14.03.1927
Neðri deild: 29. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í C-deild Alþingistíðinda. (3029)

79. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Þetta mál er það málið, sem mest allra þjóðmála hefir rætt verið undanfarið, bæði í nálægum löndum og hjer heima, og jeg tel víst, að meðan það hefir ekki fengið afgreiðslu, muni það mesta athygli vekja og mest verða rætt þeirra mála, sem nú eru á dagskrá þjóðarinnar.

Þetta frv. var rætt rækilega bæði í blöðum og á Alþingi í fyrra, og einnig í sambandi við ýms önnur mál. Jeg ætla ekki nú við 1. umr. að gefa neitt tilefni til þess, að endurtaka það, sem margsagt hefir verið um málið áður. Ekki ætla jeg heldur að fara út í hina þjóðhagslegu og siðferðislegu hlið málsins, nje vitna til þess, sem fræðimennirnir og vísindamennirnir segja um það. Jeg tel það óþarfa, þar sem málið var þrautrætt í fyrra. Jeg ætla ekki að gefa tilefni til neinna frekari umr., en vil aðeins, eins og gert er í greinargerðinni, vitna til umr. í fyrra, og til skýrslu minnar, sem gengisnefndarmanns og nál. minni hl. fjhn.

Það, sem jeg ætla að gera nú, er að fylgja málinu úr hlaði með athugasemdum um það, sem gerst hefir í því síðan í fyrra. Þá vil jeg drepa á það, sem reynslan hefir kent okkur til viðbótar þennan stutta tíma, og að hve miklu leyti nýjar og breyttar kringumstæður hafa skapað nýja aðstöðu.

Fyrsta atriðið, sem jeg vil benda á, er það, hvaða dóm menn geta nú lagt á tíðindi þau, sem voru svo ný í fyrra, það er að segja, gengishækkunin mikla haustið 1925, í ljósi þeirrar reynslu, sem fengin er. Getum við í ljósi þeirrar reynslu sagt, að gengishækkunin 1925 hafi verið nauðsynleg eða rjettmæt? Um það hefir verið talað og því haldið fast fram af hækkunarmönnum, að það hefði verið hættulegt að halda genginu föstu þá. En jeg fullyrði, að þetta sje gersamlega rangt. Jeg vil fá tækifæri til þess að lýsa því yfir hjer, að jeg álit, að viðburðirnir hafi sannað, að þegar Íslandsbanki vildi halda áfram að kaupa sterlingspundið fyrir 26 kr. og leitaði eftir vilyrði um styrk til þess að halda áfram gjaldeyrisversluninni á þeim grundvelli, þá hafi hann haft rjett fyrir sjer. Þeir menn sáu betur en hækkunarmennirnir. Við, fulltrúar atvinnuveganna í gengisnefndinni, höfðum einnig á rjettu að standa, er við mótmæltum því, að krónan hækkaði. Í rauninni var meiri hl. gengisnefndar mótfallinn hækkuninni, þó að það væri ekki meiri hl. þeirra, sem illu heilli áttu atkvæði um sjálfa skráninguna.

Þá fullyrða hækkunarmenn, að sjóðir þeir, sem mynduðust í inneignum í erlendum bönkum haustið 1925, hafi borið vott um svo mikla velgengni atvinnuvega vorra, og því hafi verið rjettmætt að hækka gengið. En reynslan sýndi, að þeim missást þar hrapallega. Það var rjett hjá okkur, er við hjeldum því fram, að þessi sjóðsöfnun væri óeðlileg og stafaði ekki af velgengni atvinnuveganna, heldur af því, að menn frestuðu í lengstu lög að borga erlendis. Sjóðir þessir hurfu líka á stuttum tíma, hurfu sem ský fyrir vindi. Og fám mánuðum eftir hækkunina voru sjóðirnir ekki lengur til og menn óttuðust afturkastið, lækkun krónunnar.

Jeg álít, að það hafi verið skammsýni stjórnarvaldanna, sem olli því, að krónan hækkði 1925. Atburðirnir hafa sýnt það. Íslandsbanki hafði rjett fyrir sjer, er hann vildi halda áfram að kaupa sterlingspundið fyrir 26 kr. Jeg tel mig nú hafa fengið sannanir fyrir, að við höfðum á rjettu að standa, sem vildum láta verðgildi peninganna vera stöðugt haustið 1925. Og ef samþ. hefði verið, er jeg bar fram rökstudda till. um að stöðva hækkunina, er sterlingspundið stóð í 24 kr., þá stæði þjóðarbúið betur að vígi nú. Þá væru atvinnuvegirnir nú reknir með betri árangri. Þá hefði eigi þurft að grípa til þeirra ráða, sem nú hafa verið upp tekin.

Þá er annað atriði í sambandi við það, sem gerst hefir síðan í fyrra. Þótt jeg beri nú aftur fram frv. um að leita stöðvunar á verðgildi krónunnar með festingu fyrir augum, þá játa jeg, að það er mun erfiðara nú að ná því marki heldur en í fyrra. Við stöndum miklu ver að vígi að stíga það spor en þá. Hækkunin hefir lamað svo atvinnuvegina, að þeir eru ver við því búnir að standa undir því átaki. Nú þarf enn vandlegri og vandasamari rannsókn til þess að finna hinn rjetta stað verðfestingarinnar. Undirbúningsskeiðið til endanlegrar festingar verður að vera miklu lengra nú en í fyrra. Það er enn óvissara, að takist að finna kaupmáttarjafngengið, nema á tiltölulega löngum tíma. En þótt það sje erfitt nú, þá er það mjög þýðingarmikið og ber skylda til þess, að hefjast þegar handa til þess. Eins og það er erfitt nú, eins hlutfallslega hægt var það í fyrra. Af viðburðunum sjest nú, að það hefði verið áhættulaust að festa verðgildi peninganna sem næst því gildi, sem þeir höfðu áður en hækkunin hófst haustið 1925.

Þá er þriðja atriðið, sem sje sá merki lærdómur, sem við höfum numið á árinu sem leið um það, hve erfitt hefir reynst að fá verðlagið innanlands til að komast í samræmi við hækkun krónunnar. Hefir um þetta verið rætt í sambandi við önnur mál. En hjer er líka meðfram um að kenna vanrækslu landstjórnarinnar, því að hún hefir látið ýmislegt ógert, sem hefði þó getað hjálpað til að koma verðlaginu í landinu í meira samræmi við hið skráða gengi. Mjer hefir skilist á hæstv. forsrh., að hann játaði, að t. d. sumir verkstjórar ríkisins hefðu ekki gengið nógu vel fram í þessu. Opinberlega hefir verið rætt um það hjer í deildinni, hvað vanrækt hefir verið í þessu efni á búum ríkisins hjer í grendinni. En ef hjer er ekki um vanrækslu að ræða, þá sýnir það aðeins, hve erfitt þetta er í framkvæmdinni. Á öllum sviðum er þetta ósamræmi í verðlaginu innanlands; má benda t. d. á húsaleiguna í þessu sambandi. Og samkvæmt upplýsingum, sem fjhn. hefir fengið, er borgað það kaup á opinberum stofnunum, sem ekki er í neinu samræmi við gjaldþol atvinnuveganna. Jeg er sannfærður um, að ef þessu heldur áfram, þá eru engar líkur til þess, að krónunni verði haldið uppi. Árið hefir fært okkur heim sannanirnar fyrir því, hve miklum erfiðleikum þetta er bundið. Og úr því að svo erfiðlega gekk árið sem leið, mega menn eiga víst, að það mun enn meiri erfiðleikum bundið, ef krónan hækkar frá því, sem nú er, að koma innlenda verðlaginu í samræmi við hið skráða gengi. Jeg hygg, að margir muni láta sannfærast af þessari sorglegu reynslu.

Þá kem jeg að fjórða atriðinu. Það er annar og enn sorglegri lærdómur, um það, hversu mikið afleiðingarnar af gengishækkuninni 1925 hafa kostað þjóðarbúið, ef á annað borð má halda fram tölum í því sambandi. Jeg hefi minst á það áður, að um s. l. mánaðamót stóð þjóðarbúskapur vor 15 milj. kr. ver en á sama tíma í fyrra. Það er rjettmætt að taka einmitt mánaðamótin febr.–mars. því að þá er hin eðlilega aðstaða vegna hækkunarinnar frá 1925 að mestu eða öllu búin að jafna sig. Þetta er mynd af tapinu, sem orðið hefir á þjóðarbúinu, og þótt nokkuð af því kunni ef til vill að stafa frá eldri tíma, þá er þó gengishækkuninni mest um að kenna.

Hin myndin af því, hversu mikið gengishækkunin hefir kostað okkur, birtist í hinni miklu þörf á lántökum. Þetta sýnir, að veltufje bankanna er horfið eða tapað, og verður því að bæta það upp með nýjum lánum frá útlöndum. Síðan í fyrra hefir verið tekið 3 milj. kr. lán, og nýlega hefir þessi hv. deild samþykt að ábyrgjast afarstórt lán, og nú liggur fyrir frv. um nálega 5 milj. kr. lán. Samtals eru þá nýju lánin, sem heimila á að taka, um 17 milj. kr. Þetta sýnir ljóslega, hve mikið gengishækkunin hefir kostað okkur. Til viðbótar má minna á það, hve atvinnuvegirnir standa höllum fæti, landbúnaðurinn stendur t. d. enn ver að vígi nú en í fyrra. Þetta er hin sorglega reynsla af gengishækkuninni. Af þessu dreg jeg þann lærdóm eða þá ályktun, að það er stórhættulegt að leggja aftur út í hækkun, um 20%, ef ná á gamla gullverðinu. Jeg er sannfærður um, að það er ómögulegt að ná því marki, og það skapaði svo mikið ranglæti, að jeg álít, að af þeirri ástæðu einni megi enginn hugsa til þess.

Þá er fimta atriðið, sem jeg vil benda á í framhaldi af þessum töpum á atvinnuvegunum, og svo hinu, að viðurkent var, að stóra lánið, sem Landsbankinn ætlar að taka, sje nauðsynlegt til þess að halda áfram gengisversluninni, og það er, hve augljós hættan er á því, að krónan lækki. Fall íslensku krónunnar vofir nú yfir. Það er óhætt að segja það og jeg hygg að það sannist, að erfitt muni reynast nú að verjast gengisfalli, án stórfeldrar lántöku.

Í umr. um þetta mál hafa hækkunarmenn haldið því einu fram, að við verðfestingarmenn værum á móti hækkun. En þeir hafa ekki bent á það, sem fylgir hjer samhliða, að einmitt með því að festa krónuna, viljum við koma í veg fyrir lækkun. Við viljum festa gengi krónunnar á rjettum stað, eftir nákvæma rannsókn, og verjast þannig bæði hækkun og lækkun.

Hækkunarmenn halda því ennfremur fram, að við sjeum fjandmenn sparisjóðseigenda og viljum ekki láta þá ná rjetti sínum. En þetta er aðeins önnur hlið málsins. Hin hliðin er sú, að við einmitt með festingunni forðum sparifjáreigendum frá þeirri áhættu, að þeir stórtapi á nýrri lækkun krónunnar. Sú gengishækkun, sem hækkunarmenn gangast fyrir, dregur á eftir sjer þá hættu, að peningarnir falli. Ef horfið hefði verið að því ráði haustið 1925 að festa peningana, þá er jeg sannfærður um, að sú hætta mundi ekki vofa yfir nú, að krónan fjelli.

Þá er sjötta atriðið, sem er sjálfsagt að nefna, því að reynslan kennir oss margt í því efni. Hvernig er útkoma peningastofnananna vegna gengishækkunarinnar? Hvernig hafa bankarnir þolað hana og hverjar eru líkur á því, að þeir þoli áframhaldandi gengishækkun? Þau orð, sem jeg segi um þetta efni, segi jeg ekki sem sjerstaklega kunnugur Landsbankanum, af því að jeg er endurskoðandi hans, heldur tala jeg út frá sjónarmiði hvers þess manns, sem les bankareikningana. Bankareikningarnir bera það ljóslega með sjer, hvílíka erfiðleika gengishækkunin hefir bakað bönkunum. Þar við bætist, að gengishækkunin er nýlega afstaðin, svo að allar afleiðingar hennar geta alls ekki verið komnar í ljós enn. Því má gera ráð fyrir meiri töpum af lánum til atvinnuveganna en orðið er. Eign Landsbankans sjálfs, varasjóðurinn, er ekki nema einar 700 þús. kr., og er það ekki nema lítið brot af þeim mörgu miljónum, sem Landsbankinn á í hinum ótryggu pappírum, sem eru víxlarnir. Þegar athugað er, hvað varasjóðurinn er lítill hluti af fje því, sem í veltu er, þá verður öllum ljóst, að bankinn á við erfiðleika að stríða. Jeg þekki ekki til Íslandsbanka, en báðir bankarnir hljóta að eiga mjög erfitt uppdráttar út af þeirri gengishækkun, sem þegar er orðin. Þess vegna álít jeg það meira en vafasamt, hvort óhætt sje að leggja það á bankana að taka við nýrri gengishækkun. Jeg hygg, að hinir væntanlegu reikningar bankanna nú verði til að staðfesta þetta enn frekar.

Þá kem jeg að sjöunda atriðinu, sem fyrir mjer er stærsta atriðið, en það er siðferðishlið þessa máls. Við höfum nú haft verðfasta peninga í 16 mánuði. Á þessum 16 mánuðum, sem krónan hefir verið föst, hefir ræktunarsjóðurinn lánað út á aðra miljón króna og veðdeildin, báðir flokkarnir, lánað út 4–5 miljónir, eða meira. Auk þess hafa vitanlega óteljandi aðrar skuldbindingar verið gerðar á þessu tímabili. Ef það á nú að fara að hækka krónuna ofan á þetta, þá verð jeg að segja, að með því er framið afskaplegt ranglæti, því lengur sem það tímabil stendur, sem krónan er verðföst, því meira ranglæti er að hækka hana. Jeg skal geta þess í sambandi við þetta, að jeg hefi tillögur í smíðum, sem jeg ætla að geyma mjer að koma með, þangað til jeg hefi heyrt undirtektirnar undir þetta mál. Tillögurnar ganga í þá átt, að ef íslensk króna verður hækkuð upp í gullgengi, þá skuli öll lán, sem veitt hafa verið úr ræktunarsjóðnum og veðdeildinni, nýja flokknum, lækkuð um 20%. Þessi lán hafa öll verið veitt í föllnum krónum, og það er ekki með sanngirni hægt að mótmæla, ef krónan verður hækkuð um 20%, þá er ríkið siðferðilega skylt til þess að lækka lánin að sama skapi. Hið eina, sem við þetta er að athuga, er, að það nær ekki til allra lána. Aðstaða ríkisins til 5. flokks veðdeildarinnar er sú, að ríkið kaupir veðdeildarbrjef fyrir 3 miljónir og lánar mönnum síðan út til verklegra framkvæmda og skattleggur þá síðan, ef það lætur krónuna hækka í gullverð, um 600 þús. kr., sem ríkið stingur í sinn vasa. Jeg leyfi mjer að kalla þá menn byltingamenn, sem vilja enn hækka á grundvelli þess, sem orðið er, þá menn, sem vísvitandi og með ráðnum huga vilja auka skuldir alsaklausra manna um 1/5 hluta og refsa þeim fyrir að stofna til verklegra framkvæmda, en gefa hinsvegar öðrum mönnum 20% í viðbót við það, sem þeir eiga fyrir. Ef það er að ástæðulausu gert, þá er það mikið siðferðisbrot, að fremja svo augljóst ranglæti sem það, að svíkja með ráðnum huga allar skuldbindingar, sem gerðar hafa verið á þessu tímabili. Jeg trúi því ekki fyr en jeg tek á, að reglulegt fylgi fáist á Alþingi Íslendinga til þess að fremja slíkt ranglæti. Þetta atriði verður sárara og viðkvæmara með hverju ári, sem líður.

Þá er áttunda atriðið, en það er, hvað við getum lært af því, sem gerst hefir með nágrannaþjóðum vorum síðan í fyrra. Tvær þjóðir, Frakkar og Belgir, hafa farið festingarleiðina. Þessar þjóðir hækka áreiðanlega ekki peninga sína. Hinsvegar hafa þrjár þjóðir, Englendingar, Danir og Norðmenn komið peningum sínum upp í gullgildi, með þeim árangri, sem ætti að geta orðið okkur Íslendingum til viðvörunar. Það kemur ljóslega fram, hve mikla áreynslu þetta kostar fyrir stórþjóðirnar. Englendingar fengu við þessa gengishækkun meiri blóðtöku en nokkru sinni síðan í styrjöldinni, það lá nærri borgarastyrjöld, og efnatjón manna varð ógurlegt. Í Danmörku var það „spekulation“, sem hækkaði krónuna. Útlendir menn fóru heim með miljónir króna í gróða, en landið stynur undir okinu. Danska stjórnin ætlar að færa niður útgjöld ríkisins um 60 miljónir króna. Þetta kemur sárt niður, en það er eina leiðin, sem hægt er að fara, þegar svona er komið, og við mundum verða að fara sömu leið, ekki síður en Danir. Leikur það mjög á tveim tungum, hvort Danir geti staðist raunina af gengishækkuninni, og þó er Danmörk eitt gagnauðugasta land álfunnar. Í Noregi var það líka „spekulation“, sem hækkaði krónuna. Þar er ástandið mjög alvarlegt, og eru margar sorglegar lýsingar á því í norskum blöðum. Norska bændablaðið, „Nationen“, kallar gengishækkunina þjóðarógæfu.

Þessi átta atriði hefi jeg viljað draga fram; þetta hefir maður lært á árinu sem leið, í viðbót við almennar ástæður, sem jeg bar fram í fyrra, og svo sjerstakar ástæður, sem eiga við okkar land. Jeg tel, því miður, líklegast, að þetta mál nái ekki fram að ganga nú, fremur en í fyrra. Grunur minn er sá, að stjórnin leggist þunglega á móti því. En jeg hefi samt talið mjer skylt að bera þetta mál fram, vegna þess að jeg álít það rjettlætismál og hið þýðingarmesta mál fyrir fjárhagslega afkomu okkar. Þó að þetta frv. nái ekki fram að ganga nú, þá vænti jeg, að það fái nú eitthvað jálegri atkvæðagreiðslu en í fyrra, svo að aðhald skapist fyrir stjórnina fram yfir kosningar. Um þetta mál á þjóðin að kjósa næsta haust. Það er stærsta fjárhags- og rjettlætismál, sem nú er á dagskrá hjá okkur. Þess vegna eigum við að láta afstöðu okkar koma skýrt í ljós og ræða þetta mál með festu og alvöru, með heill fósturjarðarinnar fyrir augum.

Að endingu óska jeg, að frv. verði vísað til fjhn.