29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í C-deild Alþingistíðinda. (2912)

53. mál, strandferðaskip

Magnús Kristjánsson:

Jeg hefi ekki miklu að svara hæstv. atvrh. Hann benti á, að fyrir fundinum lægju brtt. hv. fjvn. Um þetta var mjer kunnugt. En jeg get bætt við, að samgmn. hefir tekið afstöðu til þessa máls, en undir það nál. hefi jeg skrifað með fyrirvara. Verður því nánar vikið að þessu máli, er fjárlögin verða rædd, og því óþarft að fjölyrða mikið um það nú við 1. umr.

Jeg get ekki verið sammála hæstv. atvrh. um, að ekkert geti sparast á flóabátastyrknum við það, að byggja annað strandferðaskip. Því að jeg sje ekki betur en að komið gæti til athugunar að lækka talsvert styrkinn til Borgarnesbátsins og Ísafjarðarbátsins, enda anna þessir bátar strandferðum nú, sem nýja strandferðaskipið mundi geta tekið að sjer. Jeg verð því að halda fram, að með því að byggja þetta skip og bæta samgöngur með ströndum fram, þá megi spara allmikla upphæð af flóabátastyrknum, og fella niður styrkinn til Eimskipafjelagsins, sem því hefir verið veittur til þess að koma við á ýmsum smærri höfnum, sem yrðu þá á áætlun strandferðaskipanna. Enda er jeg sannfærður um, að ef fjelagið er óbundið um ferðir sínar, að þá verði þær um leið hagkvæmari. Fjelaginu mun heldur ekki vera það óljúft, að slík breyting komist á.

Annars sje jeg ekki ástæðu til frekari málalenginga á þessu stigi málsins, en vænti, að hv. deild sjái, að það sje óviðeigandi að vísa því frá nú. Enda tel jeg sjálfsagt, að frv. fái að ganga til 2. umr. og nefndar, til nánari athugunar, og mætti þá breyta því í þá átt, ef sýndist, að framkvæmdirnar hefjist ekki þegar í stað, eða biði, þangað til betur rækist úr um fjárhag ríkisins.

Hitt er álit mitt, að varla taki því fyrir Alþingi að fella frv. nú, því að þetta mál mun verða tekið upp á hverju þingi, þangað til það nær fram að ganga. Og eins og jeg hefi áður tekið fram, er það aðeins tímaspursmál, hvenær í þetta verður ráðist.