29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í C-deild Alþingistíðinda. (2910)

53. mál, strandferðaskip

Magnús Kristjánsson:

Jeg geri ráð fyrir því, að það sje tilgangslítið að ræða mál þetta mikið úr þessu. Hv. 1. landsk. hefir líka tekið margt fram máli þessu til stuðnings, svo óþarfi er að gera það greinilegar. Auk þess munu örlög þess ráðin fyrirfram hjer í þessari hv. deild, ef að vanda lætur. Jeg býst við, að meiri hl. sje búinn að koma sjer saman um að ganga af því dauðu. Jeg ætla nú samt sem áður að benda á nokkur atriði, sem til greina geta komið. Mörgum virðist vaxa í augum kostnaðarhliðin við það, að halda uppi tveimur skipum til strandferða. En jeg vil í þessu sambandi benda á það, að hugsanlegt er, að nokkuð af þessum tilkostnaði mætti vinna upp aftur með breyttu fyrirkomulagi á strandferðunum. Það mundi ef til vill vera hægt að spara fje til flóabátanna og máske líka styrkinn til Eimskipafjelags Íslands. Með því væri komin nokkur upphæð upp í rekstrarkostnað þessara strandferðaskipa. Jeg hygg nú, að kostnaðaraukinn mundi ekki verða eins mikill og hæstv. forsrh. áætlaði hann. Það er dálítið einkennilegt, þegar litið er til baka, að fyrir hjer um bil tveimur tugum ára, þá þótti það nauðsynlegt að hafa tvö öflug og góð strandferðaskip í förum hjer og þó er ólíku saman að jafna öllu nú og þá, því flutningsþörfin er svo miklu meiri nú en þá var. Mjer finst því, að það megi ekki skoða það sem neina fjarstæðu, þótt við viljum fá tvö strandferðaskip nú. Jeg tel ekki þörf á að endurtaka það, sem aðrir hafa sagt hjer, en vil aðeins drepa á það, að hæstv. forsrh. taldi það fjarstæðu næst að gera samanburð við Noreg. Jeg sje ekki, að það sje gerð tilraun til þess að gera neinn samanburð, þótt við viljum hafa tvö strandferðaskip hjer. Það er langt frá því að vera í hlutfalli við strandferðaskip Norðmanna, þótt tillit sje tekið til mannfjölda. Þá mintist hæstv. ráðh. á ferðamannastrauminn til Noregs, sem væri þess valdandi, að strandferðir bæru sig betur þar. En jeg verð að segja, ef þessi aukning strandferða hjer yrði til þess að beina auknum ferðamannastraum hingað, þá teldi jeg það sterk meðmæli með því að ráðast í þetta fyrirtæki. Frá mínu sjónarmiði er eina frambærilega ástæðan til þess að draga úr þessu sú, að það sje lítt mögulegt að útvega fje til byggingarkostnaðarins. Það má vel vera, að svo sje. En alt um það breytir það á engan hátt þeirri nauðsyn, sem er til staðar hjer. Því hefði mjer þótt æskilegast, að hæstv. ráðh. hefði tekið svo í þetta mál, að hann hefði viðurkent þörfina á því að framkvæma þetta sem fyrst, án þess þó að gefa bein loforð um það, að hefjast handa þegar í stað. Þetta hefði jeg talið viðeigandi svar frá hæstv. ráðh. Það er margt, sem kemur til greina í þessu sambandi, en jeg vil ekki tefja tímann með því að nefna það alt. Það er fráleitt fyrirkomulag á samgöngum okkar á sjó, að láta stærri skipin vera að snatta inn á allar smáhafnirnar, en orsökin er sú, að það er tilfinnanleg vöntun á flutningatækjum meðfram ströndinni. Með þessu móti eru strandferðirnar dýrari en þær verða, þegar þær eru komnar í það kerfi, sem þær þurfa að komast í og hljóta að komast í þannig, að hver ferð þeirra taki hjer um bil helmingi skemri tíma en nú á sjer stað.

Nú er auðvitað, að á meðan ekki er sjeð fyrir bættum strandferðum, þá er varla að búast við, að þetta fyrirkomulag, sem verið hefir um ferðir innlendu millilandaskipanna, geti breyst svo til batnaðar, að við megi una. En eigi að breyta þessu fyrirkomulagi, svo að skipakostur landsmanna komi að sem bestum notum, þarf að hefjast samvinna á milli Eimskipafjelagsins og ríkissjóðsskipanna, þannig, að hver viðskiftamaður strandferðaskipanna megi eiga það víst að fá vörur fluttar heim til sín á ákvörðunarstaðinn fyrir sama verð og það væri flutt beint. En þetta getur ekki komist á, nema upp sje tekið það, sem á slæmri íslensku er kallað „gegnumgangandi fragt“, og er í því fólgið, að taka við vörum hvar sem er og koma þeim á ákvörðunarstað fyrir venjulegt flutningsgjald, eins, þótt fleiri skip verði notuð til þess að koma þeim til rjettra hlutaðeigenda.

Þetta fyrirkomulag, sem að verður að stefna, getur þó ekki komið til framkvæmda á meðan við höfum aðeins eitt strandferðaskip til að annast slíka flutninga. Þess vegna vænti jeg, að hv. þdm. liti á þetta mál með skynsamlegri athugun og velvilja. Og ef þeir eru ekki búnir að ákveða sig eða gera sjer ljóst, hvert stefnir í þessu efni, sem jeg vænti þó að þeir geri, þá bið jeg þó að þeir líti á alla málavöxtu með sanngirni og velvilja og með fullum skilningi á, að hjer sje um mikið nauðsynjamál að ræða. Jeg býst við, þó að kosningar standi nú fyrir dyrum, að þá eigi margir afturkvæmt hingað í þessa hv. deild. Og þá getur ekki liðið á löngu, að þeir verði að snúa inn á þá braut, að koma betra og hagfeldara skipulagi á strandferðirnar. Þessu öllu verður að skipa í kerfi, með tilliti til þess, að innlendu skipin geti orðið að öllu leyti samkepnisfær við þau útlendu. En með þessu fyrirkomulagi, sem jeg hefi bent á, eru ekki líkindi til að útgjöld ríkissjóðs þurfi svo mjög að aukast. Þó vil jeg í því sambandi taka enn einu sinni fram, það sem jeg og aðrir fylgismenn þessa máls höfum áður sagt, að það má ekki gera alt of mikið úr kostnaðinum, svo að almenningi vaxi í augum, þó að dálítið fjárframlag þurfi að inna af hendi í þessu skyni. Þó að dálítil bein útgjöld leiði af þessu í bili, þá er óbeini hagnaðurinn langt um meiri, sem liggur í bættum samgöngum og hagkvæmara fyrirkomulagi fyrir allan fjöldann. En því miður hafa ekki nema örfáir menn gert sjer þetta svo ljóst sem skyldi.

Það er ekki ætlast til um samgöngur þær á sjó og landi, sem ríkissjóður kostar, að rekstrarreikningar sýni, að gjöld og tekjur standist á. Það er svo margt, sem hið opinbera verður að standa straum af í framsóknarbaráttu þjóðarinnar, sem ekki er hægt að gera ráð fyrir að beri sig reikningslega. Það er nauðsyn einstaklinganna og breyttir lifnaðarhættir þjóðarinnar, sem heimta, að ríkið ráðist í ýms framfarafyrirtæki, þó að búast megi við einhverjum rekstrarhalla í bili. Þetta frv. er spor í rjetta átt, og því sjálfsagt, að það nái fram að ganga.

Þó skal jeg taka fram að lokum, að svo sanngjarn er jeg, að jeg mundi alls ekki taka hart á því, þó að bygging skipsins dragist um eitt ár eða svo, ef fjárhagur ríkisins er svo bágborinn, að ekki verði talið fært að ráðast í þetta á þessu ári.