11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í C-deild Alþingistíðinda. (2918)

72. mál, fiskimat

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg tel óþarft að flytja hjer langt mál og get látið mjer að mestu nægja að benda til greinargerðarinnar, er frv. fylgir. Þetta mál er svo einfalt, að fljótlega má yfir sjá. Það hefir hvað eftir annað komið fram ágreiningur um það, hvernig skilja beri 4. málsgrein í 1. gr. fiskimatslaganna frá 1922. Það er ekki trútt um, að reynt hafi verið að komast í kring um ákvæði hennar sumstaðar og framkvæmd þess hafi á ýmsu oltið. Þetta vill nefndin reyna að gera skýrt með breytingu þeirri, sem hjer er farið fram á, og leggur hún til, að fiskurinn sje þá aðeins matsskyldur við kaup og sölu innanlands, er hann er ætlaður til útflutnings í óbreyttu ástandi. En þegar fiskur er keyptur til að geymast eða til verkunar síðar meir, virðist matið harla þýðingarlítið. Aftur er auðsætt, að það bakar framleiðöndum aukakostnað og dregur úr verði vörunnar. Aðalmatið, sem fer fram við útskipun, verður jafndýrt og jafnsjálfsagt hvort sem er.

Það mun ekki fjarri fara, að mat á skippundi af handfiski úr salti kosti um 5 kr. Virðist ærið að leggja þann kostnað einu sinni á vöruna, ekki síst, þegar skpd. er komið, eins og nú er, niður í 37–40 kr.

Annars eðlis er brtt. við 7. gr. laganna. Hún er afleiðing af kvörtunum, er fram hafa komið um það, að ósamræmi væri á fiskimatinu milli hinna ýmsu landshluta. Yfirfiskimatsmennirnir ferðast að vísu hver um sitt svæði til eftirlits, en þeir hafa ekkert fast samband sín á milli, og því er ekki ætíð samræmi í gerðum þeirra. Þurkunarstig fiskjar og jafnvel fleira verður því álitamál á hverjum stað og getur orðið breytilegt frá einni útskipunarhöfn til annarar.

Nefndin álítur, að nauðsynlegt samræmi náist ekki, nema sjerstakur maður hafi hjer eftirlit og ferðist um landið til þess að samræma matið. Telur hún, að ekki megi nokkur kostnaður af slíkum eftirlitsferðum í vegi standa, því að augljóst er, að ef matið mistekst og varan missir álit hjá neytöndum, þá eru margfaldar upphæðir í veði við það, sem eftirlitið mundi kosta og skaðinn mundi alt eins koma niður á þeim, sem ekki væru valdir að misfellunum.

Nefndin þykist því mega vænta þess, að undirtektir háttv. deildar undir þetta mál verði greiðar og góðar.