15.03.1927
Neðri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í C-deild Alþingistíðinda. (3034)

79. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Allur dagurinn í gær fór í umræður um þetta mál, sem vitanlega er alveg þýðingarlaust að bera fram, þar sem það nær ekki samþykki á þessu þingi og verður því bara til þess að lengja þingtímann. Nú veit jeg, að það er mjög almennur vilji kjósenda, að reynt verði að haga störfum þingsins svo, að það verði styttra nú en undanfarin ár. Og jeg ætla að taka það tillit til þess almenna vilja, að af minni hálfu mun jeg ljúka umræðum um þetta mál við þessa 1. umr. og gefa sem minst tilefni til þess, að umræður um það haldi áfram.

Hv. þm. Str. vildi bera á móti því, og kenna það minni vanstillingu, að jeg lagði þann skilning í frv., að þar sje ekki farið fram á stöðvun, heldur gengisbreytingu, sem, eftir því sem til hennar er stofnað, óhjákvæmilega leiðir af sjer gengisspákaup og gengishringl. Jeg fjekk staðfestingu á þessari skoðun minni frá hv. þm. V.-Ísf., þar sem hann viðurkendi, að stöðvunin eigi að byrja með nokkurri hreyfingu. Enda stendur þetta berum orðum í frv. sjálfu. Það á að færa gildi krónunnar til annars gengis en nú er. Það er þýðingarlaust fyrir hv. þm. Str. að mæla á móti þessu. En þær ályktanir, sem jeg dró af frv. um væntanlega „spekulation“ og sveiflur, umfram það, sem frv. gerir ráð fyrir, eru ómótmælanlegar, því að veik er sú mótbára hv. þm., Str., að aldrei sje „spekúlerað“ í gengisbreytingum, nema í gengishækkun. (TrÞ: Það hefi jeg ekki sagt). Jæja, það verður þá væntanlega numið burtu úr ræðu hans í þingtíðindunum. Jeg hefi skrifað það upp eftir honum. Annars má í þessu sambandi minna á gengisviðburðina í Belgíu. Seint á árinu 1925 var ákveðið að festa frankann í 17 aurum. En það var um seinan, svo að gengis-„spekulationin“ kastaði sjer yfir gjaldeyrinn og feldi hann til hálfs úr því fyrirhugaða stýfingarverði.

Hv. þm. Str. þótti jeg vera að bjóða heim gengis-„spekúlöntum“. En jeg hefi ekki sagt neitt, nema það, sem allir vita og hafa horft upp á í öðrum löndum. Það er ekkert nýtt fyrir neinum, sem verslar með gjaldeyri. Það er ekki jeg, sem kveð upp þann dóm, að sú breyting, sem frv. fer fram á, sje lækkun, heldur öll fortíð og aðstaða flm. og þeirra ummæla, sem sýna, að þeir ætla ekki að byrja með að færa gengi krónunnar upp, heldur niður. Þetta kom fram hjá háttv. þm. V.-Ísf. Þeirra fyrirætlanir eru ekki minn dómur.

Að síðustu ætla jeg að minnast á þeirra einu höfuðröksemd, sem að frv. standa. Þeir fara út á svið tilfinninganna og segjast hafa siðferðisrjettinn sín megin. Jeg held, að þetta sje æði mikill misskilningur, sem komi af því, að þeir tala of mikið um þetta mál við þá, sem eru þeim samdóma, en of lítið við hina. Það mesta ranglæti, sem nokkur maður hefir orðið að fremja í sambandi við gengismálið, er að taka rjettinn til þess að fá gullgildi krónunnar frá innstæðumönnum, sem 1914 og 1915 eða áður hafa lagt fje í sparisjóð í því trausti, að löggjafarvaldið sæi um, að krónan hjeldi ákveðnu gullgildi. Það er ekki hægt að benda á neina borgara í þjóðfjelaginu, sem verða fyrir eins miklu ranglæti af hækkun krónunnar, eins og þessir menn verða fyrir, ef krónan verður stýfð. Þeir hafa allan rjett, lagalegan og siðferðilegan, sín megin, óskertan af eigin tilverknaði.

Nei, það er best að tala varlega um siðferðisrjettinn, því að sá siðferðisrjettur, sem stýfing og þar af leiðandi ríkisgjaldþrot, byggist á, er alveg sjerstakrar tegundar. Á jeg þar við, að ef stýfing er gerð, án þess að þjóðfjelagið vegna getuleysis sje til þess neytt, því að getuleysi losar við öll ámæli, þá er siðferðisástand þess, sem stýfir, eins og óreiðumannsins, sem gefur sig upp sem gjaldþrota að nauðsynjalausu, annaðhvort af því að honum finst það þægilegra, eða þykir þeir, sem eiga fje hjá honum, ekki vera nógu vel að því fje komnir. En það var einmitt höfuðröksemd stýfingarmanna á fundinum í gær, að af því að innstæðumenn væru ekki nógu vel að fje sínu komnir, þá væri líka siðferðilega rjett af skuldunautum þeirra að draga af þeim. Ef þjóðfjelagið ætlar að byggja upp nýjan siðferðisgrundvöll, er ekki annars að vænta en að einstaklingarnir feti í fótspor þess. Hinn nýi siðferðisgrundvöllur verður siðferðisgrundvöllur óreiðumannsins.

Jeg vil taka það fram, að alt þetta á einungis við, ef gjaldeyririnn er stýfður án getuleysis til hins gagnstæða. En í mínum orðum felast engin ámæli til neins, sem hefir ratað í þær raunir, að verða að stýfa.

Þá er þetta mál útrætt af minni hálfu, og þó að það fari til nefndar, vænti jeg að nefndin stilli svo til, að það þurfi ekki að eyða fleiri dögum af tíma þingsins.