23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í C-deild Alþingistíðinda. (2886)

53. mál, strandferðaskip

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg verð að láta í ljós mjög mikla undrun yfir því, hvað það er sótt af miklu kappi að koma þessu máli fyrir kattarnef. Það er lagst á móti því með óvenjumiklum þunga af hv. minni hl. samgmn. og hæstv. atvrh., og þegar hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) hefir talað það, sem hann hefir heimild til að tala, þá er borin fram þessi rökstudda dagskrá, til þess að koma málinu fyrir.

Jeg ætla ekki að fara út í það, hver nauðsyn sje til að eignast slíkt skip. Hv. frsm. meiri hl. hefir skýrt það mál vel. En jeg vil koma að því atriði, hversu vel fer á því, að hæstv. stjórn og hv. frsm. minni hl. hafa lagst á móti því, aðallega frá fjárhagslegu sjónarmiði. Er þess þá að minnast í fyrsta lagi, að hinu nýja strandferðaskipi er ætlað það fyrst og fremst að ljetta fyrir framleiðendunum í hinum dreifðu bygðum, því að það er kunnugt, að ófullkomnar samgöngur eru mjög til hindrunar atvinnurekstrinum. En slíks aukins stuðnings þurfa atvinnuvegirnir alveg sjerstaklega nú, því að einmitt fjármálastefna núverandi stjórnar og stjórnarflokks, gengishækkunin hefir komið þeim á knje.

Þá er hitt atriðið: Ef gert er yfirlit yfir fjármálastjórn núverandi stjórnar, þá sjest það, að fjárlagafrv., sem hún ber fram, hafa að meðaltali milj. kr. hærri útgjöld en frv. næstu ár áður. Og gjöldin, sem lögð hafa verið á landsfólkið í tíð núverandi stjórnar, eru að meðaltali 1 milj. kr. hærri á ári. Jeg verð að segja, að út frá þessu er það hart að heyra stjórn og stjórnarflokk leggjast gegn þessu þýðingarmikla máli af fjárhagsástæðum. Öðrum fórst!