31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í C-deild Alþingistíðinda. (2947)

72. mál, fiskimat

Ólafur Thors:

Jeg get nú lofað því, að vera stuttorðari en hv. þm. Borgf. — Jeg skal þá byrja á því, að svara hv. 3. þm. Reykv. nokkrum orðum. Hann sagði, að þetta mál hefði alt annað viðhorf nú en í upphafi. Jeg skal nú taka það fram, að við fyrri hluta þessarar umræðu ræddi jeg málið á nákvæmlega sama grundvelli og nú. Það hefir og hv. þm. Borgf. fundið, því að hann fann ástæðu til þess að grípa fram í fyrir mjer og segja, að jeg hefði lítið nýtt fram að færa nú. Jeg hygg, að hv. 3. þm. Reykv. hafi lítið athugað það, sem jeg sagði þá. Þá vildi þessi hv. þm. gera lítið úr viðleitninni til að samræma matið. En jeg vil benda honum á, að aðaltilgangur þeirrar tillögu, sem hann tilbiður, er einmitt sá, að samræma matið. Þess vegna skellur alt hnútukast hans á vini hans, hv. þm. Borgf. Annars er það broslegur misskilningur hjá hv. þm. (JÓl), að ekki verði samræmt matið milli fjórðunganna. Benti hann á Vestmannaeyjar og Vestfirði. En hvað segir þm. um Vestfirði, Norðurland og Austurland? Svo fróður maður og víðsýnn sjer væntanlega lengra en til Vestmannaeyja!

Þá sagði hv. þm., að till. nefndarinnar væru sprottnar af vanþekkingu og lagði að veði við því 30 ára reynslu sína í þessum efnum. Það er nú sýnilegt, að till. okkar hafa alla yfirburði fram yfir till. hv. þm. Borgf., og jeg verð því að samhryggjast hv. 3. þm. Reykv. yfir hans stóra tapi er hann þannig hefir sett þekkingu, er hann hefir öðlast fyrir 30 ára reynslu, að veði fyrir fullyrðingu, sem er sannanlega röng. — Þá verð jeg að leiðrejtta það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að jeg hefði borið það upp á sig og hv. þm. Borgf., að þeir væru á móti þessum tillögum vegna þess, að þær væru ekki undan þeirra rifjum runnar. Þetta er rangt. Jeg sagði, að ef jeg þekti aðeins skarpleik þeirra, en ekki mannkosti, þá gæti jeg freistast til að gera þeim getsakir. En þar sem jeg þekti hvorttveggja, þá dytti mjer það ekki í hug.

Þá skal jeg víkja stuttlega að hv. þm. Borgf. þar sem hann mintist á málakunnáttu sendimannsins á Spáni, að hún gæti orðið yfirfiskimatsmönnunum að liði í utanför þeirra, þá er það að nokkru leyti rjett. En hann getur ekki fylgt þeim bæ úr bæ eða land úr landi, því að auðvitað verða þeir að koma í fleiri en eitt neysluland. Þá hjelt þessi hv. þm. því fast fram, að jeg hefði gert lítið úr hv. 3. þm. Reykv. og þekkingu hans. En nú get jeg lýst yfir því, að jeg hefi miklar mætur á honum og var því síður en svo, að jeg gerði lítið úr honum. En jeg gerði nauðalítið úr þeim stuðningi, sem hann veitti hv. þm. Borgf. í þessu máli, þótt hann að vísu væri honum nokkurs virði, sökum þess, hvað hann hefði sára lítið fram að færa sjálfur. Þá vjek hv. þm. því að mjer, að hann þekti fyrirtæki, þar sem margir væru stjórnendur. Já, jeg þekki fyrirtæki, þar sem margir framkvæmdarstjórar eru, en þeir skifta með sjer ólíkum verkum og ráða hver á sínu sviði. Þá rangfærði hv. þm. á illgirnislegan hátt orð mín, er hann sagði, að jeg hefði sagt, að það, að fiskimatsmennirnir vildu ekki fá matstjóra, væri hliðstætt því, að þjófarnir vildu enga lögreglu hafa. Jeg tók það einmitt fram, að þetta bæri ekki að skoða sem hliðstætt dæmi. En hitt sagði jeg, að það væri ekki nema eðlilegt, að undirmennirnir kærðu sig ekkert um að fá sjer skipaðan yfirmann. Það var óþarfi af hv. þm. að leggja illa merkingu í þessi orð mín, enda þótt hann sje óvenjulega sljór í dag. Annars bendir það á rakaskort andstæðinganna í þessu máli, að þeir forðast að ræða till. sjútvn., eins og þær eru í raun og veru, og taka ekkert tillit til skýringa, sem fram koma í umræðunum. Þeir þora í krakkann, en forðast þann fullorðna. Mjer er það fullkomlega ljóst, að málalengingar spilla aðeins sigri þessa máls. Jeg ætla því að eiga á hættu, að einhver sje sá hv. deildarmanna, að hann telji okkur nefndarmenn hafa orðið undir í rökræðunum, og kjósa mjer hlutskifti þeirra móðurinnar, er forðum kom til Salómons, er umfram alt vildi láta barnið lifa.

Jeg ætla því aðeins að endingu að segja hjer litla sögu. En jeg verð þó að taka það fram, að jeg ætlast ekki til þess, að hún verði skilin bókstaflega. Björnstjerne Björnson stakk einu sinni á æskuárum sínum upp á einhverju, sem miðaði til þjóðarþrifa. Hann rak sig brátt á kyrstöðu landa sinna og mætti mótspyrnu þeirra. Þá sagði Björnson þeim þessa sögu: Þegar hinn mikli spekingur Pythagoras fann upp stærðfræðissetningu þá, sem við hann er kend, þá varð hann svo glaður, að hann vildi fórna guðunum einhverju í staðinn. Slátraði hann því 50 nautum og fórnaði þeim á altari guðanna. En altaf síðan, þegar stungið er upp á einhverri nýjung, þá er sagt, að nautin öskri, af því að þau halda að eigi að fara að slátar sjer.

Framkoma andstæðinganna í þessu máli hefir mint mig á þessa sögu.