23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í C-deild Alþingistíðinda. (2879)

53. mál, strandferðaskip

Jakob Möller:

Um langan aldur, meðan siglingar hjer við land voru allar í höndum útlendinga, var jafnan talið nauðsynlegt að hafa tvö strandferðaskip í hringferðum um landið. Það er þá óhugsandi, að menn sætti sig við það til lengdar, eftir að landsmenn sjálfir hafa tekið að sjer þessar samgöngur, að hafa þær ljelegri. Því er það fyrir mjer aðeins tímaspursmál, hvenær við fáum okkur annað strandferðaskip. — Menn tala um stórfeldan kostnaðarauka af þessu, en athuga það ekki, að Eimskipafjelag Íslands hefir verið styrkt stórkostlega til strandferða á síðari árum. En ef annað strandferðaskip kæmi, fjelli þessi styrkur að sjálfsögðu niður eða minkaði til muna. Það var alveg eins, meðan „Sameinaða“ hafði styrk úr ríkissjóði. Hann var eingöngu miðaður við strandferðir þess. Því finst mjer kostnaðarhliðin hljóta að leysast þannig, að eftir því sem ríkið eykur sínar eigin strandferðir, verði styrkur til Eimskipafjelagsins að fara minkandi.

En mjer virðist málið alt reist á skökkum grundvelli eins og nú er. Þegar Eimskipafjelag Íslands var stofnað, var gert ráð fyrir því, að það tæki við strandferðunum og hefði til þeirra tvö skip. Var ætlast til, að ríkissjóður legði fram hlutafje, sem svaraði kaupverði þeirra. Af þessu hefir þó ekki orðið enn, en mjer finst eiga að róa að því öllum árum, að Eimskipafjelagið taki strandferðirnar sem fyrst að öllu leyti í sínar hendur. Þótt nokkur tregða hafi verið á undanfarið, að fá þessu framgengt, ætti það þó fljótlega að fást, ef Alþingi hefir eindreginn vilja til þess. Eftir því sambandi, sem að undanförnu hefir verið milli Eimskipafjel. og ríkissjóðs um strandferðirnar og reynslunni af því, liggur mjög nærri að ætla, að það sje ekki hagkvæmt fyrir ríkissjóð. Hinsvegar ætti það tvímælalaust að vera fjelaginu hagur, að eiga sjálft strandferðaskipin og haga ferðum hinna stærri skipa sinna eftir því. Mætti spara þau mikið, með því að láta strandferðaskipin flytja vörur til smáhafnanna og safna þar flutningi, en láta stærri skipin sigla aðeins til þeirra hafna, sem meira er um að vera. Af þessu leiðir, að jeg get ekki óskorað verið með þessu frv., því að það verður til að festa strandferðirnar enn meir í höndum ríkissjóðs, ef það nær fram að ganga. Hinsvegar vil jeg undirstrika það, að tvö skip eigi að vera í strandferðum við landið, og með því að telja má fullvíst, að málið verði eigi afgreitt á þessu þingi hvort sem er, auk þess sem aðeins er um heimild fyrir ríkisstjórnina að ræða, geri jeg ráð fyrir að greiða frv. atkv. frá þessari hv. deild.