29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í C-deild Alþingistíðinda. (2897)

53. mál, strandferðaskip

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Hv. þm. N.-Ísf. kvartaði undan því, að jeg tæki ekki nægilegt tillit til talna þeirra, sem hann las upp. Jeg verð að segja honum það hreinskilnislega, að jeg álít flestar þeirra svo fráleitar til sönnunar málstað hans, að jeg vildi ekki tefja tíma þingsins með því að eyða orðum að þeim. En af því að þessi hv. þm. hjelt því fram, að áætlunin um kostnað við byggingu þessa strandferðaskips væri of lág hjá okkur flm., þá vil jeg minna á það, að brjefið frá Emil Nielsen, dags. 15. mars 1926, var skrifað eftir að frv. sama efnis sem þetta frv., sem nú liggur hjer fyrir, var komið hjer fram á síðasta þingi. Þá lá fyrir honum alt hið sama og nú liggur hjer fyrir. Það skip, sem þá var um að ræða, átti einmitt að hafa sama vökuhraða og samskonar farþegarúm og skip það, sem hjer ræðir um. Hjer er því algerlega bygt á áætlunum framkvæmdastjórans. Mig varðar ekkert um, hvað síðar kann að hafa komið upp í huga hans. En jeg hygg, að honum muni ekki hafa snúist hugur síðan, heldur sjeu það litaðar umsagnir frá honum, sem hjer eru bornar fram, og úr lagi færðar. Þá spurði hv. þm., hvaða gagn höfnunum væri að hraðferðum Esju. Þær hafa það gagn af þeim, að póstflutningur og mannflutningur verður miklu örari en nú. Auk þess komast hjeruðin í lifandi viðskiftasamband innbyrðis og við umheiminn.

Þá fullyrti þessi hv. þm., að altaf hefði verið mest tap á hraðferðum Esju. Hvaða hraðferðum? Esja hefir ekki farið neinar hraðferðir síðan 1923. Þá voru gerðar þrjár hraðferða-tilraunir og komið við, að mig minnir, á 6 eða 8 höfnum á landinu. Þessar ferðir borguðu sig illa, sem vænta mátti, þar sem þær voru um hásumarið, er annatími var mestur, enda nokkuð af handahófi. Þessar ferðir voru aðeins gerðar sem tilraun og fólkið hafði tæpast áttað sig á þeim, er þeim var lokið.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að karpa lengur um þetta mál. Það hefir ekkert nýtt komið fram í þessum umræðum og mun ekkert koma fram frá hv. andmælendum, sem sannfæri mig eða aðra flm. málsins.