15.03.1927
Neðri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í C-deild Alþingistíðinda. (3035)

79. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Halldór Stefánsson:

Þó að jeg hafi skilið, að það sje ekki velkomið að lengja umr. meira en orðið er, og þó að jeg viðurkenni, að ekki beri að eyða tíma þingsins að óþörfu, þá getur það ekki átt við um þetta mál, sem er eitt af stærstu málunum, sem fyrir þinginu liggja, mál, sem snertir lífshagsmuni þjóðarinnar hvernig reiðir af. Hæstv. ráðh. (JÞ) hefði vel mátt gæta þess í upphafi, að tala ekki þannig, að ástæða væri til málalenginga. En það gat nú ekki lánast. Hæstv. fjrh. rjeðst freklega að frv. í fyrri hluta frumræðu sinnar, og vjek síðan að ýmsum höfuðatriðum málsins. Hann bjó sjer til grundvöll, til þess að geta staðið betur að vígi með að hrekja frv. sem mest.

Aðfinslur hæstv. ráðh. við frv. snerust eingöngu að nefndarskipun þeirri, sem frv. gerir ráð fyrir, til að rannsaka, hvert sje raunverulegt gildi peninganna í viðskiftum innanlands gagnvart kaupmætti erlendis, og taldi það vera sama sem að fella krónuna. Í þessari ásökun hæstv. ráðh. felst viðurkenning á því, að gildi hennar sje nú of hátt. Hann vildi styðja þetta með því að segja, að seljendur innlends gjaldeyris væru í meiri hluta í nefndinni og mundu því fella krónuna. Þennan meiri hluta fann hæstv. fjrh. út með því að gera fulltrúa bankanna að seljendum. Þetta er ekki rjett. Bankarnir eru aðeins milliliðir; þeir eiga ekki það fje sjálfir, sem þeir fá fyrir þann íslenska gjaldeyri, sem þeir selja. Auk þess er það vitanlegt, að stefna bankanna er sú, að hækka gengið. Þetta eru tilbúnar ástæður hjá hæstv. fjrh., til þess að fá höggstað á frv.

Þrátt fyrir þetta get jeg lýst því yfir, að jeg fyrir mitt leyti er fús til samkomulags við hækkunarmenn að festa krónuna rannsóknarlaust, í núverandi gildi hennar. Svo langt sje jeg mjer fært að ganga til samkomulags.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. forsrh. sagði um gengismálið sjálft, en mun þó ekki blanda mjer í deilu hans og hv. þm. Str. um hin sögulegu atvik frá 1925.

Hæstv. forsrh. hefir manna mest talað og ritað um þetta mál, og hefir öll málafærsla hans við þessa umr. málsins verið í samræmi við það, sem hann hefir jafnan um það sagt. En nú — eins og jafnan áður — voru tveir veikir punktar í röksemdafærslu hans. Hann heldur því sem sje fram, að ekki sje hægt að standast aðstreymi erlends fjármagns og verjast hættu af því, nema með því einu móti að hækka krónuna, eins og gert var sumarið 1925. Þetta eru yfirskinsástæður einar, marghraktar, bygðar á því, að bönkunum sje ekki trúandi til að gera skyldu sína og fara með þetta fje, án þess að af því stafi vandræði á einhvern hátt, t. d. með því að festa það að meira eða minna leyti í útlánum o. fl. Auk þess verð jeg að telja þetta ógætilega sagt, því auk þess sem það er beint vantraust á hyggindum og skyldurækni bankanna, þá er með því boðið heim erlendu „spekulations“- fje, með því að auglýsa úr ráðherrastóli, að því sje gróðinn vís, hvenær sem því þóknast að koma. Á það hefir verið bent áður, hvernig verjast megi hættu af of miklu innstreymi erlends gjaldeyris, án þess að hækka krónuna. Fyrst er það, að bankarnir hafa einir ákvörðunarvald um það, hve háa vexti þeir vilji borga af slíku fje. Sömuleiðis hafa þeir einir ákvörðunarvald um það, hvort eða hversu mikið þeir binda í útlánum af þessu fje. Þeir geta geymt fje, án þess að biða af því nokkurt tjón, t. d. keypt fyrir það auðseljanleg erlend verðbrjef, sem þeir hefðu engu minni — eða jafnvel hærri — vexti af en þeir þyrftu að svara, þótt þeir geymdu það á hlaupareikningi. Þetta eru því alt tilbúnar ástæður hjá hæstv. forsrh., færðar fram með þeim málstað, sem annars væri með öllu óverjandi. Að þessi kenning hæstv. ráðh. sje rökvilla, sjest meðal annars best á því, að ef hún væri rjett, þá væri ekki hægt að stöðva krónuna í gullgildi. Mætti þá, hvenær sem erlendu fjármagni þóknast að græða, reka hana upp, alt svo lengi sem nokkur gróðavon væri, þangað til allir atvinnuvegir lægi í rústum.

Hinn veiki punkturinn í röksemdafærslu hæstv. ráðh. var sá, að tjón það, er við mundum hljóta af stýfingunni, væri meira en það, sem ynnist. Og það tjón taldi hann vera álitsspjöll og lánstraustsspjöll erlendis, og þar af leiðandi dýrt lánsfje. Við þessu er það fyrst að segja, að við þurfum minna á lánstrausti að halda, ef við festum okkar gjaldeyri og byggjum okkar atvinnulíf á þeim mun öruggari grundvelli sem verðfestir peningar eru öruggari grundvöllur en reikulir eða hækkandi peningar. Auk þess byggist lánstraustið fyrst og fremst á hag atvinnulífsins, hversu vel er við atvinnuvegina búið og hve föstum fótum þeir standa. Og um það hafa hinir erlendu lánardrotnar fulla vitneskju.

Að við ættum ekki kost á nema dýru lánsfje, má vel vera. En þá ber að athuga það, hve ódýrt það fje er, sem við höfum nú undir þessari hækkunarstefnu. Almennir útlánsvextir eru nú 7–8%. Við þá má svo bæta þeim mismun, sem er á milli gullgengisins og núverandi gengis, sem er um 22%, og sje svo gert ráð fyrir, að hækkunin fari fram á 10 árum, bætast 2,2% að meðaltali við þá vexti, sem nú eru. Hinir raunverulegu vextir yrðu þá 9–10%. En fari hækkun krónunnar upp í gullgengi fram á einu ári, verða vextirnir um 30% það árið. Jeg fæ nú ekki sjeð, að þótt hækkunarstefnunni sje framfylgt, þá fáum við ódýrt lánsfje til þess að starfa með. Þvert á móti. — Annaðhvort fengjum við engin lán, eða við fengjum þau með betri kjörum en þetta.

Þá er að minnast á álitsspjöllin, sem hæstv. ráðh. talaði um.

Hæstv. ráðh., sem vanur er að tala rökvíslega, brá vana sínum og fór að tala af tilfinningu. Um það er ekkert að sakast. Tilfinningarnar eiga sinn rjett á sjer. En jeg held bara, að tilfinningar hans hafi ekki leitt til rjettrar niðurstöðu, því jeg lít svo á, að rjettmætt álit á okkur byggist á því, hve þróttmiklu menningarlífi við lifum, efnalega og andlega, en ekki á því, hvort við festum eða hækkum peningana. Og meðan lausagengi peninganna liggur eins og mara á atvinnuvegunum, er þess síst að vænta, að við lifum þróttmiklu eða frjósömu menningarlífi. Jeg hefi ekki orðið var við, að þær þjóðir, sem stýft hafa gjaldeyri sinn, og jafnvel felt hann alveg, eins og t. d. Þjóðverjar gerðu, hafi liðið nein álitsspjöll við það. Og það er víst, að hagur Þjóðverja stæði ver nú og þeir haft minna traust og álit, ef þeir hefðu ekki tekið það ráð, að fella gjaldeyri sinn, og byggja þjóðhaginn svo upp aftur á grundvelli verðfestra peninga.

Í lok ræðu sinnar vjek hæstv. forsrh. að því, að hann væri fús á að vinna með okkur festingarmönnum að jöfnun þess misrjettis, sem frekari gengisbreytingar sköpuðu milli borgaranna innanlands. Þessi yfirlýsing gladdi mig, því jeg skoða hana sem tilsveiging í málinu á leið til okkar, festingarmanna. Vil jeg fúslega rjetta hendina á móti til samvinnu um þann tilgang frv., sem er annar aðaltilgangur þess, því eftir það væri auðveldara að ná samkomulagi um það, sem eftir er: verðfesting eða hækkun peningannna.

Jeg gæti gengið inn á líka leið og háttv. þm. Str. mintist á í gær. Jeg get hugsað mjer þá leið, að ákveða öllum fjárkröfum gildi eftir núverandi gengi. En jeg vil ekki taka einstakar tegundir skulda út úr, eins og hann talaði um. Jeg er reiðubúinn, ef frv. fellur, að leggja fram tillögur í þá átt, sem jeg nú gat um.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál nú, og þykist jeg hafa stilt orðum mínum svo í hóf, að þau gefi ekki tilefni til frekari umræðna. Jeg hefði ekkert sagt, ef hæstv. ráðh. (JÞ) hefði ekki ráðist svo freklega á frv.