11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í C-deild Alþingistíðinda. (3047)

82. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Árni Jónsson:

Það er rjett, sem stendur í greinargerð þessa frv., að það er gamall gestur hjer í hv. deild, og gæti að því leyti virst lítil ástæða til að ræða það. Jeg vil samt sem áður leyfa mjer að fara um það nokkrum orðum, nú þegar við þessa umr. Árin á undan hefir það farið svo, að fyrra árið kom það ekki frá nefndinni, og í fyrra var því svo gerbreytt, þegar það kom inn í hv. deild, að hv. flm. (TrÞ) hafði sjálfur orð á, að hann þekti þar ekkert aftur nema fyrirsögn frv.

Frv. er heldur ekki mikið breytt að efni, frá því sem var í fyrra, þó má ekki ganga fram hjá því atriði, að nú, eftir þennan langa undirbúningstíma, hefir hv. flm. dottið það snjallræði í hug, að heimila ríkisstjórninni að semja við Eimskipafjelag Íslands um ókeypis flutning á áburðinum. — Áður hefir staðið í frv., að ríkisstjórn heimilaðist að semja um flutninga á áburðinum við Eimskipafjelagið, og að kostnaður skyldi greiðast úr ríkissjóði. En nú stendur í frv.: „heimilast ríkisstjórninni að semja við E. Í. um ókeypis flutning áburðarins. Kostnaður greiðist úr ríkissjóði.“ Jeg býst við, að hæstv. stjórn sje fús til að gera slíkan samning um „ókeypis“ flutninga fyrir sitt leyti. En hitt er óvíst, hverju stjórn E. Í. þykist bættari, þótt hún heyri, að hún eigi kost á „endurgjaldi“ fyrir „ókeypis“ flutninga, úr ríkissjóði. Jeg verð að segja, að mjer þykir þetta undarlegur samsetningur, og held jeg, að það sje einhver spánný uppgötvun, að full borgun skuli koma fyrir það, sem ókeypis er.

Eins og hv. flm. (TrÞ) veit, er jeg honum alveg sammála um, að aukin ræktun sje grundvallaratriði fyrir viðreisn landbúnaðar vors, og eins um hitt, að viðreisn landbúnaðarins sje merkasta viðfangsefnið, sem nú liggur fyrir til úrlausnar hjer á landi. Einnig er jeg honum sammála um það, að notkun tilbúins áburðar sje þýðingarmikið atriði í viðreisn landbúnaðarins.

En þegar hv. þm. slær því föstu, að aukin ræktun hjer á landi svo að nokkru nemi sje óhugsandi án tilbúins áburðar, þá fer hann mjög villur vegar. Þar gerir hann aukaatriði að aðalatriði. Til þess að nota hans eigið orðalag, þá má segja, að þar sje „þyngdarpunkturinn í ræktunarmálum á skökkum stað.“ Því að eins og til hagar hjá okkur, er „þyngdarpunkturinn í ræktunarmálum“ þar, sem er betri hirðing þess áburðar, sem til fellur. — Nú hefir mjög fróðum manni í þessum efnum reiknast svo til, að bændur tapi árlega fyrir vanhirðu húsdýraáburðar um einni miljón króna. Hjer á landi eru áburðarhús og safnþrær ekki nema á sjötta hverjum bæ, og þó er mjög ljett fyrir bændur að koma á hjá sjer þessum umbótum. Með styrknum samkv. jarðræktarlögunum og lánum úr ræktunarsjóði er hægt að koma umbótum á, án tilfinnanlegra fjárútláta í bráð fyrir bændurna sjálfa. Ekkert er ónauðsynlegra unnið með þessari þjóð en að draga úr slíkum umbótum bænda á atvinnurekstri sínum, hvort sem það er gert með beinum úrtölum eða með því að dreifa huganum frá aðalatriðum að aukaatriðum.

Þetta mál getur ekki raunverulega talist mál bænda í landinu. Nýræktin er mest kringum kaupstaðina, en þar eru jafnframt markaðsskilyrðin best, svo að ekki virðist brýn þörf að styrkja búskapinn þar sjerstaklega. Skiftingin á þeim tilbúna áburði, sem undanfarið hefir flust til landsins, hefir verið sú, að 9/10 hafa farið kringum kaupstaði og kauptún, en aðeins 1/10 í sveitirnar. Þar sem ein miljón fer árlega í súginn fyrir vanhirðu á heimafengnum áburði, munar lítið um, þó gefið sje eitt þúsund á ári í sárabætur. Með þessu er verið að draga huga bænda að aukaatriðum í ræktunarmálunum. Það er ekki heldur nema lítill hluti af flutningskostnaðinum í sveitirnar, sem frv. fer fram á að borga. Þótt borgaðar sjeu 25 kr. á hverja smálest fyrir flutninginn á sjó, þá er það langdýrasta oft eftir, þar sem er flutningur á landi í fjarlægar sveitir.

Mál þetta er því ekkert sjerstakt stórmál bænda. Verður ekki einu sinni sjeð, að búnaðarþingið nú hafi verið nokkuð áfram um þetta mál, og hefir það þó látið öll framfaramál landbúnaðarins mjög til sín taka, að því er „Tíminn“ segir. — Hefði hv. flm. haft þarna nokkurn vilja bænda að baki sjer, býst jeg varla við, að hann hefði lagt launung á það, eftir því, hvernig hann er vanur að bera sig til.

Nú mun jeg ekki ræða meira um þessa hlið málsins, en snúa mjer að þeirri hliðinni, sem að Búnaðarfjelagi Íslands veit.

Um fá mál hefir verið meira rætt síðustu missirin en meðferð stjórnar Búnaðarfjelagsins á „áburðarmálinu“. Alt er mönnum þetta í fersku minni, ákærurnar, frávikningin og loks friðþægingin og hallelúja-söngurinn á búnaðaþingi.

Hjelt jeg því, að þegar hv. flm. flytti frv., teldi hann það skyldu sína að útskýra alt málið og gefa um það nákvæma skýrslu fyrir Alþingi. Í greinargerð þeirri, er stjórn búnaðarfjel. gaf fyrir frávikningunni, er það skýrt fram tekið, að stjórnin muni ekki taka frekari þátt í umræðum um málið, en láti það bíða aðgerða rjettra aðila, búnaðarþings og landbn. Alþingis. — Eftir fyrirkomulaginu á stjórn Bf. Í. er eðlilegast að líta þannig á þetta, að sá fulltrúinn, sem tilnefndur er af búnaðarþingi, skjóti máli sínu þangað fyrir sitt leyti, en hinir aftur á móti til umbjóðanda síns, Alþingis. Efndirnar á þessu hafa nú ekki orðið aðrar en þær, að allir hafa lagt sitt mál undir búnaðarþing. Með þessu virðist mjer, að þeir hafi brugðist umboði sínu, er Alþingi hefir veitt þeim. En þar til hv. flm. hafði talað, bjóst jeg við, að hann, sem formaður Bf. Í. og fulltrúi Alþingis í stjórn þess, mundi nota þetta tækifæri, svo tilvalið sem það sýnist, til að svifta hulunni af þessu máli.

Tveir aðilar málsins hafa borið hvor annan mjög þungum sökum. Stjórn Bf. Í. hefir borið búnaðarmálastjóra á brýn óheilindi og baktjaldamakk. Búnaðarmálastjóri ber stjórninni hinsvegar á brýn, að hún hafi farið með ofsóknir og ósannan áburð á hendur sjer. Held jeg því, að flesta hafi rekið í rogastans, er þeir heyrðu, að ekki var gert annað úr þessu að lokum en að „kompónera“ vöggulagið, og raula það síðan í rökkrinu þarna uppi á baðstofulofti, með hv. flm. þessa frv. sem forsöngvara.

Stjórn búnaðarfjelagsins gekk fram með meiri hörku í þessu máli en áður eru dæmi til hjer á landi. Svo viss þóttist hún um sekt búnaðarmálastjóra, að hún vjek honum frá starfi sínu umsvifalaust á miðju starfsári. Aðstaða stjórnarnefndarmanna var að vísu misjafnlega hrein, því að tveir vildu ýmist skjóta sjer bak við landbúnaðarnefndir Alþingis í málinu eða búnaðarþing, en sá þriðji, sem nú er farinn úr stjórninni, vildi skilyrðislaust frávikningu. En allir voru þeir sammála um sekt búnaðarmálastjóra.

Nú líður og bíður þar til búnaðarþing kemur saman. Allir vænta þess að nú muni málið upplýsast, þeir seku muni fá sinn dóm, og þeir, sem sýknir eru saka, fulla uppreisn í almenningsálitinu. Búnaðarþing kaus svo rannsóknarnefnd í málið. Hún hóf starf sitt þegar í þingbyrjun og starfaði víst óslitið alt til þingloka. En þá skeður það undarlega, að í stað þess að málið upplýsist á búnaðarþingi, má svo segja, að það hafi aldrei verið vendilegar grafið heldur en einmitt nú. Það eina, sem menn fá að vita, er, að aðilar hafi sæst. En með hvaða skilyrðum? — Hefir stjórn Bf. Í. etið ofan í sig allan áburðinn á búnaðarmálastjóra og játað, að það væri „tilbúinn áburður“? Eða hefir búnaðarmálastjóri játað sig sekan og beðið stjórnina afsökunar? Það virðist mjer mjög ósennilegt, sakir þess, að búnaðarþing vottaði honum traust sitt, en þá yfirlýsingu skildu margir sem vantraust á stjórn búnaðarfjelagsins. — Þriðji möguleikinn er til, og hann er sá, að báðir aðilar hafi rangt fyrir sjer, og vilji því ekki, að sannleikurinn komi í ljós.

En Bf. Í. er opinbert fyrirtæki, sem bændur landsins eiga mikið undir að geta treyst. Því meiri kröfu eiga þeir til þess, þar sem það er styrkt af almannafje. En eins og nú er ástatt, er ómögulegt að treysta framkvæmdastjórn þess. Ef ákærur stjórnarinnar á hendur búnaðarmálastjóra hafa verið rjettar, fæ jeg ekki sjeð, hvernig hún getur starfað með honum áfram. En hafi þær verið rangar, er hætt við, að samvinna af hendi búnaðarmálastjóra kunni að verða örðug. Jeg fæ ekki skilið, að til geti verið á Íslandi einn einasti maður, sem geti treyst þessari framkvæmdastjórn, þannig samsettri. (TrÞ: Nema búnaðarþingið!).

En hvernig eru þessar sættir? Utan af landi koma átta menn og greiða atkvæði um það, að nú skuli þessir tveir aðilar vera sáttir. Formaður Bf. Í. stendur upp og lýsir yfir því, að hann sje hjartanlega sáttur, en sumir segja, að Sigurður Sigurðsson hafi ekki greitt atkvæði, eða jafnvel, að hann hafi greitt atkvæði á móti sáttunum (TrÞ: Sigurður Sigurðsson greiddi atkv. með sættunum!).

Jeg álít, að ef stjórn Bf. Í. vill fara fram á að fá aftur einkasölu á áburði, verði hún fyrst að upplýsa þetta mál. Annars væri það að mínum dómi óviðeigandi traustsyfirlýsing og óverðskulduð, til stjórnar Búnaðarfjel. Íslands, að Alþingi samþykti þetta frv.