23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í C-deild Alþingistíðinda. (2876)

53. mál, strandferðaskip

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg hafði búist við, að einhver annar háttv. þdm. vildi fá orðið á undan mjer. — Jeg hefi mjög fáu að svara af því er fram hefir komið hingað til í umr., og hefi þegar tekið fram það, sem mjer þykir þurfa að svo stöddu, og get því farið fljótt yfir sögu.

Jeg ætla fyrst að nota tækifærið til að minnast á brtt. á þskj. 401. Þær hefi jeg borið fram vegna þess, að mjer þykir líklegt, eftir því sem jeg hefi komist næst, að einmitt nú megi takast að fá skip keypt fyrir tiltölulega gott verð. Kunnugir menn hafa sagt mjer, að skip af svipaðri stærð og hjer um ræðir, nýleg og tiltölulega hraðskreið, megi nú fá í Englandi og Noregi fyrir 200–250 þús. kr. Ef horfið yrði að því ráði að kaupa slíkt skip, mundi að vísu verða að gera á því einhverjar breytingar, vegna farþegarúms, og setja í það kæliútbúnað. Samt hygg jeg geti farið svo, að slík kaup reyndust hagfeldari en skipsbygging. Brtt. á þskj. 401 lúta að því, að gera þessa lausn málsins mögulega, ef ríkisstjórnin áliti eða yrði þess vísari, að hægt væri að komast að góðum kjörum á þennan hátt. Að öðru leyti ætla jeg ekki að fara fleiri orðum um brtt.; þær skýra sig sjálfar.

Það væri ef til vill ástæða til að fara frekar út í ummæli hæstv. ráðh. (MG) um þetta mál og annara, er móti frv. mæltu í gær. En jeg álít ekki nauðsynlegt að gera mikið að því. Mótbárur þeirra voru í rauninni þær sömu og altaf eru látnar við klingja, að ríkið sje þess ekki megnugt, að ráðast í kaup og rekstur skipsins. En því er áður svarað. Það var þó eitt í ræðu hæstv. ráðh. (MG), sem mjer finst ástæða til að minnast á. Hann vildi sem sje líta svo á, að jeg hefði lýst einskonar vantrausti á Landsbankanum með því að benda á, að ráðherra og fylgismenn hans hefðu ekki hikað við að samþykkja ríkisábyrgð fyrir stóru láni bankanum til handa í fjárhættufyrirtæki, en teldu frágangssök að taka smálán vegna skipskaupanna. Væri sem jeg vantreysti bankanum um ráðstöfun lánsins. Mjer tínst harla langsótt tilraunin að skýra álit mitt og ummæli á þennan veg. Lá nær að taka þau sem vantraust á hæstv. ríkisstjórn um að segja fyrir um meðferð fjárins og ráðstöfun, svo að örugg vissa væri fyrir því, að ekki færi það í botnlausu hítina, sem bankinn er látinn halda við. Að gefnu tilefni læt jeg þess því getið, að fjarri fer því, að jeg hafi nokkurt vantraust á bankanum eða bankastjórunum sjálfum. En þar fyrir er jeg ekki fyllilega viss um, að fjenu verði öllu vel varið. Því að svo er til ætlast í landsbankafrv. því, sem nú er í Ed., að bankanum verði lögð á herðar því nær ótakmörkuð endurkaupaskyld á víxlum annars banka. Og þá liggur í hlutarins eðli, að hann hefir ekki óbundnar hendur um meðferð lánsfjárins og verður að láta ef til vill mikið af því fyrir endurkeypta víxla og vafasama. Þetta þótti mjer rjett að benda á, úr því að hæstv. ráðh. (MG) ljet sjer sama að snúa út úr orðum mínum.

Annað atriði var það í ræðu hæstv. ráðh., sem jeg vildi minnast á, sem sje sú fullyrðing hans, að ekki mundi vera auðveldara að fá skip nú með vægu verði heldur en fyrir ári. Þessi fullyrðing hlýtur að stafa af ókunnugleika á þessum efnum. Mjer hafa tjáð menn, kunnugir siglingum og skipakaupum, og fullyrt, að miklum mun auðveldara væri að fá keypt skip nú en undanfarin ár. Úr þessu verður vitanlega ekki skorið, nema með eftirgrenslun, og engu er týnt, þótt hún verði gerð.

Háttv. 3. þm. Reykv. las langan lestur. En jeg skrifaði hjá mjer aðeins fátt eitt af því, er hann sagði, því að mjer fanst meginið af því langt utan við efnið.

Hann mintist á samgöngurnar áður fyr á róðrarbátum með ströndum fram, eins og jeg hefði hælt þeim. Stundum var hann að fitla við lestaferðir eða var á hestbaki uppi um sveitir. Jeg minnist ekki að hafa neitt á slíkar samgöngur minst. — Hv. þm. ljest stundum vera á gandreið um loftið í flugvjel eða sjá alt frá einhverri andlegri sjónarhæð, og yfirleitt fór hann svo vítt og breitt, að jeg gafst upp við að fylgja honum eftir og hlusta á hann, enda var flest hjá honum eins og upp úr svefni sagt. Það litla, sem málið snerti í ræðu hans, var margtekið fram áður, og hefi jeg svarað því öllu áður.

Hjer er eins ástatt og í gær, að háttv. þm. Barð. er ekki viðstaddur. Annars ætlaði jeg að víkja að honum fáeinum orðum. En með því að hann er ekki við, mun jeg sleppa því í bili. Hinsvegar geri jeg ráð fyrir því, að háttv. þm. Barð. muni búinn að kynna sjer líkurnar fyrir því, hvort frv. geti fengið afgreiðslu á þessu þingi eða ekki. Hann ljet á sjer skilja, að ákveðið mundi að stemma stigu fyrir framgangi þess að sinni. Það má vel vera. En mjer finst þá rjett, að þeir, er granda vilja þessu máli, sýni karlmensku sína á því að fella það nú þegar. — Úr því að háttv. þm. (HK) er nú kominn í deildina, ætla jeg lítillega að drepa á ummæli hans í gær um kosningabeituna. Mjer fanst á háttv. þm., að hann væri með sjálfum sjer ekki allskostar viss um, að sjer væri óhætt að standa öndverður frv. Það var eins og hann væri hálfpartinn hræddur um, að það mundi á sjer bitna síðar. Því er einmitt svo varið, að jafnvel Barðstrendingar hafa ágæt skilyrði til að njóta góðs af þeirri samgangnaaukningu, sem nýtt skip mundi veita. (HK: Það veit jeg best um!). Jeg leit svo á, að það væri hreystiyrði hv. þm., að sparnaðinn styddi hann fyrst og fremst, og vildi hann með því hughreysta sjálfan sig, þótt samviskan segði honum, að þetta væri í óþökk kjördæmis hans. — En um „kosningabeituna“ get jeg látið háttv. þm. Barð. vita, að í mínu kjördæmi getur hún ekki notast eða verður notuð, því að það er svo sett, vegna legu og hafnanna góðu og mörgu, að það mun njóta sæmilegra samgangna á sjó, miðað við strandferðir yfirleitt. (HK: Það er alveg nýtt í þessu máli, að heyra af munni hv. þm., að samgöngur sjeu góðar í kjördæmi hans!). Jeg vænti einskis þakklætis heima í mínu kjördæmi fyrir fylgi við þetta mál, en þykist jafnframt viss um, að það baki mjer ekki vantraust, þótt meira sje það í þágu annara kjördæma. En af því að jeg þykist vita, að skamt muni þar til yfir lúki og ekkert muni græðast á lengri umræðum, mun jeg nú láta staðar numið. Jeg vænti þess, að hv. þm. Barð. muni gera tilraun til að rjettlæta framkomu sína í málinu, og mun jeg hlýða á hann með ánægju og gera mínar athugasemdir á eftir.