15.03.1927
Neðri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í C-deild Alþingistíðinda. (2922)

72. mál, fiskimat

Pjetur Ottesen:

Þessar breytingar á lögunum um fiskimat, sem hjer liggja fyrir, eru í tveimur liðum. Í fyrri liðnum er farið fram á það, að afnema skyldumat á fiski upp úr salti, í öllum öðrum tilfellum en þeim, þegar fiskurinn er fluttur til útlanda. Í öðrum liðnum er gert ráð fyrir því, að skipaður verði maður til þess að ferðast um landið, til að samræma fiskimatið í hinum ýmsu matsumdæmum, eins og komist er að orði í frv. Um fyrra atriðið, að afnema matið á fiski í öllum öðrum tilfellum en þeim, er fiskurinn er fluttur til útlanda, vil jeg geta þess, að árið 1922, þegar þetta var sett inn í lögin um fiskimat, var það gert af þeirri ástæðu, að í þessu mundi felast nokkur trygging fyrir því, að fiskurinn yrði betur verkaður í saltið en áður var. En það er, eins og kunnugt er, mikils vert atriði fyrir verkun fiskjarins, að vel sje með hann farið frá því að hann kemur úr sjónum og þar til hann er saltaður, að hann sje vel blóðgaður og auk þess vel þveginn í saltið. Þetta eru þær ástæður, sem voru fyrir því, að þetta ákvæði var tekið inn í matslögin 1922. En nú hefi jeg heyrt það sagt, að þetta mat sje ekki framkvæmt nema í tiltölulega fáum tilfellum, og sje það í raun og veru svo, að þetta mat sje að mestu dauður bókstafur, þá býst jeg við, að það hafi ekki mikla þýðingu, þó að þessu ákvæði sje kipt í burt, því að þessu mati fylgir vitanlega töluverður kostnaður.

Hitt atriðið er viðauki við lögin, að ráðherra skipi mann til að ferðast um landið og samræma fiskimatið. Þessi leið hefir hv. sjútvn. virst álitlegust til þess að bæta úr því, sem kvartað hefir verið um, að ekki sje fult samræmi í matinu á hverjum stað. En jeg vil vekja athygli á því, að í 2. gr. frv. kemur ekkert fram um það, hvaða vald þessi maður á að hafa. Það er ekkert talað um það, hvort hann eigi aðeins að vera leiðbeinandi fyrir yfirfiskimatsmennina, eða hvort þeim beri nokkur skylda til að taka til greina tillögur þær, sem hann hefir fram að flytja, hvort hann á að hafa vald yfir yfirfiskimatsmönnunum eða vera aðeins leiðbeinandi þeirra, og þeir sjálfráðir um, hvað mikið tillit þeir taka til tillagna hans. Mjer finst, að það verði að kveða skýrt á um það, hvort hann á aðeins að vera leiðbeinandi, eða hvort hann á að verða hæstráðandi yfirumráðamaður allra fiskimatsmanna. Þetta verður ekki ráðið af frv., hvers hv. nefnd ætlast til um þetta. Jeg vil vekja athygli á þessu, því að verði þetta frv. samþ., getur þetta hæglega valdið árekstri milli þessa manns annarsvegar, ef hann skoðaði stöðu sína sem valdsmannsstöðu, og yfirfiskimatsmannanna hinsvegar, sem að núgildandi lögum eru hæstráðendur á þessu sviði. Yrði þarna árekstur, mundi það síður en svo verða til þess að koma á betra samræmi í fiskimatinu og bæta það, heldur hefði það ef til vill áhrif í gagnstæða átt. Og þótt svo væri ákveðið í frv., að girt væri fyrir allan árekstur út af þessu, þá er samt álitamál, hvort þetta er heppilegasta leiðin til þess að ráða bót á því, sem ábótavant er í þessu efni. Jeg er viss um, að finna má heppilegri leið. Jeg býst við, að orsökin til ósamræmisins í matinu stafi af því, að nána samvinnu vanti milli yfirfiskimatsmannanna. Ef þeir bæru sig saman, gæti þetta ósamræmi aldrei orðið verulegt. Hefir mjer því dottið í hug, að heppilegra væri, að í lögunum væri ákveðið, að yfirmatsmennirnir hefðu fund með sjer einu sinni á ári til að ræða þessi mál og bera sig saman um ýms atriði, ræða óskir um breytingar á matinu, sem þeim bærust frá þeim löndum, sem kaupa fiskinn, því að þaðan berast við og við kvartanir um, að fiskurinn sje ekki við hæfi neytendanna í því ásigkomulagi, sem hann kemur, og óskir um, að úr því sje bætt. Það mun nú hafa átt sjer stað, að yfirfiskimatsmenn hafi komið saman í Reykjavík, til að ræða um fiskimatið. En það eru engin ákvæði í lögum um þetta, og það eru nú víst full 2 ár síðan þeir komu saman síðast. En lögin mæla ekkert fyrir um það. Það þarf því að vera ákvæði í þeim um þetta, til tryggingar.

Jeg hygg, að það yrði traustara og raunhæfari leið til þess að koma betra samræmi á matið, að þeir menn, sem ábyrgð hafa á þessum málum, kæmu saman til að ráða ráðum sínum um þetta mikilsverða mál, heldur en að fara að senda einn mann um landið til þess að reyna að samræma matið, mann, sem fyrst og fremst er óvíst um, hvernig tækist val á og í öðru lagi óvíst, hvernig ráðleggingum hans yrði tekið og á þær litið af yfirmatsmönnunum, sem eftir sem áður bera ábyrgðina. Og svo nauðsynlegt sem það er, að gera ráðstafanir til þess að betra samræmi komist á fiskimatið, þá er það ekki síður mikils um vert, að matsmennirnir fylgist með öllum breytingum, sem verða á kröfum neytendanna í þeim löndum, sem fiskinn kaupa, um verkun og alla meðferð fiskjarins. Jeg veit, að fiskútflytjendur fá að vísu upplýsingar um það, sem áfátt þykir umfisksendingarnar í hverju einstöku tilfelli. En jeg held, að öruggasta leiðin til þess að gera fiskinn þannig úr garði, að hann sje við hæfi neytendanna, sje sú, að matsmennirnir eigi kost á að kynnast þessu af eigin sjón og reynslu, fái að ferðast til þeirra landa, þar sem fiskurinn er seldur og kynnast kröfum neytendanna um verkun og markaðshæfi fiskjarins. Og þótt matsmönnunum berist fregnir um umkvartanir um verkunarástand fiskjarins og flokkun, eftir stærðum og þess háttar, viðskiftaleiðina, þá yrði það betra og tryggara, að bót verði á ráðin, ef þeir ættu kost á að sjá þetta alt með eigin augum í löndunum, þar sem fiskjarins er neytt. Það var og einn og ekki óverulegasti liðurinn í hinu mikla umbótastarfi Þorsteins Guðmundssonar, að hann sigldi til Spánar (KlJ: Alveg rjett!) til þess að kynna sjer þetta. Og í tvö skifti hafa fiskimatsmenn vorir átt kost á því, að fara til Spánar í þessum erindum. Og þetta er áreiðanlega það staðbesta, sem við getum gert til þess að halda fiski vorum í því áliti, sem við höfum aflað honum fram að þessu. Það er sannfæring mín, að það, sem jeg nú hefi nefnt, er öruggasta, tryggasta og besta endurbótin á þeim annmörkum, sem eru á þessum málum, og að best sje að tryggja hana með þessu tvennu: að yfirfiskimatsmennirnir komi saman einu sinni á ári til þess að ræða sameiginlega þetta mál og að þeim gefist kostur á því, að geta með eigin augum sjeð og heyrt, hvaða kröfur neytendurnir gera um verkun fiskjarins og alla meðferð. Því hefi jeg leyft mjer að koma fram með brtt. um að í stað 2. gr. frv. komi í fyrsta lagi ákvæði um það, að yfirfiskimatsmennirnir eigi fund með sjer einu sinni á ári til að ræða um endurbætur og samræming fiskimatsins, og að atvrh. boði til fundarins. Jeg vil ekki ákveða fundarstaðinn; tel heppilegra, að það verði ákveðið í hvert skifti og að fundirnir verði haldnir til skiftis í landsfjórðungunum. Í öðru lagi er farið fram á það í brtt., að að minsta kosti annað hvert ár skuli einn yfirfiskimatsmannanna, er ráðherra nefnir til þess í hvert sinn, eða tveir þriðja hvert ár, fara til Miðjarðarhafslanda til þess að kynna sjer kröfur neytendanna um verkun fiskjarins og alla meðferð. Vilji hv. deild aðhyllast þessar brtt., þá hygg jeg, að meira gagn sje unnið þessum málum en með frv. sjútvn. Jeg hefi borið till. mínar undir yfirfiskimatsmennina hjer í Reykjavík og forseta Fiskifjelagsins, hr. Kristján Bergsson, og hafa þeir látið það álit sitt ótvírætt í ljós, að í mínum tillögum felist miklum mun meiri endurbætur á fiskimatinu en í frv., eins og það er í garðinn búið af hendi sjútvn.

Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Hv. deild sker úr því, hvorar till. hún álítur heppilegri.