23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í C-deild Alþingistíðinda. (2887)

53. mál, strandferðaskip

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. Str. sagði, að mótstaðan gegn þessu frv. væri aðallega af fjárhagsástæðum. En þetta er ekki alveg rjett haft eftir. Það, sem jeg sagði, var það, að það væri að sönnu talsvert tilfinnanlegt að leggja fram kaupverð skipsins, en það, sem verst væri, væri það, að binda sjer þann bagga, að verða að greiða frá 200–250 þús. kr. í rekstrarhalla af skipinu á ári, og þá upphæð yrðum við að taka af þeim framkvæmdum, sem áformað er að gera fyrir sveitir landsins, þ. e. a. s. með því að minka vegabætur, brúargerðir og símalagningar. Þetta hefi jeg sagt svo oft, að hv. þm. (TrÞ) ætti að hafa heyrt það og skilið. En hann segir altaf, að ástæðurnar sjeu aðrar en þær eru.

Hv. þm. segir, að skipið eigi að vera til þess að hjálpa framleiðslunni til sveita. Já, jeg hefði haldið, að það hjálpaði bændum mikið til þess að vinna að jarðabótum og framleiðslu á heimilum sínum, þó að þetta skip væri á sveimi meðfram ströndum landsins. En vegirnir svo, að þeir geta ekki flutt afurðir sínar til kauptúnanna og frá þeim; það yrði víst eitthvert gagn að því fyrir þá, þó að skipið kæmi einu sinni í viku á höfnina, þar sem þeir versla! — Ástæðan til þess, að barist er á móti þessu frv. er sú, að strandferðirnar eru komnar lengra áleiðis en vegagerðir og aðrar samgöngur til sveita.

Þá fór hv. þm. að tala um það, að tekjuáætlun og álagning væri miklu hærri hjá þessari stjórn en verið hefði hjá fyrverandi stjórn. Þetta er eflaust rjett. En hvenær hefir líka verið framkvæmt eins mikið eins og síðastliðið ár? Heldur hv. þm. Str., að það þurfi ekki fje til að leysa slíkar framkvæmdir af hendi, og heldur hann ekki, að það þurfi skatta til þess að geta borgað margar miljónir króna af skuldum á ári. Það hefir eins og kunnugt er, verið gert svo margfalt meira að verklegum framkvæmdum en áður, svo að þó að hv. þm. hafi getað uppgötvað þetta, þá er það enginn galdur, því að þetta vita allir. En það er hægt að benda á, í hvað peningarnir hafa farið. Þeir hafa farið í verklegar framkvæmdir og til greiðslu skulda.