitt skifti fyrir öll, en rekstrarkostnaðurinn verður aldrei minni en 150–200 þús. kr. á ári. Dreg jeg það af því, hvað það kostaði að leigja aukaskip í fyrrahaust. Þessi árlega byrði á ríkissjóði gerir það að verkum, að jeg get ekki fylgt frv., af því að afleiðingin yrði sú, að kostnaðurinn kæmi niður á verklegum framkvæmdum og samgöngubótum á landi.