29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í C-deild Alþingistíðinda. (2896)

53. mál, strandferðaskip

Jón Auðunn Jónsson:

Það er óþarfi að kalda umr. áfram mikið lengur. Það mun vera ákveðið, hvernig um þetta frv. fer. Jeg ætla aðeins með nokkrum orðum að sýna fram á, að rök hv. 1. þm. S.-M. eru ekki mikils virði. Hann reyndi ekki á nokkurn hátt að hnekkja mínum tölum, enda er það erfitt, því að ef hv. þm. leitaði til þeirra, sem kunnugastir eru, eins og framkvæmdastjóra Eimskipafjelagsins, mundi hann fá nákvæmlega sömu tölur. Hv. þm. segist í einu tilfelli hafa borið sig saman við framkvæmdastjórann, nefnilega um byggingarkostnaðinn. En í tillögum hans er gert ráð fyrir, að skipið hafi miklu minna farþegarými og farþegarúm á þiljum uppi, sem er margfalt dýrara en undir þiljum — og einmitt á þessu byggist það, að ályktanir háttv. þm. eru rangar. Framkvæmdastjórinn segir líka, að skip með 8 mílna hraða muni gefa í tekjuhalla 160 þús. kr. En skip með miklu meiri ganghraða, sem ekki geri neitt annað en það, sem ódýra skipið gerir, mundi verða stórum mun dýrara í rekstri. Það munar ekki litlu, hvort skipið brúkar 6 tonn eða 9–10 tonn á sólarhring af kolum.

Hv. þm. var með getsakir um það, að jeg væri hræddur við, að dregið yrði úr styrk til Djúpbátsins. Jeg er ekkert hræddur um það, enda dettur engum í hug að það verði, þar sem báturinn annast póstflutninga, sem fyrir stríð var borgað fyrir 10 þús. kr., og nú hefir þessi bátur 17 þús. kr. styrk; ganga þá einar 5 þús. kr. til Norður-Ísafjarðarsýslu til að fullnægja samgöngum á sjó og landi. Það yrði hjer um bil ein króna á mann. En það þykja ljelegar samgöngur í Hornafirði, þar sem greidd eru til hins sama úr ríkissjóði 8 kr. á mann.

Hv. þm. fullyrðir, að afgreiðslugjöldin nemi 5%. Jeg hefi ekki spurt um það annarsstaðar en á Vesturlandi, og þar eru þau 3%. Auk þess vildi hann staðhæfa, að borguð væru afgreiðslumönnum föst árgjöld. Jeg þekki það ekki, enda vildi hv. þm. ekki benda á dæmi. Þá talaði hv. þm. um bryggjugjöldin, sem gætu horfið. En hvar eru þau greidd? Meira en ¾ hlutar þeirra eru greidd til Reykjavíkurhafnar. Er það ætlum hv. þm., að Esja leggist hjer á ytri höfnina og liggi þar á milli ferða?

Jeg nenni ekki að hrekja á ný þær lítilfjörlegu mótbárur, sem fram hafa komið. Það er öllum sýnilegt, hvað þær eru veigalitlar og vanhugsaðar, og sumar þeirra hreint og beint upphugsaðar af hv. 1. þm. S.-M., til þess eins að afsaka vanþekkingu og þar af leiðandi frumhlaup flm. í málinu. Hann segir, að Esja muni geta farið 3 ferðir á mánuði í kringum land. Það er kanske hægt. En hvar eru þá notin? Hvar kemur hún við? Og hafa þær hafnir, sem hún kemur þá á, þörf fyrir viðkomurnar? Nei. Hún kæmi þá aðeins á stærstu hafnirnar, sem enga, eða litla, þörf hafa fyrir viðkomurnar, og sannreynt er, að hraðferðirnar valda mestum rekstrarhalla.

Að fargjöld hafa lækkað, er eðlileg afleiðing af því, að önnur skip, skip Sameinaðafjelagsins, hafa tekið upp beinar ferðir til fólksflutninga. Jeg verð algerlega að mótmæla því, að Eimskipafjelagið hagi ferðum sínum eftir því, sem hagkvæmast er fyrir hluthafana.

Það hagar ferðum sínum eftir því, sem það telur öllum landsbúum hentugast. Eimskipafjelagið hugsar ekki fyrst og fremst um hluthafana; það sýna reikningar fjelagsins og öll afkoma þess, og það hefir ekki gert það og á ekki að gera það.