14.03.1927
Neðri deild: 29. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í C-deild Alþingistíðinda. (3032)

79. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg hafði ekki ætlað að taka til máls við þessa umr., en þar sem jeg er einn af flm., þá neyðist jeg til að svara nokkrum orðum sumum þeim aðfinslum, sem hæstv. forsrh. bar fram við þetta frv.

Fyrirsögn frv. er sú, að þetta sje frv. til laga um stöðvun á verðgildi íslenskra peninga. En hæstv. forsrh. heldur því fram, að þetta sje frv. til laga um nýtt gengishringl. Nú vil jeg vekja athygli hv. deildar á því, að hringl og hreyfing er ekki eitt og hið sama. Sú stöðvun, sem frv. gerir ráð fyrir, mundi sennilega byrja með nokkurri hreyfingu; en ef sú hreyfing er gerð í vissum tilgangi, þá er ekki um hringl að ræða. Það er ekki frekar hringl að láta hið skráða gengi nálægjast hið raunverulega gengi, heldur en það er hringl, að vatnið rennur niður á við og reykurinn stígur upp. Þetta er hreyfing, sem hefir við rök að styðjast, en ekki hringl.

Hæstv. ráðh. kvaðst vart skilja í því, að jeg, sem hefi nýlega lýst yfir því, að jeg vildi ekki verða þess valdandi, að gengið hryndi — skyldi geta verið meðflutningsmaður að öðru eins frv. Í sambandi við lánsábyrgð fyrir Landsbankann gat jeg þess einmitt, að jeg mundi ekki fylgja neinu því, sem gæti valdið gengis-„hruni“; en aftur á móti gæti jeg fylgt þeim breytingum, sem gerðar væru af þjóðhagslegum ástæðum og með festingu fyrir augum. Sem sagt, hringl og hrun eru andstæður festingarstefnunnar; en breyting í áttina til kaupmáttarjafngengis er höfuðtrygging fyrir því, að tilraunir til festingar gengisins hepnist. Það er sem sje ekki nóg, að samþykkja, að nú skuli krónan fest. Hún er ekki föst þar fyrir. Það þarf að skapa hagstæð skilyrði, rjett eins og fyrir hækkun. En það er miklu hægra viðureignar að skapa skilyrði fyrir festingu heldur en fyrir hækkun.

Þetta er frv. til laga um stöðvun á verðgildi ísl. peninga; og að sú stöðvun á að byrja með nokkurri breytingu í áttina til kaupmáttarjafngengis, miðar til þess eins að gera stöðvunina enn öruggari. En þar fyrir skal jeg ekki segja, að það sje útilokað, að hægt sje að stöðva í núverandi gengi, þrátt fyrir það, að það er ekki í samræmi við sanngengi. Jeg hefi á síðasta ári boðið það til samkomulags, og er nú enn frekari ástæða til þess fyrir okkur festingarmenn að bjóða þá samninga enn þá, þar sem þessi skráning hefir nú staðið árinu lengur. Enda vita hækkunarmenn, að þetta tilboð stendur, þó við höfum borið frv. fram í sinni gömlu mynd.

Hæstv. ráðh. hjelt því fram, að það væri fásinna að bera fram frv. um festingu á þessu stigi málsins, og taldi það til, að hvorki Finnar nje Belgir hefðu farið svo að. Er það mála sannast. Þeir báru ekki fram frv. og samþyktu ekki lög um þessi efni fyr en að myntlagabreytingunni var komið. En það stafar af því, að hjá Finnum og Belgum hafa seðlabankastjórarnir haft forustuna og ríkisstjórnirnar; þær gátu unnið að festingu, og þurftu enga þingsamþykt fyr en að lokastigi málsins var komið. Ef okkar íslenska seðlabankastjórn — en jeg held fram, að Landsbankin sje og hafi verið um nokkurn tíma seðlabanki okkar — ef hún hefði haft forustuna í festingar-pólítíkinni, þá hefði ekkert frv. þurft að bera fram, fyr en gerð verður breyting á myntlögunum. En myntlagabreyting er ekki varleg, fyr en skráð gengi er búið að standa fast 1–5 ár. Það hefði verið það langbesta og hagfeldasta, til þess að ná tilgangi festingarmanna. En þegar þetta nú bregst og forustan fæst ekki úr þeirri átt, sem hennar ætti helst að vera að vænta, frá landsstjórn og gengisnefnd, þá verða þingmenn að taka til sinna ráða. Og það, sem við höfum gert, bæði á þinginu í fyrra og nú, það er að bera fram frv. um þá stefnu, sem við hefðum óskað, að seðlabankastjórnin, gengisnefnd og landsstjórnin hefði haft frá því fyrsta. Ef þær hefðu frá upphafi tekið þessa stefnu, þá má vel vera, að við hefðum verið svo gæfusamir nú, að í stað þess að samþ. lánsábyrgð og deila um hækkun og festingu, hefðum við getað samþ. frv. um breytingu á sjálfum myntlögunum á þessu þingi — frv., sem hefði lofað festu og öryggi fyrir atvinnuvegi og viðskiftalíf og hefði átt eins lítið skylt við þau frv., sem nú eru rædd í þinginu, eins og velgengni á við hallæri.

Hæstv. fjrh. lagði áherslu á það, að hjer mundi alt verða vitlaust í gjaldeyrisversluninni, ef frv. yrði samþ., svo sem það er, og viðurkendi, að sanngengi væri nú lægra en hið skráða gengi. Mjer virtist hæstv. forsrh. ekki gá vel að því, hvaða verði hann kaupir þessa röksemd. Eftir 16 mánaða fast gengi ætti ekki að vera svo mikið ósamræmi milli hins skráða gengis og verðlagsins í landinu, eða sanngengisins, að alt þurfi að verða vitlaust, þótt gengið væri fært í raunverulegt horf. Að minsta kosti ættu hækkunarmenn ekki að halda því fram, því að það er rothögg á þeirra stefnu. En sannleikurinn er sá, að eftir 16 mánaða gengiskreppu hefir ekki tekist að skapa það samræmi, sem ruglaðist af gengishækkuninni 1924 og 1925. En úr því að þetta ósamræmi er, þá get jeg ekki skilið, að hæstv. forsrh. geti haldið því fram í alvöru, að við getum haldið áfram að hækka úr því gengi, sem nú er. Hann sagði að vísu, að við hefðum skilað öllum útlendum inneignum, er hjer voru 1925. Þetta getur verið, en þó hefi jeg ekki frjett um aðrar nje meiri fjárhæðir en 40 þús. sterlingspund, og það eru engin ósköp. Og jeg hefi hugsað mjer þá skýringu á hinum óhagkvæma greiðslujöfnuði s. l. ár, að hagurinn hefði verið verri 1925 heldur en látið er í veðri vaka. Erlent fje streymir þá inn, vegna sífeldrar hækkunar, en innlent fje stöðvast, vegna vonar um hækkun. Árið 1926 er þetta öfugt; þá streymir innlenda fjeð út. Og þessi gagnstæða hreyfing getur skýrt hinn mikla mun, sem varð á verslunarjöfnuðinum árið 1926, án þess að grípa þurfi til „stórra erlendra inneigna“ til skýringar.

En hvað sem þessu líður, þá er það ekki nægileg ástæða til þess að halda genginu háu, þótt við höfum skilað einhverjum inneignum aftur. Við verðum að gæta að kaupmáttarjafngenginu, við verðum að gæta að því, að hægt sje að framleiða vörur í landinu með þeim tilkostnaði, að það borgi sig að flytja þær út. Það hlýtur óhjákvæmilega að trufla gengið, ef atvinnuvegirnir bera sig ekki og lánstraust okkar erlendis bílar. Lækkun getur orðið ókleift að hindra, ef illa fer, en hækkun er altaf hægt að komast hjá, ef viljinn er til. Og er það aðalástæðan til þess, sem jeg áðan nefndi, að ekki er vert að hrapa að myntbreytingu fyrir tímann.

Þótt við viljum viðhalda genginu með lántökum, þá er ekki sannað, að það takist. Ef verðlagið innanlands breytist ekki í samræmi við gengið, þá verður eina ráðið að breyta genginu og skapa þannig jafnvægi. Og það hvílir sú mikla ábyrgð á stjórn Landsbankans, sem nú ræður mestu í gengisnefnd með landsstjórninni, að breyta genginu áður en í óefni er komið. Það þarf að breyta genginu meðan við höfum nógan kraft til þess að ráða einhverju um breytinguna.

Landsbankastjórn og hæstv. landsstjórn verða að líta vel í kringum sig í þessum efnum, því að ábyrgðin, sem á þeim hvílir, er ekki horfin, þótt svarað hafi verið út þeim inneignum, sem útlendingar kunna að hafa átt hjer.

Mjer virtist á ræðu hv. þm. Str. sem einhver brú lægi milli skoðana þeirra, hæstv. forsrh. og hans, og þeir þyrftu ekki annað en ganga sinn út á hvorn enda, til þess að geta tekist í hendur. Þetta vissi jeg ekki fyr. Þó hæstv. forsrh. óski þess að semja á þessum grundvelli, að bæta örfáum, til dæmis ræktunarsjóðs- og veðdeildarlántakendum, upp tap, sem þeir hafa á hækkun — þá þarf engar vonir að gera sjer um það, að festingarmenn gangi frá grundvallarstefnu sinni til að ná því broti af rjettlætinu. Slíkir samningar, sem raunar koma ekki til, væru líkastir því, ef Framsókn fengi Íhaldið til að ganga inn á að færa kosningarrjett í sveitum niður í 21 ár, gegn því, að íhaldið fengi að halda 25 ára lágmarkinu í kaupstöðum. Allir jafnir fyrir lögunum! Það gerir málstað hækkunarmanna ekki betri, þótt þeir vilji rjetta hlut eins, sem getur best sannað með tölum sinn skaða, en neita öllum öðrum um rjett sinn. Og ef ekki er tekið jafnt tillit til allra hjer á þingi, þá gerir Alþingi sig — eða hluti þess — að dómara, er segir um tvo málsaðila, sem báðir hafa jafnmikið til síns máls, að annar sje sýkn en hinn sekur. Það er fullkomin rjettlætiskrafa, sem kemur fram frá atvinnuvegunum, um lækkun á gengi. Og jeg þekki ekki aðra leið rjettari en að láta eitt yfir alla ganga, með því að festa gengið sem næst núverandi sanngengi. Heilbrigð skynsemi krefst þessa. Hjer þýðir ekki að tala um tilfinningar einar og stolt fyrir þjóðar sinnar hönd, og að þjóðin heimti að krónan skuli komast upp í gullgengi!

Það hefir verið minst á góðan mann, Jón Krabbe, sem álítur, að það muni skaða lánstraust okkar, ef við festum gengið. En það má benda á hundrað fyrir einn meðal þjóðhagsfræðinga, sem eru á alveg gagnstæðri skoðun, og meðal þeirra eru heimsfrægir fjármálamenn. Þeir halda því fram, að lánstraust aukist við það, að verðfest sje gildi peninga. Á alþjóðafundi fjármálamanna, var skorað á þjóðirnar að festa gengi peninga sinna. Það er hægt að fá orð fjölda fjármálamanna fyrir því, að lánstraust vort sje komið undir því. hve „solid“ viðskifti vor eru, og því fyr sem festing á verðlagi og gjaldeyri kemst á, því traustari og ábyggilegri verða viðskiftin. Erlendar lántökur fara ekki eftir þjóðarstolti, tilfinningum eða neinu slíku, heldur er um þetta eitt spurt: hver er tryggingin? Fram hjá þeirri spurningu verður ekki komist. — Það er satt, að hæstv. forsrh. skírskotar meir til tilfinninga í þessu máli en öðrum. það er ógæfa hæstv. ráðh., að hann flýr hjer inn á þau svið, þar sem hann er ekki sterkastur, og frá skýrum málsrökum, sem annars eru honum eiginlegust. Sem hækkunarmaður nýtur hann ekki sinna góðu gáfna, af því að þau rök, er hann af skynsemi sinni sjer fult svo vel sem nokkur annar, getur hann ekki notað sakir málsstaðar, sem hyggist á tilfinningum og misskildu stolti. Það er nú hans sorgarsaga í þessu máli. Að minsta kosti er svo háttað skilningi mínum á innræti hans og eðli gengismálsins.

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka til máls. En vegna þess, hve hæstv. forsrh. tók þunglega í frv., taldi jeg mjer sem flm. skylt að verja málstað minn. Jeg sje ekki, að hann hafi bent á neina stórvægilega galla á frv.; smávægilegar athugasemdir, sem jeg viðurkenni, má lagfæra með lítilfjörlegmn breytingum á samtengingum og atviksorðum.