10.03.1927
Neðri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í C-deild Alþingistíðinda. (3002)

55. mál, gagnfræðaskóli á Ísafirði

Sveinn Ólafsson:

Jeg stend ekki upp til þess að mæla gegn frv. þessu eða til þess að leggja stein í götu þess. Jeg vildi aðeins upplýsa það, sem hv. flm. virðist ekki kunnugt, að fjárveitingin mikla til Eiðaskóla árið 1925–26 er byggingarkostnaður en ekki reksturskostnaður. Skólinn var bygður næstl. sumar, en til þess tíma hefir verið notað lítið skólahús frá tíð búnaðarskólans, hús, sem rúmað hefir tæpan helming umsækjenda og þess vegna staðið skólanum fyrir þrifum og gert rekstur hans dýrari. Og þegar háttv. flm. segir, að tífalt meira fje fari til Eiðaskóla en unglingaskólans á Ísafirði að hlutföllum við nemendafjölda, þá er þetta ekki sambærilegt, af þeim ástæðum, sem jeg þegar hefi nefnt.

Einnig er hjer tvennu ólíku saman að jafna, þar sem annarsvegar er skóli, sem tilheyrir hjeraði eða kaupstað, en hinsvegar föst skólastofnun, sem ríkið á og annast að öllu. Eiðaskóli með jarðagóssi, húsum, bústofni búnaðarskólans gamla og öllu föstu og lausu frá þeirri stofnun, er gjöf frá Múlasýslum til ríkisins. Hún var á sínum tíma vægt metin nær 100 þús. kr., og mætti vel telja nokkra vexti af því fje til frádráttar rekstrarkostnaði við skólann. Ef önnur hjeruð vildu fylgja fordæmi Múlsýslunga, þegar um stofnun hjeraðsskóla er að ræða, þá virðist mjer slík mál ættu að vera auðsóttari. Eiðaskóli var lögfestur 1917, og gjöfin, sem sumir vilja nú gera lítið úr, afhent 1918. Segja má því, að stofnunin hafi verið fram á síðustu ár rekin með tiltölulega litlum tilkostnaði, án byggingakostnaðar og að nokkru leyti fyrir vexti af höfuðstólnum gamla. En á fjárlögum undanfarið hafa staðið nálægt 20 þús. kr. til skólans árlega, að öllu tiltíndu.