22.04.1927
Neðri deild: 57. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í C-deild Alþingistíðinda. (2874)

53. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Jón Ólafsson):

Jeg get verið stuttorður, hvað snertir að svara hv. frsm. meiri hl., því að hans sanngjarni innri maður hefir ekki leyft honum að fara inn á þau atriði, sem fyrir mjer vakti.

Minni hl. finst það vera ósanngjarnt að heimta nýtt skip ofan á allar þær strandferðir, sem við höfum við að búa, en láta svo nær allar samgöngubætur á landi bíða, máske mest vegna þessa fyrirtækis. Hv. 1. þm. S.-M. lagði mikla áherslu á það, að heil hjeruð mættu ekki leggjast í auðn vegna samgönguleysis. Þarna get jeg þá þakkað hv. þm. fyrir góðar undirtektir undir skoðun mína á samgönguleysinu, sem Suðurlandsundirlendið á við að búa.

Hv. frsm. meiri hl. fanst ekki mikið til um það, að kaupa skip, sem kostaði 450 þús. krónur, úr því að hægt sje að taka það fje til láns. En það ber að athuga, að með hverri lántöku, sem ekki ber sig, en gefur stóran tekjuhalla, er verið að binda þjóðinni stórtap á ári hverju. Hv. frsm. er mjer alveg sammála um það, að hann mundi ekki í eigin búskap sínum ráðast í neitt það, sem ekki gæfi af sjer einhvern hagnað, eða a. m. k. yrði ekki tap á. Hv. frsm. segir, að hesturinn hafi verið samgöngutæki bóndans frá landnámstíð og róðrarbáturinn á sjónum. En nú hefir svo ríkulega verið bætt úr samgöngum á sjó, að jeg vorkenni engum sjávarbónda að fara á bát sínum til þess að ná í þau samgöngutæki, sem betri bjóðast, þurfi hann að ferðast eitthvað langt í burtu.

Þótt hv. frsm. slái því fram, að hesturinn sje, hafi verið og eigi að vera samgöngutæki bóndans, þá skýtur því skökku við þá hugsun hans, er hann fylgir því fast fram, að fá flugvjel til þess að flytja póstinn, þetta andlega fóður úr Rvík, glænýtt heim í hlað til bóndans.

Það er vandkvæðum bundið að reka hjer flugvjel, en þó má bæta úr því, þar sem firðir eru, því þar getur flugvjel sest á sjóinn. En hún getur hvergi sest í sveit, þar sem alt er ósljett. Jeg er hissa á því, að hinn vítthugsandi frsm. skuli vera að minnast á hestinn, sem nú er ekki orðinn í samræmi við það, sem menn heimta nú á dögum.

Jeg er sammála hv. frsm. um það, að samgöngur eru sterkasta lyftistöng allra framfara. Það sýnir sig, að þau hjeruð, sem hafa verstar samgöngur, eru verst bygð, verst setin. Það nægir að benda á það, síðan vegir fóru að koma upp um sveitir, þá hafa byggingar batnað þar stórum. Má benda á Borgarfjörð, sem ekki bygðist upp fyrir góðar samgöngur á sjó, heldur fyrir vegina upp eftir hjeraðinu, þegar menn gátu með hægara móti farið að draga að sjer byggingarefni. Hjeruðin umskapast, þegar hægt er að koma við vögnum og bílum og kostnaðurinn við aðdrættina minkar og ekki þarf lengur að flytja alt á hestum.

Þegar krafist er slíkra stórvirkja sem strandferðaskips, þá verður að líta á, hversu hagar til um land alt og hverjir hafa sárustu þörf fyrir umbæturnar. Og það getur líka verið gott að fá sjúkraskýli og spítala út um alt. En hv. þm. verða aðeins að gæta þess, þegar þeir eru að heimta þetta og hitt fyrir sitt kjördæmi, að þær framkvæmdir verði ekki á kostnað annars, sem er enn nauðsynlegra, en það er að reyna að hjálpa mönnum til að verða fjárhagslega sjálfstæðir; þá fyrst er hægt að veita sjer skóla og spítala og aðra hluti, sem minna ríður á. Af öllum tekjum ríkissjóðs árin 1921 til 1925 hefir ekki farið meira til vega og brúa og viðhalds á þeim en 250–295 þús. kr. á ári hverju, eftir því sem jeg hefi sjeð í landsreikningum. Þegar litið er á gjöld þau, sem af landsmönnum hafa verið tekin á þessum árum, sjest að um svo litla upphæð er að ræða til samgangna, að ekki má verða togstreita á milli hjeraðanna um ráðstöfun hennar. Og það er ekki gott að bæta enn við 150 þús. kr. föstum, árlegum útgjöldum fyrir ríkissjóð, því að þessir peningar hljóta annaðhvort að verða fastur tekjuhalli á fjárlögum, eða þeir verða teknir af því litla fje, sem nú fer til brúa og vega og annara verklegra framkvæmda. Þetta hlýtur að verða til þess, að þær verði látnar sitja á hakanum.

Hv. frsm. meiri hl. þóttu hörð þau orð, sem jeg sagði um skipstjórann á Esju, er hann hafði mest af sínum fróðleik úr, sem sagt, að hann bæri ekki skyn á rekstur skipa. Það er alt annað að vera góður skipstjóri en að vera góður útgerðarstjóri. Það þótti mjer líka mjög undarlegt, að heyra talað um, að búast mætti við minkandi tekjuhalla af Esju, því að viðhaldskostnaður skipsins hlýtur að aukast með ári hverju. Það ætti að vera óhætt að tvöfalda hann eftir 4 ár, þrefalda hann eftir 8 ár, o. s. frv. Nú þykir mjer einnig, að hv. frsm. og flm. (SvÓ) beri fram alleinkennilega brtt. við frv. sitt, er hann gerir ráð fyrir að leyfa að kaupa gamalt skip. Það er eflaust rjett, að fá má gömul skip fyrir mjög lágt verð, en þeim er ekki heldur ætlandi góð ending. Kaup á gömlum skipum hafa líka sjaldnast borgað sig. T. d. er Lagarfoss keyptur gamall, og eru það eflaust hin verstu skipakaup, sem Eimskipafjelagið hefir gert. í stöðugar viðgerðir á honum er nú komið meira en sem nemur andvirði nýs skips af sömu stærð. Um kaup á nýbygðu skipi getur varla verið að tala ódýrara en sem nemur byggingarkostnaði þess, nema um gallaðan kugg sje að ræða.

Jeg hefi gert nokkurt yfirlit yfir það, hvað strandferðirnar komi til með að kosta ríkissjóð árið 1928. Ef „Nonni“ er tekinn til fyrirmyndar, sem síst er of óvarlegt, má gera ráð fyrir 10 þús. kr. tekjuhalla á mánuði af hinu nýja skipi. Gert er ráð fyrir, að það komi til landsins og taki til starfa 1. maí; ætti því rekstrarhallinn að verða 80 þús. kr. árið 1928. Óhætt mun að gera ráð fyrir, að skipið kosti 500 þús. kr., og er hæfilegt að reikna 6% vexti af þeirri upphæð, og eftir skattalögunum ætti að reikna önnur 6% í fyrningu, og er það síst of hátt. Þá er komin ærin upphæð, 140–150 þús. kr. Eftir því sem Esja tapaði á síðasta ári — reiknað á sama hátt, svo sem sjálfsagt er — má búast við 300 þús. kr. tekjuhalla á henni árið 1928. Á fjárlögum þeim, sem samþ. hafa verið í þessari deild, er 1928 gert ráð fyrir 145 þús. kr. útgjöldum til Eimskipafjelags Íslands, fyrir samgöngubætur, og kemur mjer ekki til hugar að sjá eftir því fje, og það býst jeg við að enginn geri. — Þá eru flóabátarnir, og er á fjárl. ætlað til þeirra 109 þús. kr.

Samtals fer þannig til strandferða á 8. hundrað þúsund kr. árið 1928, ef þetta frv. verður að lögum. Jeg álít það ofvaxið þjóðinni að greiða svo mikið til þessara hluta, þar sem alt þetta fje er beinn eyðslueyrir. Er þar öðru máli að gegna um það fje, er fer í smíði brúa og vega. Þau mannvirki eru altaf verðmæt þjóðareign langan tíma, og þarf ekki að kosta til þeirra nema viðhaldi. En svo sem jeg sagði, er það, sem fer í samgöngur á sjó, beinn árshalli, situr ekki reykur eftir af því, þegar árið er liðið. Eins og efnum þjóðarinnar er nú komið, held jeg að hún hafi ekki efni á að bæta þessum árlegu útgjöldum á sig, a. m. k. ekki fyr en lokið er ýmsum þeim framkvæmdum, sem ríkissjóður stendur nú fyrir. En þau stórvirki, sem nú eru unnin hjer á landi, eru svo mikil, að svo gamlir menn sem jeg og hv. frsm. meiri hl. getum ekki annað gert en glápa á stórum augum.

Jeg er þeirrar skoðunar, að Eimskipafjelag Íslands hafi verið okkur hið gagnlegasta fyrirtæki. Hv. frsm. meiri hl. talaði um það sem gróðafjelag, en það held jeg að ekki sje rjettnefni. Fjelagið er fyrst og fremst rekið með hag þjóðarinnar fyrir augum, og það hefir jafnan sýnt sig, að það kappkostar að gera svo mikið gagn sem því er unt. Síðan skip þess fengu loftskeyti, má finna dæmi til, að þau hafa brugðið sjer nokkuð úr leið til að gera mönnum greiða, enda þótt ekki væri mikið í aðra hönd. Alþingi hefir líka viljað sjá þetta við fjelagið og veitt því allríflegan styrk. Því fje álít jeg að hafi verið vel varið. Ef þetta fjelag hegðaði sjer eins og hin erlendu gufuskipafjelög, sem hingað sigla, færi aðeins á þær hafnir, er best borgaði sig. Þá er áreiðanlegt, að rekstur þess gæfi meiri gróða.

Þegar hv. þdm. líta heim í kjördæmi sín og sjá, að þeir hafa ekki enn fengið nema lítið af vegum, og að enn eru óbrúuð mannskaðavötn, eins og t. d. Stóra-Laxá í Árnessýslu, Þverá og Markarfljót, þá mega þeir sjá, að hjer á að fara að bæta það, sem er í sæmilegu lagi, þótt það mætti e. t. v. vera betra, áður en hinar allra nauðsynlegustu samgöngubætur eru gerðar á landi. En af því að þm. hafa verið gætnir í fjármálum, hafa þeir ekki viljað ráðast í önnur eins stórvirki og fyrirhleðslu Markarfljóts, brúun Þverár o. s. frv.

Það er rjett, sem hv. þm. A.-Sk. sagði, að þetta fyrirtæki verður ekki kallað ónauðsynlegt. En það er langur vegur á milli þess, að vera ónauðsynlegt og að vera bráðnauðsynlegt. Jeg álít það bráðnauðsynlegt að veita meira fje en gert er til vegagerða í góðum hjeruðum. Sami háttv. þm. sagði eitthvað í þá átt, að okkur mætti ekki ofbjóða alt, þegar við hefðum samþykt að leggja 2 miljónir kr. í járnbraut austur yfir fjall. Eins og hæstv. atvrh. sagði, þurfum við ekki að gefa með þessu láni, megum þvert á móti vænta þess, að fá af því góða vexti. Eins og allar samgöngubætur á þetta líka að hjálpa hjeraðsbúum til að verða efnaðri og betri borgarar. Og með byggingu járnbrautar má altaf vænta þess, að af henni skapist mikill þjóðarauður í þessu hjeraði.

Jeg heyri, að sumum hv. þdm. þykir það koma úr hörðustu átt, að jeg er á móti strandferðaskipi, þar sem jeg er Reykvíkingur og ætti þess vegna að vera hrifinn af því, að fá hingað kálfana, sem á að senda með þessu nýja skipi. En mjer finst Reykjavík hafa nógar samgöngur við önnur hjeruð landsins. Núna eru flesta mánuði tvær hringferðir kring um landið, og jeg hefi samt ekki orðið var við kálfastrauminn hingað, svo að jeg efast um, að þörf sje á fleiri skipum hans vegna. — Það er alveg rjett hjá hv. þm. A.-Sk., að Hornafjörður hefir ekki verið svo vel settur um samgöngur sem hann ætti skilið, svo frjótt hjerað. En eins og mjer virtist koma fram hjá hv. frsm. meiri hl., er ekki gott að bæta úr þessu öðruvísi en með því að byggja sjerstakt skip til Hornafjarðarferða. En það yrði sennilega nokkuð dýrt. Það virðist svo sem sumir ætlist til, að þetta nýja strandferðaskip eigi að sleikja upp hverja vík og hvern vog, þar sem einhvern böggul getur verið að fá. Það get jeg ekki fallist á, enda er það álit okkar í minni hl., að til þess eigi að nota flóabáta, sem nú njóta allmikils styrks og koma að góðu gagni. Þó ,ætti eflaust koma þeim betur fyrir. Það er álit minni hl. að stór gufuskip sjeu of dýr til þess að eiga í svona snatti, og það verði smærri bátar að gera. — Hv. þm. A.-Sk. getur ómögulega ætlast til þess, að fá uppfyltar allar þarfir kjördæmis síns. Slíkt er ekki með nokkurri sanngirni hægt að heimta, meðan óhjákvæmilegt er að neita um fje til nauðsynlegra vegarspotta, eingöngu sakir þess, að árleg, föst útgjöld ríkissjóðs eru orðin of há.

Fólksstraumurinn til kaupstaðanna er eitt af mestu meinum þessarar þjóðar. En af hverju flytjast menn úr sveitunum? Jeg held, að það sje að mjög miklu leyti sakir þess, hve húsakynni í sveitum eru slæm, en það er aftur á móti því að kenna, hve erfitt er að flytja byggingarefni um landið. Það er eitt af því, sem nú ríður mest á að sjá um, að þetta land verði húsað svo, að nokkurnveginn samsvari kröfum tímans.

Hv. þm. A.-Sk. kvað árið 1912 hafa verið sjerstakt gullaldarár um skipaferðir til Hornafjarðar, því að þá hefðu verið þar 16 skipakomur. Það má vera, að þetta sje rjett. En jeg hafði tekið til athugunar tvö árin næstu á eftir og fann ekki nema 5 viðkomur í Hornafirði hvort þeirra. Verður ekki borið á móti því, að framfarir hafa orðið síðan, því að nú eru þar þó 10 viðkomur á ári. Þegar litið er á, hvað Esja hefir fengið í flutningsgjöld á þessu svæði, virðist svo sem ekki hafi verið nein ósköp að flytja á þessum fjörðum. En það má vel vera, að það hafi verið mjög áríðandi flutningur og að ferðirnar hafi því komið fjarðarbúum að miklu liði. Það virðist svo sem hv. frsm. meiri hl. þætti mest um farþegaflutninginn vert, en það er ekki að marka, þó að jeg sje á annari skoðun en hann í því efni. Mjer þykir sem sje nóg um flakk landsmanna, og lít svo á, að það muni eiga sinn þátt í aðstreyminu að bæjunum og flutningi manna þangað. — Jeg geri ráð fyrir, að afstaða manna sje þegar ákveðin hjer í hv. deild, en mjer finst þó ekki af veita að skýra málið fyrir sumum hv. þdm., og mjer fanst ekki úr vegi að sýna fram á, að þetta, sem hjer er um að ræða, ef gert væri, væri ef til vill gert á kostnað annara manna, sem miklu meiri þörf væri á að hjálpa til lífsins.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta að svo komnu, en mun svara fyrir mig, ef á þarf að halda, en álít málið nú orðið svo mikið rætt, að ekki þurfi miklu við það að bæta.