29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í C-deild Alþingistíðinda. (2908)

53. mál, strandferðaskip

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg sje enga ástæðu til að hafa miklar málalengingar út af ræðu hv. 1. landsk. Jeg get látið mjer nægja að taka upp eina setningu úr ræðu hans, þar sem hann sannaði algerlega mitt mál. Hann sagði sem sje, að ekkert væri hægt að vita um hallann af skipinu fyrirfram. Meiri viðurkenningu var ekki hægt að vænta úr þeirri átt. En þegar hægt er að staðfesta annað eins og þetta um fjárhagslega afkomu einhvers fyrirtækis, þá er ekki tímabært að koma því á fót. Þá vitnaði hv. þm. í strandferðir í Noregi. En jeg get sagt honum það, að þessi skip, sem þjóta fram og aftur á dag, fara um ákveðinn fjörð eða afmarkað svæði. Þau fara ekki fram með allri strandlengjunni. Þeir hafa tekið upp þann sið, að láta smærri skipin tína upp smáhafnirnar. Þá ætti hv. þm. ekki að vera að tala um strandferðir á Englandi í sambandi við okkar litlu getu. Það er ekki sambærilegt. Þar sem tugir miljóna búa með ströndum fram, og auk þess eykur ferðamannastraumurinn stórum allar strandferðir. Sama má og segja um Noreg. Þar er svo mikill munur á mannfjölda og ferðamannastraum til landsins, að það er langt frá því að vera sambærilegt við okkar kringumstæður. Jeg hefi aldrei talað um það, að fólk mætti vera hjer samgöngulaust. Jeg get viðurkent það, að það væri æskilegt, að við hefðum betri samgöngur. En við verðum að gæta hófs í útgjöldum ríkissjóðs á því sviði sem öðrum.