28.02.1927
Efri deild: 16. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í C-deild Alþingistíðinda. (3016)

46. mál, vegalög

Flm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta á þskj. 55 flyt jeg hjer fyrir margítrekaðar áskoranir þingmálafunda í Suður- Múlasýslu.

Í ástæðum fyrir því er gerð grein fyrir, hve vegarspotti þessi sje langur. Jafnframt er bent á, að í framtíðinni verði hann altaf að mestum notum fyrir Eiðaskólann, enda þótt hreppurinn hafi hans dálítil not.

Svo er ástatt um veg þennan, að hann var upphaflega lagður af hrepps- og sýslufje, en með dálitlum styrk úr ríkissjóði. Og í byrjun var nauðsynin svo mikil að koma honum áfram, að ekki var vandað til hans sem skyldi, aðeins hugsað um að gera sem fyrst akfært að Eiðum, án þess þó, að nokkrar brýr væru gerðar.

Nú undanfarið hefir sýslan styrkt veg þennan vegna nauðsynjar að halda honum færum að Eiðum. En nú býst jeg við, að hvorki hreppurinn nje sýslufjelagið sjái sjer fært að fullgera hann, því hjer á í hlut fátækur hreppur, sem þegar hefir kostað til töluverðu fje, og þar með bundið sjer allþungan skuldabagga, til þess að gera hann akfæran, svo að stofnun sú, sem ríkið á á Eiðum, geti notað hann. Sýndi það sig best síðastliðið sumar, hversu mikið nauðsynjaverk það hefir verið, því að erfitt hefði orðið að flytja alt efni til skólahúsbyggingarinnar í klyfjum.

Hjer virðist því ekki nema um tvent að ræða, annað tveggja, að taka vegspotta þennan upp í þjóðvega tölu, eða þá að öðrum kosti að hann verður ófær sem akvegur. En það teldi jeg illa farið, því að um hann fer flestalt skólafólk, sem að Eiðum sækir, og fjöldi ferðamanna, sem þangað streymir á sumrum. Auk þess sem allir aðflutningar að Eiðum eru fluttir eftir honum. Mjer finst því alveg sjálfsagt, að hið opinbera verði að taka við honum, þar sem hann er nær eingöngu fyrir Eiða, eins og jeg hefi áður bent á.

Jeg veit vel, að slíkum breytingum sem þessari hefir ekki verið vel tekið á síðustu þingum, mest sakir þess, að vegalögin eru svo nýlega endurskoðuð. En mjer finst, að breyta megi þeim lögum sem öðrum, þegar knýjandi ástæður eru fyrir hendi, eins og t. d. sú, sem hjer er um að ræða. Hjer stendur nefnilega alveg sjerstaklega á, þar sem í hlut á stofnun, sem er ríkisins eign, og allir aðflutningar þangað eru um Fagradal og svo þessa leið. Er því hart, að láta hann verða fyrir miklum óþægindum, aðeins vegna þess, að ekki má hreyfa lítilsháttar við vegalögunum. Fari nú svo, að vegarspotti þessi verði ekki akfær, sem búast má við, verði hann ekki tekinn upp í vegalögin, þá liggur ekkert annað fyrir en flytja alla aðdrætti að Eiðum á klökkum. Af því hlýtur aftur að leiða töluverða hækkun á öllum nauðsynjum, sem flytja þarf að stofnuninni.

Jeg hefi ekki haft tækifæri til að afla mjer nákvæmrar lýsingar á veginum, svo jeg geti lagt hana fram nú. En fari málið til nefndar, sem jeg fastlega vonast eftir, geri jeg ráð fyrir, að hún geti aflað sjer þeirra lýsinga.

Legg jeg svo til, að málinu verði vísað til samgmn., að umr. lokinni.