15.03.1927
Neðri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í C-deild Alþingistíðinda. (3040)

79. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Ólafur Thors:

Það er aðeins örstutt athugasemd. Hv. flm. þessa frv. (TrÞ) hefir skorað á mig að segja sögu gengishækkunarinnar haustið 1925, en jeg vil ekki að óþörfu lengja umr., sem að mínum dómi eru þegar orðnar alt of langar. En jeg vil þó, að það sjáist í þingtíðindunum, að jeg hefi orðið við þessari beiðni hv. þm., og geri það aðeins með því að henda á ræðu, sem jeg flutti í þinginu í fyrra, þar sem jeg sagði sögu gengishækkunarinnar. Hefi jeg þar engu við að bæta, því að málið var þá í fersku minni. Jeg verð því við áskorun hv. þm. með því að skora á hann að lesa þessa ræðu mína. Í henni felast þær upplýsingar, sem jeg get gefið í málinu.

Að öðru leyti skal jeg ekki blanda mjer í þær umr., sem hjer hafa farið fram. Hæstv. atvrh. sagði nokkur orð um „flótta“ hæstv. forsrh. þótt jeg standi að ýmsu á öndverðum meiði við hæstv. ráðh. (JÞ) í gengismálinu, þá þykir mjer þó undarlegt, þegar sagt er, að hann renni af hólmi í orðasennu. Mjer þykir lofsvert, að hæstv. ráðh. gerir sitt til þess að stytta þær umr., sem hjer fara fram. Um hitt blandast engum hv. þdm. hugur, að hinn vígfimi ráðherra líkist þeim kappa í fornu hólmgöngunum, sem lagt hafði mótstöðumann sinn að velli, en ekki hinum, sem runnið hefir af hólmi.