15.03.1927
Neðri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í C-deild Alþingistíðinda. (3037)

79. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Hjeðinn Valdimarsson:

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, gengur út á það, að gengismálið verði afhent gengisnefnd til afgreiðslu, og þar með slept þeim áhrifum, sem þingið hingað til hefir haft á það, en gengisnefndin látin ráða. Nú er það áreiðanlegt, að mikill meiri hl. þjóðarinnar er þeirrar skoðunar, að gengið megi undir engum kringumstæðum falla niður fyrir það, sem það er nú. En eftir því frv., sem hjer liggur fyrir, mun gengið annaðhvort hækka eða lækka, frá því sem nú er. Hvort það hækki eða lækki er aðeins komið undir því, hvert er hið raunverulega gildi krónunnar nú, eftir undangenginni rannsókn gengisnefndar. En hvernig er sú gengisnefnd saman sett? Hún yrði eins saman sett og undanfarið, og sú nefnd hefir ekki reynst sem skyldi. Forsrh. útnefnir einn mann. Enda þótt hæstv. forsrh. hafi lýst yfir því, að hann sje nú mjög á móti lækkun krónunnar, þá hefir hann jafnframt lýst yfir því, að hann hafi gert það sem hann gat til þess að draga úr hækkun krónunnar, og játað að það hafi aðeins orðið fyrir óviðráðanlegar ytri ástæður, að krónan hækkaði eins og raun ber vitni um. Hann hafi barist á móti nauðsynlegri hækkun gengisins, en árangurslaust. Álít jeg því enga ástæðu til að treysta því, að sá maður, sem hæstv. forsrh. útnefndi í þessa nefnd, mundi ekki vera jafn tilslökunarsamur gagnvart þeim mönnum, sem vilja fyrir hvern mun halda gengi krónunnar niðri. Þá eru tveir menn, sem útnefndir eru af bönkunum. Það er kunnugt um þann manninn, sem annar bankinn hefir útnefnt, að hann hefir fylgt þeirri stefnu, að halda krónunni sem lægstri, því að bankinn hefir álitið sjer það til hagnaðar. Jeg veit að vísu ekki, hverjar breytingar kunna að verða, eftir að þetta nýja lán sem nú er á ferðinni, verður tekið, en jeg hygg, að þær verði þó ekki miklar. Þá eru enn tveir menn. Annar er útnefndur af Fjelagi ísl. botnvörpuskipaeigenda í Reykjavík, og mun enginn vafi á því, að fulltrúi þess fjelags vildi stuðla að gengislækkun. En auk þess er engin ástæða til, að það fjelag eigi sjerstaklega að útnefna þann mann, ef aðrir útflytjendur við sjávarsíðuna eiga þar ekki sæti, því að það fjelag hugsar aðallega um hag stærstu fiskútflytjendanna. Hinn maðurinn er tilnefndur af Sambandi íslenskra samvinnufjelaga. Menn vita það, að þótt það sje jafnframt fyrir kaupfjelög og sláturfjelög, þá hugsar fjelagsstjórnin aðallega um hag útflytjenda. Ef gengið er falið umsjá nefndar, sem þannig er skipuð, þá verður þar aðeins hugsað um hag útflytjenda. Hjer er ekkert verið að taka tillit til verkalýðsins, neytendanna, nje heldur innflytjenda, sem þó hafa í höndum sjer helming verslunarveltu landsins. Má geta nærri, að hvaða niðurstöðu þessi gengisnefnd mundi komast við rannsókn þá, er ákveða ætti gengið eftir. Ný gengislækkun, með hækkandi dýrtíð fyrir almenning mundi verða niðurstaðan. Í sambandi við þetta vil jeg algerlega mótmæla þeirri skoðun, sem bæði hefir komið fram hjá hv. þm. Str. og að nokkru leyti hjá hæstv. forsrh., að það gæti undir nokkrum kringumstæðum komið til mála, að farið væri að bæta upp þeim mönnum einum, sem taka lán úr ræktunarsjóði, ef gengið hækkaði. Það er ógerningur, og til þess er ekkert meiri ástæða heldur en bæta þeim mönnum upp gengishækkun, er hefðu fengið venjuleg bankalán eða lán hjá einstaklingum. Ekki er heldur meiri ástæða til að taka árið 1924 til samanburðar, heldur en hvert annað ártal eftir 1914, er röskun kom á peningagildið.

Jeg vil geta þess, að þótt jeg greiði atkv. með þessu frv. til 2. umr., þá geri jeg það aðeins fyrir kurteisissakir; jeg mun verða á móti málinu síðar.