14.03.1927
Neðri deild: 29. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í C-deild Alþingistíðinda. (3030)

79. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það mætti virðast óþarfi að eyða mörgum orðum að þessu frv. nú. Það var hjer til umr. á síðasta þingi og náði þá ekki fram að ganga. Það er ekki heldur borið fram í þeim tilgangi nú, að það nái að verða að lögum. Þetta var tekið fram af aðalflm. þess, hv. þm. Str. En það er nú svo, að það kann að vera fyrnt yfir það síðan í fyrra, hvað þetta frv. fer fram á, og þó sumt, sem jeg segi hjer, verði endurtekning á því, sem jeg sagði á síðasta þingi, þá get jeg þó ekki látið frv. þetta ganga í gegnum 1. umr., án þess að gera dálitla grein fyrir því, sem það fer fram á.

Frv. þetta kallar sig frv. til laga um stöðvun á verðgildi íslenskra peninga, en fyrirsögnin svarar ekki til efnis frv. Innihaldið fer ekki fram á stöðvun á verðgildi íslenskra peninga, heldur miðar það að því, að hleypa af stað nýju gengishringli. Það hefir orðið ofan á hjá sumum ófriðarþjóðunum að gefast upp við að færa hinn fallna gjaldeyri til gullverðs. En ennþá hefir slíkt ekki hent neina þjóð Norðurálfunnar, sem ekki hefir tekið þátt í stríðinu. En um allar þær stríðsþjóðir, sem hafa stigið þetta þunga spor, að stýfa gjaldeyri sinn, er það sama að segja, að gjaldeyrir þeirra hefir verið svo gerfallinn, að vonlaust hefir verið að reyna að rjetta hann við. Hjá þeim þjóðum, sem stöðvuðu sem næst sínu gullgildi, en það voru Belgir og Finnar, þar var gjaldeyririnn þó fallinn niður í 1/7 lögmæts gullgildis. Það er svipað því, sem okkar króna stæði í 14–15 aurum, í stað þess að hún stendur í 81½% eyri. Þegar þessar þjóðir höfðu ráðist í það, að verðfesta hinn fallna gjaldeyri sinn, þá hafa þær allar gert það á einn veg. Þær hafa fyrst reynt að halda peningunum um langan tíma í ákveðnu gildi, en síðan gert þá breytingu á peningalögum sínum, sem lögfestir peningagildið sem næst því gildi, sem verið hefir þennan reynslutíma. En það er eins dæmi, að slík leið sje farin, sem þetta frv. fer fram á. Hjer er byrjað á að skipa nefnd, sem á engan hátt getur talist hlutlaust skipuð. Seljendur erlends gjaldeyris yrðu fyrirfram í meiri hluta í nefndinni. Nefnd þessi á svo að sitja lengi á rökstólum, til þess að komast að hinu raunverulega gildi íslenskrar krónu. Þegar búið væri að skipa þessa nefnd, mundu menn geta vitað það fyrirfram, hvort niðurstaða sú, sem hún kemst að, yrði hækkun eða lækkun krónunnar. En í frv. er nú gengið þannig frá nefndarskipuninni, að mikil hætta er á því, að hún mundi komast að þeirri niðurstöðu, að ákveða krónunni lægra gildi en hún hefir haft þessa síðustu 16 mánuði. En er nú nokkur maður svo blindur að láta sjer detta í hug, að eigendur íslenskra króna og erlends gjaldeyris biðu aðgerðarlausir þennan tíma, sem nefndin sæti á rökstólum? Ætli þeir mundu ekki nota sjer þennan biðtíma sjer til hagsmuna við gjaldeyrisverslunina? Til þess að halda sjer að einhverjum tölum, þá skulum við gera ráð fyrir, að það væri vitanlegt, að sterlingspundið mundi hækka úr 22 upp í 24, er nefndin hefði lokið störfum sínum. Þá mundu allir þeir, sem eiga íslenska krónu, eða geta fengið hana að láni, biðja um sterlingspund á 22,15 fyrir hana, er þeir eiga von á því, að geta selt pundið fyrir 24 kr. daginn eftir að nefndin hefir lokið störfum sínum og kveðið upp úrskurð um gildi íslenskrar krónu. Hvernig fer nú, þegar þessi eftirspurn berst til bankanna? Geta menn búist við, að þeir þoli það til lengdar að láta taka út hjá sjer innstæður í íslenskum krónum, til þess að kaupa fyrir sterlingspund, sem bankarnir verða að fá að láni? Nú veit bankinn það, að hann verður að kaupa þau sterlingspund aftur á 24 kr., þegar nefndin hefir kveðið upp úrskurð sinn, en mismuninum stinga „spekúlantarnir“ í sinn vasa. Þannig geta engir seðlabankar í heiminum látið það ganga. Bankarnir verða tilneyddir að fella íslensku krónuna, til þess að verjast „spekulationum“, sem skapast af tilveru nefndarinnar. En þegar krónan byrjar að falla hjá bönkunum, hvar er þá grundvöllurinn, sem hægt er að byggja á útreikning á sannvirði krónunnar Jeg sje ekki, að nefndin geti þá gert annað en bíða og sjá, hvort krónan staðnæmist ekki einhversstaðar, til þess að fá tök á því, að ákveða eitthvert gildi krónunnar í samræmi við verðlagið í landinu. Þannig verður aðeins úr þessu nýtt gengishringl, sem enginn veit hvert leiðir. Engin þeirra þjóða, sem fest hafa gjaldeyri sinn, hafa leyft sjer að fara inn á þessa braut. Hvergi hefir verið borið fram frv., sem sýnir jafn algert skilningsleysi á þessum málum sem þetta. Jeg er ekkert hissa á því, að sjá nafn hv. þm. Str. sem flm. þessa frv., en jeg verð að segja, að jeg varð hissa, er jeg sá, að hv. þm. V.-Ísf. er einn af flm. Hann er of vel að sjer í þessum málum til þess, að láta nafn sitt sjást á slíku frv., sem, ef það verður að lögum, felur í sjer stóra hættu um að gengishringl komist á í stað stöðvunar. Þetta er meginþáttur frv., sem gerir það að verkum, að allir, sem skyn bera á þetta mál, hljóta að vera á móti því, þó þeir að öðru leyti vilji verðfesta íslenska peninga. Þótt jeg sje þeim mönnum ekki sammála, sem vilja verðfesta íslenska peninga, þá get jeg skilið þeirra hugsanagang, og þeir geta fært fram rök fyrir sínu máli. En þeir, sem vilja fara þessa fáránlegu leið, að stöðva verðgildi peninga með löggjöf, sem beinlínis býður „spekúlöntunum“ heim, þeir geta enga ástæðu fært máli sínu til stuðnings. Það hefir enginn orðað lagafrv. til þessa annar en hv. þm. Str.; því að þótt fleiri nöfn standi á frv., hefir hann áreiðanlega orðað hinar varhugaverðu hugsanir þess.

Næst langar mig til að víkja ofurlítið að sumu, sem hv. þm. Str. sagði í ræðu sinni. Raunar var það að mestu ekki annað en endurtekningar á því, sem hann hefir áður margsagt, og nákvæmlega jafnoft er búið að hrekja. En úr því að hann hafði nú enn yfir margt af því, neyðist jeg enn til að endurtaka sumt, sem jeg hefi áður sagt, en þó mun jeg gera mjer alt far um að vera stuttorður. Mun jeg sleppa alveg ýmsu, sem hv. þm. (TrÞ) sagði, og er það ekki af því, að það megi standa óhrakið, heldur af því, að ekki er ástæða til að hrekja það frekar en orðið er.

Háttv. þm. Str. byrjaði enn á því að lýsa viðburðum gengishækkunarinnar 1925, og gerði það enn rangt, eins og altaf áður. Ætla jeg að leiðrjetta frásögn hans, ekki til að firra mig ábyrgð, heldur til þess að einhversstaðar finnist rjett skýrt frá málinu.

Gengishækkunina 1925 bar þannig að, að einhverntíma vorsins varð samkomulag um það, milli gengisnefndar og beggja bankanna, að reyna að halda gengi á sterlingspundi óbreyttu, 26 kr. þangað til í miðjum september. Var það gert til þess að reyna að greiða fyrir afurðasölu landsmanna. En í ágústlok tilkynnir stjórn Landsbankans gengisnefnd, að sá banki sjái sjer ekki lengur fært að kaupa sterlingspundið fyrir 26 kr. þessa ákvörðun tók Landsbankastjórnin án íhlutunar landsstjórnarinnar og algerlega á sína eigin ábyrgð. Hefir ákvörðunin eflaust verið bygð á dómi hennar um ástandið, eins og það þá var orðið. Stjórn Íslandsbanka var óánægð með þessa ákvörðun og kvaðst vilja, að staðið yrði við fyrri fyrirætlanir. Bankinn sýndi þennan vilja sinn nokkuð í verki með því að halda áfram að kaupa sterlingspundið á 26 kr. í nokkra daga, eftir að Landsbankinn var hættur því. En það var aðeins í fáa daga, því að þá sá stjórn Íslandsbanka fram á, að hún megnaði ekki að kaupa öll þau sterlingspund, sem boðin yrðu til 14. sept., því að um þetta leyti var mikið framboð á erlendum gjaldeyri. Og þetta var yfir höfuð rjett álitið, því að þegar annar bankinn sá sjer ekki lengur fært að halda áfram gjaldeyrisversluninni, gat hinn ekki haft skyldu til að halda einsamall genginu í 26 kr., eftir fyrirætlununum, því síður sem hann gat ekki vænst þess, að fá aðstoð Landsbankastjórnarinnar til að halda sterlingspundinu í sama verði eftir 14. sept. — Af þessum ástæðum hætti Íslandsbanki líka að kaupa sterlingspund á 26 kr. — Íslandsbanki fór aldrei fram á aðstoð landsstjórnarinnar til að halda uppi verði stpd. — Hv. þm. Str. hefir margsinnis sagt, að Íslandsbanka hafi verið neitað um slíka aðstoð; en jeg hefi jafnan rekið það ofan í hann aftur. Það hefði heldur ekki verið skynsamlegt að veita slíka aðstoð með því að heimila bankanum að auka seðlaútgáfu sína til gjaldeyriskaupa.

Svo hjelt verslunin með stpd. áfram fyrir lægra verð en 26 krónur. Einu kaupendurnir voru bankarnir. Í gengisnefnd var jafnan mikil tilhneiging til að halda uppi verði á sterlingspundum. Um eitt skeið, nokkrum dögum seinna, var gerð tilraun til að halda stpd. í 24 kr., með gengisskráningunni einni, þrátt fyrir treðgu bankanna til að kaupa. Þá hjelt nefndin skráningunni í 24 kr. í nokkra daga, þótt hvorugur bankanna vildi í raun rjettri kaupa stpd. fyrir meira en 22 kr. Árangurinn varð aðeins sá, að þessa 3 eða 4 daga fór öll gjaldeyrisverslun fram fyrir utan bankana, uns gengisnefndin, með samhljóða atkv., að því er jeg best veit, flutti skráninguna niður í hið raunverulega gangverð. — Landsstjórnin hafði stutt að því, að gengisnefnd gerði þessa tilraun. En hún reyndist árangurslaus, og fult samkomulag var um það milli fulltrúa bankanna og landsstjórnarinnar í gengisnefnd, að ekki þýddi að reyna að halda uppi öðru verði á gjaldeyrinum en því, sem var í viðskiftum manna milli. — Þessa daga var ekki fáanlegt meira en 22 ísl. kr. fyrir stpd., og var jafnvel einu útlendu tilboði svarað með boði um kr. 21,80; en kaupin gerðust þó ekki á þeim grundvelli.

Svo kom að því, að gengisnefnd átti að koma saman á mánudag, og var vitanlegt, að hún mundi skrá stpd. eins og gangverð var. Hún hafði ekki vald til að skipa bönkunum að borga meira, og ríkisstjórnin vildi ekki kúga þá. En samt gekk stjórnin nú í málið og fjekk Landsbankann til samkomulags um að hækka skráningarverðið upp í kr. 22,50 og varð það úr í gengisnefnd. Fóru nú bankarnir að kaupa stpd. fyrir það verð.

Hreyfingin úr kr. 22,50 niður í kr. 22,15 gerðist með þeim nýju hreyfingum, um 10 og 15 aura í hvert sinn. Við allar þessar skráningar bar málið eins að í gengisnefnd. Fyrir lágu tilboð um stórar upphæðir af stpd., og bauðst stjórn Landsbankans til að kaupa helminginn, ef Íslandsbanki keypti hinn helminginn. En stjórn Íslandsbanka sagði nei. Þá sagði stjórn Landsbankans sem svo: Við sjáum okkur ekki fært að kaupa þennan gjaldeyri allan, nema verðið verði 10–15 aurum lægra á hvert stpd. Það gengi var svo skráð, en þó greiddi fulltrúi Íslandsbanka í gengisnefnd jafnan atkv. á móti nýju skráningunni. Hefi jeg aldrei fundið neina skýringu á þessu ósamræmi, að bankinn vildi ekki kaupa fyrir hið eldra verð, en fulltrúi bankans í gengisnefndinni greiddi þó atkv. á móti lækkun.

Því hefir verið haldið fram, að Íslandsbanki hafi á þessum tíma verið svo staddur, að hann hafi ekki getað keypt erlendan gjaldeyri í stórum stíl. Þetta er rangt. Bankinn hefir í mörg ár ekki átt meira ónotað af seðlalánum sínum hjá Landsbankanum heldur en einmitt þá. Þessa peninga hefði bankinn vel getað notað til gjaldeyriskaupa, en hann vildi það einhverra hluta vegna ekki.

Þessar síðustu hækkanir á gengi ísl. krónu voru því að forminu framkvæmdar þannig, að tveir gengisnefndarmenn, fulltrúar Landsbankans og landsstjórnarinnar, greiddu atkvæði með þeim, en fulltrúi Íslandsbanka greiddi atkvæði á móti. Þó vildi umbjóðandi hans, stjórn bankans, engan gjaldeyri kaupa fyrir óbreytt verð.

Jeg vil segja frá þessu hjer, til þess að einhversstaðar finnist sönn frásögn um þetta mál, sem leita má til, ef hv. þm. Str. fer enn á ný að strá út sínum villandi frásögnum um málið. — Það var þannig stjórn Landsbankans, og hún ein, sem átti upptökin að því, að gengi stpd. fjell úr 26 kr. Eftir þær traustsyfirlýsingar, sem hv. þm. Str. hefir nýlega gefið þeirri bankastjórn, hjer í hv. deild, held jeg að hún sje alveg einfær um að bera ábyrgðina á þessum ráðstöfunum sínum. Hitt skal jeg segja, að ef jeg hefði átt upptökin að þessum gerðum, þá þætti mjer sómi að. En þarna á stjórn Landsbankans heiðurinn, en ekki jeg.

Það er eins og hv. þm. Str. þyki undarlegt, að þessar erlendu inneignir bankanna 1925 skyldu eyðast aftur. En það er ekki undarlegt. Það er vitanlegt, að þetta voru ekki raunverulegar innstæður bankanna erlendis. Þeir eignuðust að vísu stpd. erlendis, en útlendir viðskiftamenn eignuðust tilsvarandi eignir hjer í ísl. peningum. Þetta er það, sem raunverulega er ástæðan til gengishækkunarinnar hjá öllum seðlabönkum. Jeg þykist nú vita, að vonlaust sje að ætla sjer að skýra fyrir hv. þm. Str., hvílík hætta getur stafað af of miklum inneignum útlendinga í bönkum landsins, og hver áhrif of mikið aðstreymi af erlendum gjaldeyri geti haft. Jeg þykist einnig vita, að árangurslaust sje að segja hv. þm., að það er þetta, sem neyðir bankana jafnan til að stöðva innstreymið með eina tiltækilega ráðinu, að hækka verð hins innlenda gjaldeyris.

En ef það gæti skeð, að hv. þm. Str. (TrÞ) mætti eitthvað læra, væri þó reynandi að segja honum, að æðimikið af þeim erfiðleikum, sem nú eru hjer á landi, og honum verður allra manna starsýnast á, stafa af því, að svona fje þarf einhverntíma að skila aftur. Það þurftum við að gera á árinu 1926, og við höfum þegar skilað miklu af því aftur og borgað með þeim afurðum, sem við fluttum út á árinu. Mesta hættan liggur jafnan í því, að þegar bankarnir fá svona mikið fje til umráða, þótt á óeðlilegan hátt sje, að þá sjeu þeir of greiðugir á útlán til fólksins og atvinnuveganna í landinu. Þegar bankarnir eru fullir af fje, er þess ekki gætt í eins ríkum mæli að neita um lán, eins og ef þeir væru tómir. En gallinn er sá, að þetta er innstæðufje útlendinga, sem þeir heimta, að skilað sje aftur, þegar þeim best hentar, og er þá ekki verið að spyrja að því, hvort íslenskum atvinnuvegum komi það betur eða ver að skila fjenu. Ef of mikið er keypt af stpd. fyrir það verð, sem útlendingar álíta sjer gróðavon að fá fyrir þau, verður afleiðingin sú, að meira fje berst til bankanna og frá þeim út til almennings en víst er, að hægt verði að borga aftur. Sem betur fer hefir ekki farið svona fyrir okkur. Við erum nú búnir að skila aftur því nær öllu fjenu, en við höfum tekið það nærri okkur. Og hefðum við haldið áfram að kaupa stpd. á 26 kr. haustið 1925, hefði okkur áreiðanlega borist meira en við hefðum verið menn til að skila aftur.

Mitt álit er því það, að hækkun á verði stpd. hafi verið óhjákvæmileg varnarráðstöfun til að firra bankana því, að kaupa of dýrt þá vöru, sem þeir vissu að þeir gætu svo ekki staðið í skilum með andvirði á.

Ef menn vilja líta í sögu gengishækkunarinnar í nágrannalöndunum, Danmörk, Noregi og Finnlandi, þá sjá menn, að hana hefir borið líkt að þar, en sá er munurinn, að þar hefir skilningurinn á þessum málum verið svo mikill, að þingmenn hafa ekki leyft sjer að ausa auri á þá, sem gert hafa hinar nauðsynlegustu ráðstafanir. Menn hafa borið sig misjafnlega vel undan gengishækkuninni, en hvergi hefir því verið haldið fram nema hjer, að hægt væri að verjast henni með því að kaupa erlendan gjaldeyri í vitleysu.

Hv. þm. Str. sagði frá því, sem sinni skoðun, að lítil von væri um, að krónan gæti haldist í núverandi gengi sínu, heldur mundi hún senn fara að falla í verði. Jeg verð nú að hryggja hv. þm. með því að segja honum að eftir því sem allar horfur eru nú, er fult útlit fyrir, að við getum haldið krónunni í sama verði. Ástæðan til þess er sú, að nú erum við búnir að borga erlendu innstæðurnar frá 1925, og verður ekki hægt að koma aftur og heimta borgun fyrir sterlingspundin, sem við keyptum þá. Erlendar innstæður í íslenskum bönkum eru minni nú en þær hafa verið í mörg ár. Og hver getur felt gjaldeyri okkar í verði, ef ekki eru útlendingar til að taka út innstæður sínar í íslenskum bönkum? Jeg fæ ekki sjeð, að það sje í nokkurra valdi annara en okkar sjálfra. Við gætum e. t. v. gert það með einhverri sjerstakri handvömm, en jeg sje enga ástæðu til að búast við slíku af bankastjórnum vorum. — Jeg held, að það væri best fyrir háttv. þm. Str. að sleppa öllum vonum um þetta, nema einhver af hinum fornu fjendum landsins, hafís, eldgos eða önnur óáran komi honum til hjálpar. Þá veit enginn hvernig fer.

Jeg vona, að það sje öllum hv. þdm. ljóst, að það er rangt hjá hv. þm. Str., að þessi 15 miljóna tilfærsla á erlendri inneign í bönkunum sje mynduð af tapi á þjóðarbúskapnum á árinu 1926. Enda þótt skýrslur um innflutning og útflutning sjeu ekki alveg nákvæmar, er það ljóst, að þær hljóta að fara mjög nærri sanni. Ef hv. þm. Str. vildi nú renna yfir þær öðru auganu, býst jeg við, að honum yrði það ljóst, að þessar 15 milj. kr. geta ekki verið nein mynd af tapi á þjóðarbúskapnum á árinu. Þær eru að miklu leyti mælikvarði þess, hvað við leyfðum okkur að fara langt haustið 1925 í því að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir verð, sem útlendum eigendum hans þótti gróðavænlegt.

Mjer þótti hv. flm. komast æðilangt frá frv. sínu, þegar hann fór að lýsa því yfir, að það væru verðfestingarmenn, sem stæðu í móti lækkun krónunnar. Jeg verð nú að segja, að þó að frv. hans sje langt frá því að standa í móti lækkun krónunnar, þá eru þessi orð hans skynsamlega töluð fyrir munn annara verðfestingarmanna, því að það er ekki nema eðlilegt, að þeir, sem á annað borð vilja festa gengið, geri sjer far um að krónan lækki ekki. Þetta skilur hv. þm. V.-Ísf., og kom greinilega fram í ræðu hans hjer á dögunum, að hann vildi ekki, að krónan lækki. En hvers vegna hann hefir þá gerst flm. að slíku frv. sem þessu, það skil jeg ekki. Það eiga allir að vera á einu máli um það og fylgja því fast fram, að krónan lækki ekki úr því, sem hún nú er. Þetta er svo sjálfsagður hlutur, að óþarft er að eyða frekar orðum að því að útlista það.

Þá fór háttv. flm. út í hag bankanna og málaði hag Landsbankans æði dökkum litum. Hann sagði, sem satt er, að varasjóður bankans mundi nema um 700 þús. kr., en gerði ráð fyrir, að hann mundi ekki hrökkva á móti töpum bankans. Þetta getur vel verið. En benda má þó á, að bankinn átti eftir síðasta reikningi sínum fjárhæð, sem hann var búinn að leggja til hliðar fyrir töpum. Svo á hann ennfremur 2 miljónir, sem er innskotsfje ríkissjóðs, ¾ þegar greitt, en ¼ trygður honum með sjerstökum lögum, og þessi upphæð er sjálfseignarfje bankans. Um hitt ætla jeg ekki að deila, hvort varasjóður muni hrökkva til þess að greiða töp bankans eða ekki.

Og það veit hv. flm. eins vel og jeg, að töp Landsbankans stafa ekki af gengishækkuninni 1925. Heldur væri nær að telja þau afleiðing af lækkun krónunnar 1919 og 1920, ef menn á annað borð vilja gefa peningasveiflum sök á því. Út frá þessum veiku ástæðum um tap Landsbankans dró hann þá ályktun, að ekki væri óhætt að leggja slíka ábyrgð á bankann, að ráða því, hvort krónan hækkar eða ekki. En þar er jeg á alt öðru máli. Jeg álít, að alt ákvörðunarvald í þessu efni eigi einmitt að vera í höndum beggja bankanna.

Og hv. þm. Str. getur ekki skoðað það sem vantraust á sjer frá minni hálfu, þó að jeg treysti bankastjórunum betur en honum til þess, að meta, hvort bankarnir á sínum tíma láti krónuna hækka eitthvað. Því það gætu komið þeir tímar, að bankarnir telji minni hættu á að kaupa sterlingspd. lægra verði en verið hefir áður. Jeg verð því að telja það öllum fyrir bestu, að ákvörðunarvaldið í þessu efni sje hjá þeim, sem ábyrgð bera á rekstri atvinnuveganna, en það eru bankarnir eða stjórnir þeirra.

Þá vjek hv. þm. Str. að því, sem hann taldi siðferðishlið málsins. Þótti honum koma ranglæti niður á þeim mönnum, sem tekið hafa lán með lágu gengi, ef krónan á að hækka. Um þetta má lengi deila og hefir lengi verið gert. En að því er snertir hinn lagalega rjett, sem löggjafarnir verða að líta á, og framkvæmdarvaldið verður líka að líta á, sem sje það, að allir þeir, sem tekið hafa lán í peningastofnunum landsins síðan 1919, eiga að vita. að íslensk króna er ekki á þessum tíma í löglegu gullgildi, og að allar ráðstafanir, sem þessi ólögmæta lækkun byggist á, eru bráðabirgðaráðstafanir. Þess vegna hafa allir lántakendur orðið að reikna með því, að þeir verði á sínum tíma að svara aftur sínu lánsfje í löglegu gullgildi, ef rás viðburðanna vildi láta svo við horfa. Þetta er sú lagalega hlið málsins, sem ekki verður komist hjá að reikna með. Annars þótti mjer vænt um að heyra, að sú hugsun hefir komist inn í huga hv. þm. Str., sem rjett er að hver og einn beiti við athugun þessa máls. Það er nú svo um innlend lán, að þau eru eingöngu tilfærsla verðmiðils frá einum borgara til annars, og af því að hjer er ekki um hættulegra að ræða, þá er það á löggjafarvaldsins færi að draga úr þeim erfiðleikum, sem gengishækkun hefir í för með sjer.

Þegar hv. flm. er að tala um, hvað gera eigi fyrir þá lántakendur veðdeildar og ræktunarsjóðs, sem þegið hafa lánsfje með lágu gengi, en svo hækki krónan, þá tel jeg, að hann sje á rjettri leið og sje að athuga þau ráð, sem rjett og vert er að athuga: að láta krónuna bakka, þegar tími er til kominn, en athuga þó jafnframt, að hækkunin valdi ekki miklu misrjetti milli manna innan þjóðfjelagsins. Mjer er ánægja að ræða þessa hlið málsins við hv. þm. Str., hvenær sem hann vill, en tel ekki ástæðu til að ræða hana í sambandi við þetta frv., hvaða skil lántakendur geri ræktunarsjóði á sínum tíma. Þó benti hann rjettilega á 5. fl. veðdeildarbrjefa í þessu sambandi, því rjett er að taka til athugunar, ef krónan stígur í gildi, að tap lántakenda lendi ekki með tilsvarandi gróða hjá ríkissjóði, vegna þess að honum er skilað fje með hærra gengi en hann lánaði það.

Hv. þm. Str. fór mörgum orðum um það, hvað mikið hann hefði lært frá því í fyrra þessu máli viðkomandi. En jeg verð nú að segja honum, að mjer finst hann ekki hafa lært annað en þetta, sem jeg tók nú fram. Hann hefir fest sig um of við nútíðina og þá erfiðleika, sem atvinnuvegirnir eiga við að búa, en lítur ekki fram í tímann, nje reynir að gera sjer ljóst, að úr muni rætast á annan hátt en hann vill vera láta. En þegar hann snýr af þessari villubraut, sem hann hefir nú gengið í 2–3 ár, og snýr sjer að okkur hækkunarmönnum, þá skal jeg ræða við hann, og það af fúsum vilja, um hækkun krónunnar á þeim grundvelli, sem öllum þegnum þjóðfjelagsins er fyrir bestu. Það, sem skilur, að hv. þm. Str. stigi þessi millispor, er það, að hann einblínir eingöngu á þá erfiðleika, sem fylgja hækkuninni í bili, og þeir hafa vaxið honum svo í augum, að hann sjer ekki aðra leið færa en að festa gengið. En jeg er þeirrar skoðunar, að úr þeim erfiðleikum, sem gengishækkun veldur, megi mikið draga með góðum vilja.

Það, sem aðallega skilur götu okkar hv. þm. Str., er það, að jeg er þeirrar skoðunar, að ef við tökum okkur eina út úr öðrum hlutlausum þjóðum á Norðurlöndum og stýfum gjaldeyri okkar, þá muni af því leiða svo mikil álitsspjöll, að það verði okkur margfalt þungbærara og dýrara en erfiðleikar þeir, sem gengishækkun veldur í bili. Slík ráðstöfun um innanhússmálefni íslensku þjóðarinnar, mundi ekki aðeins skapa okkur vantraust og álitsspjöll um langan aldur, heldur mundu þau gera okkur erfitt fyrir að fá frá útlöndum það lánsfje, sem þörf er á, til þess að framfarirnar verði það hraðstigar, sem landsmenn óska eftir. Og jeg er ekki einn um þessa þekkingu eða skoðun á gengismálinu. Fulltrúi okkar í Kaupmannahöfn, Jón Krabbe, hefir fyrir löngu látið þá skoðun í ljós við mig, að svo framarlega að myntsamband Norðurlanda, eða ríkin, sem í því eru, Noregur, Svíþjóð og Danmörk, hækki sína krónu upp í gullgengi, og við þá ekki fylgjumst með og hækkum okkar krónu líka, muni margskonar álitsspjöll og erfiðleikar mæta okkur, sem ómögulegt er að sjá fyrir, hvaða tjóni muni valda.

Mjer er ekki gjarnt að slá á strengi tilfinninganna í opinberum málum. Þó verð jeg að kannast við, að þetta mál er að nokkru tilfinningamál fyrir mjer. Á meðan deilurnar um sjálfstæðismál þjóðarinnar stóðu yfir, fylti jeg þann flokk manna, sem fara vildi hægar og ekki taka stökkið of stórt í einu. En nú, þegar við höfum stigið sporið og fengið fullveldi okkar viðurkent, þá þoli jeg ekki sársaukalaust, að neitt það sje gert af okkar hálfu, sem orðið gæti þess valdandi, að spilla áliti okkar í augum annara þjóða.

Við, sem tókum við fullveldinu 1918, höfum þeim skyldum að gegna að vaka yfir því og vernda á allan hátt. Eftirkomendur okkar eiga heimting á því, að við sýnum það í verkinu, að við sjeum færir um að gæta fullveldis okkar og höfum ekki að augnagamni neitt það, er kasti rýrð á það.

Það er mín skoðun, að við mundum ekki geta gert neitt til að baka okkur meiri álitshnekki en það, ef við sýndum í verkinu, að við værum ekki færir um að halda okkar gjaldeyri í fullu gullverði.