10.03.1927
Neðri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í C-deild Alþingistíðinda. (3023)

76. mál, fasteignamat

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þó að jeg hafi ekki trú á því, að sú leið, sem hv. flm. stingur upp á til framkvæmda á næsta fasteignamati, sje hagnýtileg, þá vil jeg mæla með því, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og nefndar. Og jeg tel þetta mál, um skattmat fasteigna, heyra undir fjhn. En jeg vil þó um leið skjóta því til þeirrar hv. nefndar, að löggjöfin um skattmat fasteigna er yfir höfuð í talsvert miklum molum, og jeg hygg, að hún þurfi endurskoðunar við í fleiri atriðum en því, sem hjer ræðir um, skipun matsnefndanna. Sjerstaklega finst mjer það nú vera athugunarefni, á hvaða grundvelli ætti að framkvæma það skattmat, sem eftir núgildandi löggjöf ætti að vera lokið 1930. Þegar þessi löggjöf var fyrst sett, 1915, þá var ekki komin nein óreiða á gildi peninganna. Þó að verðlagið væri að vísu dálítið byrjað að hækka og hækkaði ennþá meira, meðan matið stóð yfir, þá held jeg að hafi verið nokkurnveginn ákveðinn grundvöllur, sem matið var bygt á, líklega hjer um bil verðlag ársins 1916.

Nú stendur öðruvísi á, ef á að fara að meta fasteignir til skatts með mati, sem á að gilda um 10 ára bil. Þá kemur spurningin: Í hvaða krónum á að meta eignirnar. Hvort á að meta þær eftir pappírskrónum, sem við nú búum við, eða eftir verði í löglegum krónum? Þetta sýnist mjer vera svo mikið vafaatriði, að það væri ekki nema rjett, að að minsta kosti þingnefnd athugaði það, áður en farið væri að framkvæma næsta fasteignamat. Fyrir því skýt jeg þessu fram til athugunar fyrir fjárhagsnefnd, ef hún fær málið til meðferðar.